19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í D-deild Alþingistíðinda. (3583)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Út af ummælum hv. síðasta ræðumanns varðandi það, að þessari fsp. er ekki svarað fyrr en í dag, er það að segja, að það hefur ekki staðið á mér með svarið, heldur hefur fsp. ekki komizt að á dagskrá Sþ. fyrr en í dag. Ég var tilbúinn með það svar, sem ég flutti, í fyrsta skipti sem fsp. var á dagskrá.

Ég get að sjálfsögðu ekki búizt við því, að þm., sem um þetta hafa sagt hér nokkur orð, hafi kynnt sér þetta geysiflókna mál, sem um er að ræða, til nokkurrar hlítar. Það væri ofætlun að ætlast til þess, að þeir hefðu þá þekkingu á málinu, að búast mætti við því, að allt, sem þeir segja um það, sé á fullum rökum reist, og ég skal ekkert ásaka þá fyrir það, þó að ýmis ummæli þeirra beri greinilega vott um, að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því; hvað þessi vandi, sem hér er um að ræða, er flókinn og hvað erfitt er að finna honum réttláta og skynsamlega lausn. Það er áreiðanlega markmið þeirra embættismanna, sem um málið hafa fjallað, og það verður án efa vilji ríkisstj., að skynsamlegar till. verði gerðar um málið, og ekki efa ég það, að Alþ. vilji taka á því með raunhæfum og hyggilegum hætti.

Ég verð var við það, að menn hafa undrazt nokkuð, að störf rannsóknarmannanna skuli hafa beinzt að því að kanna nákvæmlega í fyrsta skipti, hver er raunverulegur kostnaðarmunur við það að hafa börn og unglinga í heimavistarskóla í dreifbýli og hafa þá í heimangönguskólum. Það er vegna þess, að þeir og ég fyrir mitt leyti lít þannig á, að það, sem fyrst og fremst þurfi að gera í þessum efnum, sé að marka framtíðarstefnu í þessu máli. Vandinn er þessi, um það erum við allir sammála, vandinn er sá og hann fer vaxandi, að sumir landsmenn geta sent börn sín í skóla á þeim stað, þar sem fjölskyldan býr. Aðrar fjölskyldur verða að senda börn sín í skóla á annan stað en þar, sem heimili barnsins er. Þetta eru grundvallaratriði vandans, og þetta er enginn sérvandi fyrir okkur Íslendinga. Þetta er alþjóðlegur vandi, þetta er vandi alls staðar, þar sem þjóð býr ekki einvörðungu í borgum og kauptúnum, og engin þjóð, sem ég þekki til, gerir það. Þessi vandi er alls staðar fyrir hendi, og alls staðar hefur verið mikið um hann hugsað og í vaxandi mæli á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá, að bæði hér og annars staðar eru uppi um það mjög ólíkar hugmyndir, hvernig greiða skuli úr vandanum í grundvallaratriðum. Og það má mér vera um manna kunnugast, sem jafnlengi hef gegnt því starfi, sem ég nú gegni, og raun ber vitni um, að mjög ólíkar skoðanir eru uppi um þetta efni meðal þeirra manna, sem í dreifbýlinu búa. Annars vegar hefur verið uppi sú stefna hjá því fólki, sem við þennan vanda á að glíma, dreifbýlisbúunum, að hann beri að leysa fyrst og fremst með byggingu heimavistarskóla. Í þeim efnum hefur geysilega mikið verið gert á undanförnum árum, eins og staðreyndir um þetta efni sýna gjörla. En um staðsetningu heimavistarskólanna hafa verið geysileg átök innan dreifbýlisins sjálfs. M.ö.o., það hafa verið uppi tvær meginstefnur. Sumir vilja hafa heimavistarskóla sem allra næst sínu heimili, sem flesta heimavistarskóla í dreifbýlinu. Aðrir hafa viðurkennt, að það verði að hafa heimavistarskóla, en vilja hafa þá sem stærsta og sem fullkomnasta, sem þá auðvitað kostar það, að aksturinn til skólanna þarf að vera lengri. Fjarlægðin milli heimilis og skóla er þeim mun meiri sem skólinn er fyrir stærra svæði, en hann getur þá um leið verið fullkomnari. Sem betur fer hafa þær miklu deilur, sem um þetta hafa verið, ekki að verulegu leyti borizt inn í þennan sal hins háa Alþ., þegar fjárlög eru afgreidd, en þeim mun meiri átök eru um þessar tvær grundvallarstefnur í heimavistarskólamálum dreifbýlisins í fjvn., í undirnefnd fjvn., sem fjallar um fjárveitingar til skóla, og í skiptum menntmrn. og fræðsluyfirvalda við fulltrúa dreifbýlisins í fjvn. og í þingflokkum. Ástæðuna til þess, hve tiltölulega lítið þessi mikli skoðanaágreiningur og þessi mikli hagsmunaágreiningur hefur borizt inn í sjálfan meginsal Alþ., inn í sjálft sameinað Alþ., hygg ég vera, að reynt hefur verið á undanförnum árum, a.m.k. þann tíma, sem ég hef haft þessi störf með höndum, að jafna þennan ágreining sem mest án þess, að hann yrði að erfiðu mótsagnardeilumáli hér í sjálfu Sþ. Og sú stefna hefur smám saman orðið ofan á, að hverfa frá byggingu lítilla heimavistarskóla í sveitum að byggingu stórra heimavistarskóla í sveitum, skóla fyrir stór svæði, sem hefðu fleiri nemendur og gætu þá um leið orðið fullkomnari, hefðu betri aðstöðu til þess að hafa góða kennara og gætu boðið upp á meiri fjölbreytni í námi heldur en litlu heimavistarskólarnir hafa getað. Án þess að vilja deila hér á nokkurn mann eða nokkurn aðila, þarf það ekkert leyndarmál að vera, að þessi stefna hefur yfirleitt orðið ofan á, þó ekki átakalaust. En sem betur fer hafa átök verið friðsamleg og sigur stefnu stóru skólanna hefur orðið án þess, vona ég, að skilja nokkur sár eftir hjá þeim, sem hafa í þessu efni orðið að láta í minni pokann, því að tvímælalaust hefur það verið hagur dreifbýlisfólksins sjálfs, þegar til lengdar lætur, að ég ekki tali um hag nemendanna, að þessi stefna hefur orðið ofan á, sem smám saman hefur verið að öðlast aukinn skilning og fá fylgi þm. í vaxandi mæli. Þessi sameiningarstefna er sem sagt orðin ofan á og skólakostnaðarlögin bera þess t.d. alveg greinileg merki, að svo er.

Margir hafa gagnrýnt það, að ríkið hefur tekið að sér að greiða heimavistarkostnað í dreifbýli að fullu, en kennslurými að hálfu, með því skilyrði þó, að tveir eða fleiri hreppar sameinist um heimavistarskólabygginguna. Hugsunin bak við þetta er sú að hvetja til sameiningar. Ef menn afsala sér því, sem sumir kalla rétt til að hafa heimavistarskóla fyrir hvert smáhérað, þá borgar ríkið meira í þennan sameiginlega kostnað. Þá borgar það heimavistina algerlega, en tekur sama þátt í kennslurýmiskostnaðinum og gert er í þéttbýlinu. Þetta hefur þegar haft stórkostleg áhrif á fyrirætlanir um byggingu heimavistarskóla í dreifbýli. En sannleikurinn er sá, að byggingu heimavistarskóla í dreifbýli er nú þegar svo langt komið, að það er orðið brýnt vandamál, framtíðarstefnumál, að taka ákvörðun um, að hve miklu leyti á að halda áfram á þeirri braut á grundvelli gildandi skólakostnaðarlaga eða taka upp þá stefnu að byggja upp heimavistir við gagnfræðaskóla í kaupstöðum, — ekki barnaskóla í kaupstöðum, sú stefna er ekki uppi, — hér er sem sé annar valkostur, að hægja nú á byggingu heimavistargagnfræðaskóla í sveitum og taka í staðinn upp þá stefnu að byggja heimavistir fyrir gagnfræðaskólana í kaupstöðum. Sá valkostur er líka hugsanlegur að greiða styrki til nemenda, sem búa hjá einstaklingum í kaupstöðum eða borgum landsins, í staðinn fyrir það, að hið opinbera byggi heimavistirnar. Hér er um það, sem ég nefni þrjá meginvalkosti, að ræða: að halda áfram heimavistarbyggingum í dreifbýlinu, að byggja heimavistir í kaupstöðum, eða að styrkja nemendur úr dreifbýlinu til að búa hjá einstaklingum í kaupstöðum, þar sem völ er á slíku. Auðvitað er þetta meginástæðan fyrir því, að þessi könnun hefur farið fram á því, hver er raunverulegur kostnaður við heimavistarskólana. Það hefur aldrei verið vitað nákvæmlega fyrr en núna, hver er kostnaður við það að hafa heimavist við gagnfræðaskóla í kaupstað, og þetta hvort tveggja er svo vísbending um það, hver styrkur kynni að þurfa að vera til nemanda, ef hann býr á einkaheimili, sé völ á slíku í kaupstað. Auðvitað er ekkert algilt svar við þeirri spurningu, sem hv. þm. Sigurvin Einarsson bar fram, hver yfirleitt væri munurinn á því, að foreldri léti barn sitt stunda nám í heimangönguskóla í kaupstað og foreldrar, sem byggju í dreifbýli, létu vista barn sitt einhvers staðar annars staðar, því að möguleikarnir eru svo margir. Það er ekkert algilt svar við því, það er ekki hægt að gefa það. Möguleikarnir eru t.d. þeir að aka barninu 5 km eða aka því 50 km eða 100 km. Auðvitað kostar það misjafnlega mikið, og auðvitað kostar misjafnlega mikið að hafa barnið í heimavistarskóla fjarri heimilinu eftir því, um hvaða stig námsins er að ræða, og enn er kostnaðurinn annar, ef skilyrði er til þess að hafa barnið í dvöl á einkaheimili, jafnvel þótt ekki sé hjá skyldmenni. Þúsundum barna og unglinga er nú ekið milli heimilis og skóla um mjög mismunandi langan veg, og auðvitað er kostnaður mismunandi eftir því hvað leiðin er löng, það gefur auðvitað auga leið.

Til þess að lokum að gefa örstutta mynd af því, hversu flókið mál, réttara sagt hversu mismunandi vandamálin eru fyrir nemendurna, skal ég ljúka orðum mínum með þessu: Við erum auðvitað allir sammála um, að vandamálið snertir þá nemendur, sem sækja skóla utan þess staðar, þar sem heimilið er. Vandi barnsins eða unglingsins getur verið fólginn í aukakostnaðinum við að aka barninu til heimangönguskóla fjarri heimilinu, aka því að heiman að morgni og heim að kvöldi. Þá getur viðbótarkostnaður komið á þennan, þ. á m. dvalarkostnaður á einkaheimili nálægt heimangönguskóla. Í þriðja lagi getur verið um að ræða beinan ferðakostnað tvisvar á vetri til heimavistarskóla, að heiman og heim aftur. Og í fjórða lagi getur verið um að ræða, og er auðvitað um að ræða, dvalarkostnað á heimavistarskólanum. Sá dvalarkostnaður er tvenns konar: fæðiskostnaður og annar dvalarkostnaður. Á þessari upptalningu sést, hversu geysilega mismunandi kostnaðurinn er, eftir því hvers eðlis vandi barnsins eða unglingsins er. Meðaltalið af þessu öllu saman segir engum neitt, og er engum aðila til hjálpar um það, hvernig leysa á vandann, af því að það hæfir aðeins einni tegund af vanda þess barns, sem þarf að aka í heimangönguskóla. Það barn þarf aðra lausn á vandanum, sem á kost á því að búa á einkaheimili nálægt heimangönguskóla og það barn og unglingur þarf enn aðra lausn á vandanum, sem þarf að ferðast í skóla og úr skóla og svo þarf annars konar lausn eftir því, hver dvalarkostnaðurinn er í heimavistarskólanum, og hann getur verið mjög mismunandi, fæðiskostnaðurinn sjálfur og almenni dvalarkostnaðurinn, sem er mjög mismunandi. Þess vegna er ekki til nein ein tala, sem leysir allan vanda þessara þúsunda unglinga, sem eiga hér við vanda að stríða, þeirra þúsunda heimila, sem eiga hér við vanda að stríða. Það eru heldur engar tvær tölur til, sem duga. Það þarf að setja upp kerfi; sem því miður verður að vera flókið, ef það á að vera réttlátt, ef það á að leysa raunverulegan vanda, sem hvert heimili, hver hópur unglinga á við að etja, og ég get fullvissað hv. þm. um það, að ósanngjarnt er að tala með ótilhlýðilegri vandlætingu um þá embættismenn, sem um þennan vanda hafa fjallað, og ég vona að séu búnir að fullgera till. um hann, sem ég á eftir að skoða og ríkisstj. á eftir að skoða. Þeir hafa ekki aðeins mikla þekkingu á þeim ólíku aðstæðum, sem um er að ræða, heldur líka fullan vilja á því að gera skynsamlegar till. til hinna pólitísku stjórnarvalda um lausn vandans.