19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (3585)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð. Ég fékk ekki svar frá hæstv. ráðh. við þeirri spurningu, hverjar væru hugmyndir embættismannanna eftir allar þeirra athuganir á þessu máli. Hverjar væru hugmyndir þeirra um að leysa þann kostnaðarmismun, sem er á því, að nemandi verður að kosta sig annaðhvort í heimavistarskóla eða að semja um fæði og húsnæðiskostnað á einhverju heimili fjarri heimili sinu og hins vegar á því, að nemandi geti gengið í barnaskóla, framhaldsskóla eða menntaskóla, allt frá heimili sínu. Það er þessi tvenns konar aðstaða, sem um er að ræða, og vandamálin, sem við það eru bundin. Hæstv. ráðh. hefur í tveimur ræðum ekkert fjallað um þennan vanda heimilanna. Hann hefur verið að gera grein fyrir mismunandi kostnaði ríkisins við að koma upp heimangönguskóla og heimavistarskóla og svo hvaða kostnað ríkið beri af rekstri slíkra stofnana. Það er ekki þetta, sem málið snýst um. Það snýst um fjármálaaðstöðu ungs fólks, hvernig það á að hafa möguleika til að mennta sig, ef það þarf að kosta sig frá heimili sínu, eða hins vegar um hina ógnvekjandi staðreynd að vera kannske stöðvaður á námsbrautinni, þrátt fyrir hæfni og hug til námsins. Þetta álít ég ekki vera flókið, ef menn líta á þessa hlið málsins og það á ekkert skylt við vegalengdir milli heimilis og skóla, ekkert skylt við kostnaðinn af því að aka nemendum frá skóla til heimilis. Það er atriði, sem er sjálfsagt og eðlilegt, að sveitarfélög og ríki beri kostnað af, ef sú leið hefur verið valin fremur að hafa heimangönguskóla með þessum hætti en að stofna til meiri kostnaðar í þessu sambandi með byggingu heimavistarskóla. Það er hluti af heimavistarkostnaði í raun og veru að sjá um akstur barnanna milli heimilis og skóla. Það á ekkert skylt við þetta vandamál og það er alveg óþarft fyrir hæstv. ráðh. að líta eingöngu á þetta frá sjónarmiði ríkisins og ráðh. Það þarf að líta á þetta mál sem vandamál heimilanna og leggja upplýsingar um þann vanda, hversu stór sem hann er, fyrir hæstv. menntmn., sem fjallar um þetta mál.

Ég hef ekki meiru við þetta að bæta, mér finnst þetta vera ákaflega skýrt. Málið snýst um það, hverjar eru hugmyndir embættismannanna og hæstv. ráðh, um það að finna leiðir til að jafna mismunandi kostnað nemenda, sem stunda nám frá heimili sínu annars vegar, og hinna, sem annað tveggja verða að kosta nám sitt á heimavistarskóla eða með sérsamningi við einhver einkaheimili fjarri sínu eigin heimili. Það er þessi tvenns konar vandi, sem verður að leysa, og ég hygg, að hann verði ekki leystur, menn velti honum fyrir sér í ráðleysi, ef menn ekki geta skilið, að það verður að finna meðaltalið við heimavistarkostnað barnaskólastigs, unglingastigs og menntaskólastigs og veita tilsvarandi hjálp á hverju þessu skólastigi.