12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera örstutta aths. til að mótmæla því, hvernig hv. 2. þm. Reykn. notar tölur um íbúafjölda í ýmsum héruðum hér á landi. Hann sagði t.d. svo frá, að það hefði fjölgað um nokkra tugi á Vesturlandi. Af því átti að draga þá ályktun, að þar hefði orðið íbúafjölgun, ekki fækkun. Þar sé því engin ástæða til aðstoðar við atvinnuvegi. Ég vil benda á, að því aðeins er hægt að draga ályktanir af svona tölum, að menn beri þær saman við þá heildarfjölgun, sem verður í landinu, og þá prósentufjölgun, sem er yfirleitt með þjóðinni. Ég hef ekki handbærar tölur um þetta, en mér skilst, að íbúafjölgun Íslendinga sé eitthvað nálægt 2% á ári. Það þýðir, að í Vesturlandskjördæmi hefur á einu ári orðið eðlileg fjölgun um 260 manns og þó að fjölgun íbúa í kjördæminu eftir hagskýrslum eftir árið sé 50–60 manns, þá hafa um 200 manns flutt í burtu. Við skulum taka Norðurland. Þar eru 1. des. 1968 31832 íbúar. 2% af 31700 íbúum eru 634. Norðlendingar hafa sjálfir séð fyrir fjölgun, með 2% meðaltali, upp á 634. Þó að skýrslur sýni eftir árið íbúafjölgun, við skulum segja 150, þá hafa þeir samt tapað 500 manns. Hvar hefur hin raunverulega fjölgun lent? Ég vil vara við því, að menn dragi svona einfaldar og alrangar ályktanir með því að líta fljótlega á tölur. Það verður að skoða þetta í samhengi og athuga heildarfjölgun þjóðarinnar, hvar sú fjölgun verður til og hvar fólkið sezt að. Með því að lita fljótlega á þetta mál sýnist mér, að jafnvel í Vesturlandskjördæmi, sem er við bæjardyr þéttbýlisins í kringum Reykjavík og er mjög byggilegt land, sjálfsagt að mörgu leyti byggilegra heldur en ýmis þau fjarlægari héruð, sem landsmenn berjast harðri baráttu við að halda í byggð, sé útkoman ekki betri en þetta. Við vitum, að það er stöðugt útstreymi af fólki frá Vesturlandi hingað suður eftir, miklu meira en tölurnar sýna, því að bæði flyzt þangað fólk úr fjarlægari héruðum, svo að brottflutningurinn frá Vesturlandi, sem er nálega allur hingað suður yfir Faxaflóa, er enn þá meiri en tölurnar sýna.