19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (3586)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Mér fannst nú hæstv. ráðh. hafa dálitla tilhneigingu til að drepa þessu máli á dreif, því að eins og hann sjálfur réttilega sagði áður, þá er mergurinn málsins sá, hver sé kostnaður heimilanna, hver sé kostnaður nemendanna, sem verða að kosta sig utan heimila vegna náms. Hæstv. ráðh. gerði hér að umræðuefni jöfnun námsaðstöðu í sveitunum og mér skildist á honum, að þar væri eiginlega um að ræða tvo valkosti. Mig langar til þess, þó að í stuttu máli sé, að minna á, að þetta efni, jöfnun námsaðstöðu í landinu, er eitt af þeim verkefnum, sem við verðum að fara að snúa okkur virkilega að og reyna að finna lausn á. Ég tel, að fyrst og fremst séu tveir þættir í þessu máli, sem til greina koma, annars vegar það, sem við erum að framkvæma og allir virðast vera sammála um að framkvæma, en það er bygging skólahúsnæðis sem víðast um landið, eftir því sem skynsamlegt er, og í öðru lagi sá þátturinn, að taka upp það kerfi að greiða námskostnað nemenda, sem þurfa að vista sig utan heimila sinna vegna náms, a.m.k. að víssu marki. Ég tel, að þetta geti náttúrlega átt við nemendur í heimavistum, en þetta getur líka, eins og hér hefur rækilega verið bent á, átt við nemendur, sem þurfa að vista sig á einkaheimilum utan sinna eigin heimila. Hæstv. ráðh. segir, að þetta mál sé til athugunar í rn. og þá hljóta þeir í rn. að velta því fyrir sér, hvernig eigi að leysa þetta. Mig langar til að minnast á nokkur atriði, sem mér finnst koma til greina að skoða, þegar þetta mál er athugað.

Í fyrsta lagi þarf að gera sér grein fyrir því, eða ákveða það, til hvaða nemenda þetta eigi að ná. Það er náttúrlega alveg ljóst, að þetta hlýtur að eiga að ná til allra nemenda á skyldunámsstiginu. Trúlega held ég, að allir verði sammála um, að þetta ætti að ná til þeirra, sem eru við nám á gagnfræðastigi, einnig til menntaskólanemenda, en ég tel, að þarna komi undir líka svo fjöldamargir aðrir nemendur, t.d. verzlunarskólanemendur, nemendur, sem stunda nám í sjómannaskóla, jafnvel iðnskóla, nemendur í listaskálum ýmiss konar og margs konar fleiri skólum.

Þá þurfum við líka að athuga, hvaða útgjöld það eru, sem til greina koma. Við vitum, að það eru fyrst og fremst þrír útgjaldaliðir, sem til greina koma, þegar menn dveljast utan heimila sinna. Það er fæðiskostnaðurinn, það er húsnæðiskostnaður utan heimilis og það eru ferðir. Þetta þrennt þarf sérstaklega að skoða.

Einnig þarf að mínum dómi að athuga, hvernig eigi að ákveða styrkinn, hvort hann eigi að vera í líki dagpeningakerfis, mánaðargreiðslna eða heildarupphæðar yfir veturinn eftir einhverjum ákveðnum reglum.

Á þetta vildi ég nú benda einmitt að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh., þar sem hann upplýsir, að þetta mál sé til athugunar í rn. og vænta megi tillagna rn. áður en fjárl. verða afgreidd: