12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í D-deild Alþingistíðinda. (3547)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram. Ég tel það góðra gjalda vert að gera Alþ. grein fyrir því, hvernig háttað hefur verið starfi og úthlutun hjá atvinnumálanefnd. En ég held, að það geti orkað tvímælis, hvort rétt hafi verið að gefa samtímis skýrslu yfir þá sjóði, sem þarna eru látnir fylgja með. Það hefur komið fram, að Atvinnujöfnunarsjóður er talinn gegna að nokkru leyti öðru hlutverki en gert var ráð fyrir með atvinnumálanefndunum. Um Fiskveiðasjóð er það vitað mál, að hann gegnir allt öðru hlutverki, og það er sýnilegt, að þessar umr. hafa einmitt sérstaklega dregizt á langinn af þeim sökum og það hefur gefið tilefni til viss misskilnings, að þessu hefur verið blandað saman. Ég tek undir það, að ef á að fara að gefa einhverja heildarmynd um útlánastarfsemi til framkvæmda, þá er auðvitað ástæða til þess að draga fleiri sjóði inn í þetta mál. En ég vil leyfa mér að taka undir það, sem komið hefur fram hér hjá öðrum hv. þm. og leggja áherzlu á það, að einmitt séu gefnar út og prentaðar skýrslur um starfsemi atvinnumálanefndar og ýmissa annarra sjóða, því að allur almenningur á heimtingu á því að fylgjast með í þessum efnum, og þó að ekki þyki góð latína að gefa út skýrslu um lán banka til einstakra manna, þá gegnir auðvitað allt öðru máli um þær fyrirgreiðslur, sem hér er um að tefla. Það er auðvitað sjálfsögð regla, að sýnt sé, hvert þessi lán fara, og ég held, að þetta megi að mörgu leyti setja á bekk með fjárveitingum og að ekki sé verið að draga neina dul á það, til hvers hver og ein einstök fjárveiting fer.

Annars vil ég segja það, að þessar umr. og þetta, að þessum sjóðum er hér blandað saman, vekur nokkra athygli á því, sem ég hef hér hreyft áður, hvort ekki sé ástæða til að sameina eitthvað þessar stofnanir og beita þeirri hagræðingu, sem svo mjög er í tízku í þessum efnum um þær, ef talið er, að þær eigi eitthvað sameiginlegt.

Og svo vil ég segja það, að ég álít, að það sé misskilningur að fara út í einhvern meting á milli einstakra kjördæma í þessu sambandi. Það er kannske svarið; sem gefur tilefni til þess, en ég álít satt að segja, að það sé ekki rétt að byggja svona skýrslu upp þannig að vera að gera upp á milli kjördæma. Þessar fyrirgreiðslur verða auðvitað að fara til þeirra staða, þar sem þörfin er og það skiptir ekki máli, hvort það er í þessu kjördæmi eða hinu. Auðvitað eru aðstæður innan hvers kjördæmis ákaflega mismunandi, en það á að sjást hreinlega, til hvaða staða þetta fer. Og svo vil ég svona í leiðinni minna á það, að á Norðurlandi eru tvö kjördæmi. Úr því að verið er að greina hér á milli kjördæma, þá kynni ég nú betur við, að nöfnin á þeim væru látin haldast.

Svo var Axel Jónsson, hv. 4. þm. Reykn., eitthvað að senda mér skeyti hér áðan, að ég hefði gert kröfu um það, að fé væri sérstaklega lagt til byggingar alþingishúss og stjórnarráðshúss. Ég vil minna þann góða og hv. þm. á það, að ég var að tala um nauðsyn á atvinnuaukningu og alveg sérstaklega í byggingariðnaði og benti á það, að bygging íbúðarhúsa væri þar ekki einhlít. Það þyrftu að koma til stórar framkvæmdir. Ég nefndi að vísu alþingishús og stjórnarráðshús, en ég nefndi einnig skólabyggingar og sjúkrahús. Þessum hv. þm. hefur af einhverjum ástæðum þótt rétt að gleyma þeim dæmum.

Ég skal svo endurtaka það, að ég vil leggja áherzlu á, eins og ég reyndar þegar hef gert, að útbýtt verði prentuðum skýrslum um þetta. Það á ekki að vera nein hula yfir þessum efnum og það á að sjást ljóst, hvert þessar fyrirgreiðslur fara, og það á ekkert að vera að greina á milli kjördæma eða miða við þau.