12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (3550)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þær umr., sem hér hafa farið fram. Í upphafi máls míns reyndi ég að haga skýrslu minni svo að halda mér einungis að þeim atriðum, sem um var spurt og skýra þau. Umr. hafa hins vegar farið töluvert á víð og dreif, eins og verða vill. Varðandi það, sem sumir hafa fundið að, hvernig þessari skýrslugjöf er háttað, að þarna eru teknir tveir sjóðir upp til samanburðar, þá tek ég alveg undir það og get vitnað til þess, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Starfsemi þessara aðila allra hefur verið nátengd á þessu ári og það er ómögulegt að meta rétt, hvað atvinnumálanefndirnar hafa gert, atvinnumálanefnd ríkisins, nema hliðsjón sé höfð af þeim tölum, sem hér er um að ræða. Málum hefur verið vísað iðulega frá atvinnumálanefnd ríkisins til þessara aðila og þeir leyst mörg þau vandamál, sem upp hafa komið. Þetta er staðreynd, sem ekki verður fram hjá komizt.

Það má auðvitað segja og ég játa það, að fróðlegt hefði verið að hafa einnig til samanburðar hér lán Húsnæðismálastofnunar að undanförnu, en milli hennar og atvinnumálanefndar ríkisins hefur ekkert slíkt samstarf átt sér stað. En það hefði gefið ranga og villandi mynd, ef tölurnar hefðu einar verið birtar varðandi atvinnumálanefnd ríkisins, og þm. hafa auðvitað dómgreind til þess að skilja þar á milli, eins og líka komið hefur fram hjá mörgum þeirra. Ég skal ekkert segja um þá, sem annað mætti segja um, en þeir um það.

Varðandi einstakar fsp. vil ég taka fram út af því, sem hv. 5. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, sagði um tilflutning báta, að það er auðvitað viðkvæmt mál. Til þess geta oft legið ríkar ástæður. En atvinnumálanefnd ríkisins hefur ekki haft nein afskipti af þeim málum. Hann gaf það ekki í skyn, heldur vitnaði í Atvinnujöfnunarsjóðinn, en samt er ástæða til þess að leggja áherzlu á það enn.

Út af fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e., þá voru opinberar framkvæmdir styrktar með lánveitingum í samráði við atvinnumálanefndir héraðanna, sem auðvitað höfðu samráð við sínar sveitarstjórnir og enn fremur við rn., sem um þessi mál fjalla. Það er að vísu rétt, að einna mest kvað að þessum lánveitingum til Reykjavíkur og Akureyrar. En ég hygg t.d. einnig, að staður eins og Vopnafjörður hafi notið þar góðs af. Um lánveitingar til fyrirgreiðslu skólafólks, þá voru settar um þær ákveðnar reglur og sveitarstjórnum, sem fullnægðu þeim reglum, gefinn kostur á þeim lánum, þannig að þar var reynt að fylgja almennri reglu.

Menn hafa fagnað því að fá þessar skýrslur og ég met það. En það hefur verið fundið að því, að þær skyldu ekki vera ítarlegri og með öðrum hætti. Eðlilegt er, að hér sé miðað við héruðin á þann veg, sem gert er, vegna þess að lögin gera þá skilgreiningu. Menn getur svo greint á um það, hvort það sé skynsamleg skilgreining eða ekki, og hv. þm. Ólafur Jóhannesson, 1. þm. Norðurl. v., hefur fundið að þessu fyrirkomulagi frá upphafi. En þessi skipan var á höfð og því eðlilegt, að skýrslugjöfin sé við þann hátt miðuð. Eins tók ég það fram í upphafi máls míns, að upphaflega var skýrslan samin til leiðbeiningar héraðanefndunum og til þess að gefa þeim kost á að koma þá sínum aths. fram.

Hitt lízt mér ekki á, eins og einhver hreyfði, að það ætti að prenta lista yfir þá einstaka lántakendur, sem fyrirgreiðslu hefðu fengið, sem væri þá líka algerlega villandi, nema prentaður væri listi yfir þá, sem synjað er. Slíkt er ekki hægt að gera varðandi lánastofnanir, því að eins og menn vita, hvílir þagnarskylda á almennum lánastofnunum um viðskipti. Sú skylda er ekki lögð á í þessu sambandi. Engu að síður hygg ég, að ekki sé gerlegt að prenta slíka skýrslu. Hitt er annað mál, að ef einstakir þm. óska eftir að sjá þessi gögn, er ekkert því til fyrirstöðu, að þeir geti fengið þau að skoða, og verður þó vitanlega að fara varlega í, hversu langt skuli ganga í þeim efnum.

Um Reykjavík er það rétt, að hér hafa allmargar umsóknir einstaklinga verið lagðar fram, sem ekki þótti fært að sinna af hálfu nefndarinnar. Nú skal ég taka það fram, að við undruðumst það í nefndinni í upphafi, hversu fáar umsóknir komu frá Reykjavík, og hygg ég, að orsökin til þess, að ekki skuli fleiri einstaklingar fá lán, sé fyrst og fremst sú, hversu fáir sóttu og hvernig umsóknum var varið. Ekki er mitt að fara hér að gera grein fyrir því, sem varð því valdandi, að einstökum umsóknum, hvort heldur í Reykjavík eða annars staðar, varð ekki sinnt. Það á ekki við. En eins og ég tók fram í mínum inngangsorðum, þá felst engan veginn í svo kallaðri synjun það, að ekki hafi átt sér stað fyrirgreiðsla í þessum efnum. Þvert á móti var aðilum í mörgum tilfellum vísað til annarra stofnana ýmist til fjárfestingarstofnana, sem hér er um að ræða, svo sem Fiskveiðasjóðs — Atvinnujöfnunarsjóður kom ekki til greina varðandi Reykjavík — eða til bankanna. Og það er vitað mál, að sumir hafa fengið þar fyrirgreiðslu.

Enn fremur vil ég leggja á það áherzlu í þessu sambandi, að í Reykjavík vitum við, að vandi okkar í dag er ekki sá, að við höfum ekki nóg af ýmiss konar iðnaðarfyrirtækjum starfandi. Þvert á móti hefur verið fundið að því, að þau fyrirtæki sum, sem hér væru, gætu ekki unnið af fullri orku vegna rekstrarfjárleysis. Þess vegna verður að skoða þessar umsóknir, ekki sízt frá Reykjavík, og raunar að nokkru leyti frá öðrum, í ljósi þess, að m.a. fyrir atbeina þessarar nefndar, en auðvitað með ákvörðun Seðlabankans og skilningi hans að lokum, var veitt mjög veruleg fyrirgreiðsla um rekstrarfjárlánin. Um það má deila, hvort það hafi endilega verið þau réttustu lánskjör, sem ákveðin voru. Nú vitum við það og ekki sízt sá hv. þm., sem taldi lánskjörin hafa verið óheppileg, að þó að fé sé veitt til einhvers tíma í upphafi, þá vill stundum dragast, að lán séu greidd, og er slíkt ekki einstakt í hans banka, heldur í öllum lánastofnunum í landinu, ekki sízt þeim, sem veita rekstrarlán eða annað þvílíkt. Ég hygg, að það muni vera farið að nálgast nú 150 millj., sem Seðlabankinn hefur veitt í þessu skyni. Samkv. gögnum, sem ég hef, hafði þegar í ágústlok verið lánað 1121/2 millj. kr. og auk þess lofað að áætla til viðbótar 28 millj., þannig að lánaðar voru rúmar 140 millj., auk þess sem áburðarverksmiðjan hafði fengið sérstaka fyrirgreiðslu, um 30 millj., hjá Seðlabankanum. Þarna er um að ræða mjög verulegar fjárhæðir, sem ekki koma sízt iðnfyrirtækjum í Reykjavík til gagns. Þetta er okkur öllum ljóst.

Varðandi þau iðnfyrirtæki, sem eitthvað munar um í fjárhæðum, þá er það rétt, að þau eru úti á landi. En er nokkur okkar, sem í alvöru vill halda því fram, að rangt hafi verið að veita fé til uppbyggingar á Akureyri eftir þann mikla bruna, sem þar varð, og áfall, sem atvinnulíf á Akureyri varð fyrir með þeim hætti, jafnvel þó að ekkert annað hefði komið til greina? En þá er á það að líta, að bæði á Akureyri og Sauðárkróki er verið að ráðast í mjög merka nýja framleiðslu, skinnameðferð og hagnýtingu þeirrar íslenzku efnivöru á hagkvæmari, arðvænlegri og meira vinnugefandi hátt innanlands heldur en áður. Þetta voru stórmerkar framkvæmdir, sem við frá upphafi vildum styðja. Við lögðum strax til hliðar eina stærstu fjárhæðina, sem við veittum einstökum aðila, einmitt til fyrirtækja SÍS á Akureyri, til þess að þau gætu komið fram þessari merku nýjung.

Þegar menn eru svo að bera saman einstaka landshluta og telja hér ýmsir, bæði í ræðum og eins heyri ég á þingbekkjum, að skýrslan sýni, að Norðurland hafi fengið hlutfallslega of mikið, þá vil ég biðja menn að athuga þessar tölur, eins og þær liggja fyrir. Það er algerlega rangt, að atvinnuleysi sé hlutfallslega mest í Reykjavík, eins og einhver hv. þm. sagði. Atvinnuleysi er hlutfallslega langsamlega mest á Norðurlandi. Ég vil vekja athygli á, að þrátt fyrir þær miklu fjárveitingar, sem við höfum varið til Norðurlands, þá er þar enn langmest atvinnuleysið og það, sem erfiðast er viðureignar, og áreiðanlega þarf stórátak til þess að ráða bug á. Atvinnuleysi er hér í Reykjavík þrátt fyrir það — ég vil ekki gera lítið úr því en það er ekki nema smáræði miðað við það, sem er á Akureyri og Siglufirði. Þetta verða menn að játa, og þeim mönnum, sem falið er að ráða bót á atvinnuleysi eins og það er á tilteknum tíma, ber auðvitað skylda til að reyna að leysa þann vanda eins og hann er. Það er enginn vafi á því, að okkar aðgerðir hér í Reykjavík — ég skal koma að því á eftir hafa haft margvísleg áhrif og verkað mjög til góðs. Ég játa, að þær hafa gert það á Norðurlandi og eiga eftir að hafa enn meiri áhrif. En vandinn er þar óneitanlega miklu meiri. Við sjáum einfaldlega af þessum tölum, að af mannfjölda á landinu alls er á Norðurlandi 1. des. 15%, en nú, 31. okt., er 41%af öllu atvinnuleysi á landinu á Norðurlandi, þ.e. töluvert meira en tvöfalt hærra en nemur hlutfalli þeirra af öllum mannfjölda. Í Reykjavík er það þó hlutfallslega minna heldur en mannfjöldahlutfallinu nemur. Og ég hygg, að þegar menn skoða þessar tölur og meta, þá geri þeir sér ljóst, að ef hægt er að segja, að einhverjum hafi sérstaklega verið ívilnað, þá er það auðvitað Norðurlandið, af því að það fær svo hlutfallslega langmest af því, sem hér hefur verið úthlutað. En það hefur verið óverjandi annað heldur en gera það fyrir þá, sem reyndu að leysa þetta mál eftir efnislegum rökum, en ekki með þröng kjördæmasjónarmið fyrir augum. Það var alvarlegt ástand á Austurlandi og er að vissu leyti enn. Miðað við mannfjölda er ástandið þar verra en í Reykjavík. Það mætti segja. að við hefðum þess vegna ekki gert eins vel við Austurland eins og Reykjavík hlutfallslega og alls ekki gert eins vel við Norðurland hlutfallslega eins og gert er við Reykjavík, þegar á vandann er litið, eins og hann liggur fyrir í dag. Þess vegna er þetta tal um það, hvort eitthvað hafi fjölgað meira eða minna á Norðurlandi, sannast sagt algerlega út í bláinn í þessu sambandi, af því að við vitum og sjáum, a.m.k. meðan síldveiði bregzt jafngersamlega og hún hefur brugðizt og meðan Norðurland á að búa við sína erfiðu veðráttu eins og t.d. nú, þá er ástandið þar því miður langlakast á landinu. Það er okkar höfuðvandamál, ef svo má segja.

Varðandi aftur á móti byggðirnar hér suður um, þá verður auðvitað ekki á móti því mælt, að Reykjavík og Reykjanes hafa notið stórkostlegra hlunninda og góðs af þeim miklu framkvæmdum, sem hér hafa verið, bæði Búrfellsvirkjun og álbræðslu. Þetta á auðvitað enn frekar við um Reykjanes heldur en okkur. Það má vitna í fleiri opinberar framkvæmdir þar suður frá. Það má vitna í hafnargerðina í Straumsvík, það má vitna í hinar miklu framkvæmdir í Kópavogi. Þegar á þetta allt er litið, sjáum við, að þörfin fyrir þessa aðstoð, sem við áttum að veita, var ekki eins brýn, a.m.k. ekki í Reykjaneskjördæmi, eins og annars staðar.

Aftur á móti má þá spyrja, og því er haldið fram hér af sumum: Var hallað á Reykjavík? Miðað við árangur og miðað við hlutfall vandans er ekki hallað á Reykjavík, ef við berum hana saman við Austurland og Norðurland. Það þori ég að fullyrða. Það má segja, að það sé hallað á Reykjavík miðað við Vestfirði og aðra slíka, þar sem tölurnar voru þannig, að ekkert atvinnuleysi var á þeim tíma, þegar verið var að úthluta þessu fé. En ef við hefðum átt að taka fé og flytja það frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, hefði það fyrst og fremst hlotið að bitna á Norðurlandi. Og ég þori að fullyrða og segi það alveg hiklaust sem 1. þm. Reykv., að þá hefði verið framið ranglæti gagnvart Norðlendingum, sem ég vil ekki sem alþm. eða stjórnandi bera ábyrgð á. Hér verður auðvitað svo til viðbótar að gæta þess, og þá vitna ég í það, sem einn hv. þm. Reykv. sagði hér áðan, þegar hann talaði um, að sjávarútvegi færi hér hnignandi, að í þeim tölum, sem birtar eru á skránni, eru ekki taldar með þær 26 millj., sem lagðar hafa verið til hliðar handa Reykjavík til eflingar fiskveiða. Og það var einmitt eftir fullkomnu samráði við atvinnumálanefnd Reykjavíkur, sem sú ákvörðun var tekin. Það voru ýmsar bollaleggingar um, hvernig því fé ætti að verja. En niðurstaðan varð þessi, að leggja fé til hliðar, að Reykvíkingar fengju í raun og veru ákvörðunarrétt um þetta, en með samþykki atvinnumálanefndar ríkisins, þegar þar að kemur. Þar er um alveg öruggan og ákveðinn sjóð að ræða, sem Reykjavík hefur í handraðanum. En Reykjavík hefur auðvitað einnig öðrum fremur notið góðs af þeirri fyrirgreiðslu, sem lánveitingar Seðlabankans til iðnaðarins gera mögulega. Reykvískur iðnaður hefur einnig notið mjög góðs af gengislækkuninni. Það er ómótmælanlegt, enda er það vitað mál, að hann hefur eflzt síðustu misseri.

Varðandi byggingariðnaðinn er það einnig ljóst, að hann hlýtur mjög að njóta góðs af þeim ráðstöfunum, sem nú hafa verið ákveðnar og miðaðar eru einmitt við þær ráðstafanir, sem fulltrúar byggingariðnaðarmanna sjálfra töldu verða að mestu gagni. Það var mjög rætt um það í haust og síðari hluta sumars, hvort vænlegra væri að veita nú verulegt fé til lána til algerra nýbygginga eða til þess að ljúka þeim byggingum, sem þegar eru komnar nokkuð á veg. Og það var sett upp ákveðin áætlun um þær framkvæmdir einmitt með það fyrir augum, að þeir, sem kunnugastir voru byggingariðnaðinum hér, sögðu: Með þessu móti kemur féð að langsamlega mestu gagni. Í fyrravetur var útvegað fé allt að því 120 millj., sem að mestu leyti fór einnig til bygginga í Reykjavík, eins og að var fundið af ýmsum öðrum. Þá var sagt: Sú fjárveiting kom ekki að fullu gagni vegna þess, að hún fór verulega til þess að greiða upp skuldir. Það var auðvitað liðkað til á ýmsa vegu, en því var haldið fram, að það hefði ekki orðið til þess að bæta verulega úr atvinnuleysi. Nú var haft samráð við fulltrúa iðnstéttanna um það, hvernig þessu fé yrði bezt varið og það var beinlínis eftir þeirra till., sem þessi háttur var á hafður og sú ákvörðun gerð, sem lýst var í tilkynningu félmrn. frá 16. sept. Ég skal ekki lesa hana hér upp, en mönnum er hún efnislega kunnug. Þetta stendur óhaggað.

Þess vegna held ég, að þegar þetta mál er skoðað, hafi verið reynt eftir föngum að gæta réttar og þarfa allra aðila, eftir því sem hægt er miðað við takmarkaðar fjárhæðir. Það er ómótmælanlegt, að það var hægt með ýmsum tiltölulega litlum fjárveitingum eftir þær almennu efnahagsráðstafanir, sem gerðar voru í fyrra, að hleypa miklu fjöri í atvinnurekstur víðs vegar um landið með þeirri fyrirgreiðslu, sem nefndirnar veittu, en það þurfti stórfé til þess að bæta úr brýnni þörf á Norðurlandi, þá ekki sízt á Akureyri og Siglufirði og að nokkru leyti á Sauðárkróki. Þetta var gert. Í Reykjavík hefur verið reynt að greiða fram úr þeim málaleitunum, sem til nefndarinnar komu, jafnvel þó að nefndin teldi sér ekki fært að verða við þeim í einstökum tilfellum, og Reykvíkingar öðrum fremur njóta góðs af þeim almennu ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í lánamálum, bæði verksmiðjuiðnaðar og byggingariðnaðar. Hitt er svo annað mál, að það verður, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, að fylgjast með þessum málum og sjá, hvað unnt sé að gera. Það er alveg rétt. Og þessi mál verða aldrei afgreidd í eitt skipti fyrir öll meðan við erum í vanda stödd. Aftur á móti sjáum við, hvernig atvinnuleysið sveiflast til, jafnvel hér í Reykjavík, en einnig á ýmsum stöðum úti á landi, algerlega eftir tíðarfari og gæftum, sem auðvitað verður ekki ráðið við með opinberum aðgerðum nema að sáralitlu eða engu leyti. Það eru staðreyndir.

Mér er það ljóst, að þessar umr. um fsp. gefa mönnum ekki færi til þess að ræða málið frá öllum hliðum. En fsp. komu fram og ég hef reynt að svara þeim eftir því sem kostur var og reynt að haga mínum málflutningi þannig, að hann yrði frekar til upplýsingar, en ekki til áreitni þannig, að af því þyrftu út af fyrir sig að spretta langar umr.