19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu erfitt verk að átta sig á öllum þeim tölum, sem hæstv. ráðh. las hér upp áðan, og skal ég ekki fara mikið út í þær. En mig langar til þess að biðja hann að svara því, hvort þær tölur, sem hann nefndi um fæðiskostnað í heimavistarskóla, væru um nokkuð fleira en fæðið, sem hann var að tala um. Það er þá ekkert annað.

Þær tölur, sem hann nefndi, náðu eingöngu til fæðis í heimavistarskólum. Ég held, að þetta séu harla litlar upplýsingar um það, hversu miklum mun það er dýrara fyrir nemendur að dvelja í skólum fjarri heimilum sínum, miðað við hina, sem geta sótt skólann heiman frá sér. Það er sannarlega sitthvað fleira en fæði, sem þeir þurfa að borga. Ég heyrði hæstv. ráðh. ekki nefna neitt um húsnæðiskostnað, ekkert um ferðakostnað. Allt eru þetta hlutir, sem þeir verða að borga sérstaklega, sem eru langt að komnir og verða að dvelja fjarri heimilum sínum við nám. Í þál. þeirri, sem samþ. var á s.l. vori, var m.a. sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Einnig komi fram í yfirlitinu, hver aðstöðumunur nemenda er, sem verða að vista sig langtímum saman utan heimila sinna við nám, og hinna, sem sækja skóla frá heimilum sínum og hafa þar alla vist.“ Kemur það fram í þessari skýrslu, hver þessi munur er? Þessi er höfuðkjarni málsins, sem við þurfum að snúa okkur að núna, það er að finna þennan mismun. Ég tók eftir því, að þetta kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðh., en hvort það felst einhvers staðar í þessari skýrslu, þegar við fáum hana, það veit ég ekkert um.

Eins og hv. síðasti þm. nefndi, þá er það þessi kostnaður, sem er að gera fólki víðs vegar um landið ómögulegt að senda unglinga sína til náms, og við þessu þurfum við að fá svör. Hvað nemur þessi kostnaður miklu? Mismunurinn á kostnaði þeirra, sem verða að fara frá heimilum sínum, og hinna, sem geta sótt skólana daglega heiman frá sér. Ef skýrslan fjallar ekki um þetta, þá liggur mér við að segja, að ég þurfi ekki að sjá hana. Annars bíður hv. menntmn. þessarar hv. deildar eftir þessari skýrslu, því að til hennar er komið frv. hv. 9. þm. Reykv.

Þá er það annað atriði, sem ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðh. um líka. Kemur það fram í þessari skýrslu, hversu margir þeir nemendur eru í öllum skólum landsins, sem stunda nám fjarri heimili sínu? Ekki bara í barnaskólum, miðskólum og gagnfræðaskólum, heldur í öllum skólum landsins. Ef menn ætla að gera sér grein fyrir, hversu mikið vandamál þetta er, þá verður þetta tvennt að liggja fyrir, hversu margir eru nemendur í öllum skólum landsins, sem verða að dvelja fjarri heimilum sínum við nám, og hins vegar, hversu mikill mismunur er á kostnaði þessara nemenda miðað við hina, sem sækja skólana heiman frá sér. Komi þetta ekki fram í þessari skýrslu, þegar hún endanlega kemur okkur í hendur, þá vantar svo mikið á það, að menn geti skapað sér skoðun á því, hvernig á að leysa vandann, að það er varla hægt að mínum dómi.