19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í D-deild Alþingistíðinda. (3576)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. í fyrsta lagi, hvað líði framkvæmd þáltill. frá 14. maí 1969 um skóla- og námskostnað. Í till. þessari segir á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera yfirlit um kostnað ríkisins við skyldunám og framhaldsskóla. Skal af yfirlitinu mega sjá, hver hann er: a) við heimavistarskóla, b) við aðra skóla.

Einnig komi fram í yfirlitinu, hver aðstöðumunur nemenda er, sem verða að vista sig langtímum saman utan heimila sinna við nám, og hinna, sem sækja skóla frá heimilum sínum og hafa þar alla vist. Stefnt verði að því, að yfirlit þetta verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþ.“

Þetta var þáltill. frá 14. maí 1969 um skóla- og námskostnað.

Í öðru lagi hef ég leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh., hvort vænta megi till. frá ríkisstj. um að bæta aðstöðu þeirra nemenda, sem þurfa að búa utan heimila sinna meðan á námi stendur í skyldunámsskólum, gagnfræðaskólum og menntaskólum. Það er viðurkennd staðreynd, að þeir nemendur, sem búa utan heimila sinna meðan á námi stendur, hvort heldur er í skyldunámsskólum, gagnfræðaskólum, menntaskólum eða jafnvel háskóla, verða að greiða margfaldan kostnað af námi sínu miðað við hina, sem eiga heimili á skólastaðnum. Er þessi kostnaður oft svo tilfinnanlegur, að mörgum heimilum, sem þurfa að kosta mörg börn eða unglinga í skóla, liggur við að sligast undir honum.

Þess eru einnig fjölmörg dæmi, að unglingar, sem lokið hafa skyldunámi, verða að hætta við frekara nám, enda þótt þeir séu gæddir ágætum námsgáfum og hafi einlægan áhuga á að afla sér frekari menntunar. Er óhætt að fullyrða, að af þessu leiði mikið þjóðfélagslegt tjón, auk þess ranglætis, sem í því felst, að efnilegir unglingar skuli af efnahagsástæðum ekki geta aflað sér þeirrar menntunar, sem hugur þeirra stendur til. Úr þessu misrétti verður þess vegna að bæta. Í því sambandi koma ýmsar leiðir til greina. Eðlilegt sýnist að greiða ákveðna upphæð hverjum nemanda á hvern dvalardag utan heimilis við nám, lægri upphæð þeim, er njóta heimavistar og sameiginlegs mötuneytis, en hærri upphæð þeim, sem utan þeirra búa, þar sem kostnaður þeirra yrði í flestum tilfellum bærri. Þessi upphæð yrði að vera það há, að hlutaðeigandi nemendur yrðu eigi verr settir en hinir, sem stunda skólagöngu frá heimilum sínum. Til þess að koma þessu réttlætismáli í framkvæmd yrði annað tveggja að gerast: að sett yrði sérstök löggjöf um hana, þ.e. aðstoðina, eða notuð yrðu ákvæði gildandi laga eftir því sem þau duga, t.d. í þágu skyldunámsnemenda. Um slíka aðstoð við framhaldsskólanemendur yrði hins vegar að setja nýja löggjöf. Kjarni málsins er, að þann tilfinnanlega aðstöðumun, sem nú ríkir í þessum efnum, verður að jafna. Annað er ekki sæmandi.

Ég vænti, að af svari hæstv. menntmrh. við fsp. mínum muni koma í ljós, hvernig þessi mál standa, og hvað hæstv. ríkisstj. og hann hafa í hyggju að gera til úrbóta í þessu máli.