19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (3582)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Mér finnst, að í þeim umr., sem hér hafa farið fram út af skýrslu menntmrh. um mismun á kostnaði við námsdvalir, hafi menn alltaf verið að bera það saman, hvað það kostaði annars vegar að búa í heimavist og hins vegar að sækja skóla heiman frá sér. En eru ekki fleiri vandamál í þessu heldur en bara þessi tvö, sem þarf að gera sér grein fyrir og bera saman? Ég held það. Ég held, að margir nemendur, sem ekki geta sótt skóla heiman frá sér, fái heldur ekki heimavist, m.ö.o., ef menn skilja ekki, hvað ég á við, þá sé hópur ungmenna, sem verður að kosta sig utan heimavista við framhaldsnám fjarri heimilum sínum, og ég hygg, að það sé þessi kostnaður, sem er þungbærastur fyrir aðstandendur þessara námsmanna og þá sjálfa. Ég veit, að þetta er ekki nýtt vandamál. Ég minnist þess frá mínum skóladögum, að það var aðstöðumunur þá ekkert síður en nú að koma úr sveit og kosta sig hér í Reykjavík í skóla, án þess að nokkur heimavist væri. Þetta vandamál er áreiðanlega ekki úr sögunni, og þær tölur, sem hæstv. menntmrh. flutti hér t.d. um nemendafjöldann í menntaskólunum, sýna það glöggt, að þetta vandamál hlýtur að vera til, því að í Reykjavíkurmenntaskólunum eru 1525 nemendur, eða meira en helmingur, miklu meira en helmingur af öllum menntaskólanemendum, og varla dettur okkur það í hug, að þessir 1525 nemendur séu allir úr Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi. Það er því ekki lausn á þessum vanda, sem ég er hér að tala um, þó að það tækist að lækka fæðiskostnað í heimavistum. Það kann vel að vera, að það sé nauðsynlegt, og heimavistardvöl er miklu dýrari en að búa heima hjá sér, en dýrast af öllu er þó að þurfa að sækja námið að heiman og fá ekki heimavist.

Ég fagna því, að það er kominn skriður á athugun þessa máls. Það er satt að segja búið að vera ótrúlega lengi á döfinni og næstum því óskiljanlegt, að fimm sinnum skuli hafa þurft að flytja þáltill. um það, að athugun færi fram á þessum aðstöðumun, áður en rn. hæstv. menntmrh. tekur til við þá athugun. Þessi þáltill. var víst samþ. í eitthvað breyttu formi í vor, en það hefur ekki unnizt tími til að vinna að henni betur en svo, að þegar við nokkrir framsóknarmenn vorum að velta þessu máli fyrir okkur í septembermánuði s.l., þá voru svörin, sem við fengum á æðri stöðum, þau, að engar upplýsingar væru um þetta mál. Það er ástæðan til þess, að ég lét þau ummæli falla hér við umr. um annað frv., frv. um ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála, þar sem vikið er að þessum þætti menntavandamálsins, að mér þætti það hart, að hið opinbera neitaði þm. um upplýsingar um það, sem verið væri að gera. Þá sagði hæstv. ráðh., að skýrsla um þetta mál yrði flutt hér á Alþ. næstu daga. Ég lét það gott heita, en nú er liðinn um það bil mánuður síðan þessi ummæli voru viðhöfð í Ed. Það er kominn hér útdráttur úr skýrslu að vísu, en þó ekki skýrslan sjálf og þangað til við sjáum skýrsluna verðum við að álíta, að þeirri spurningu, sem við höfum margir verið að velta fyrir okkur, sé þrátt fyrir allt alls ekki svarað, nefnilega þessari: Hvaða munur er á því að kosta nemanda í heimangönguskóla annars vegar og heimavistarskóla hins vegar og svo bæti ég við í þriðja lagi, hver er aðstöðumunur þess, sem hvorugra þessara kosta á völ?