19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í D-deild Alþingistíðinda. (3587)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð, og ég skal reyna að gefa ekki tilefni til frekari umr. um málið. Það kom greinilega fram í ræðum hv. þm. Ingvars Gíslasonar og hv. þm. Einars Ágústssonar, að þeir hafa báðir gert sér fullkomlega grein fyrir því, um hvílíkan vanda hér er að ræða, um hversu marga valkosti er að ræða til lausnar vandanum, hversu margt getur komið til greina og um hvaða álitamál er að ræða, ef menn vilja leysa vandann réttlátlega og skynsamlega fyrir þá, sem eiga að njóta lausnar vandans, og met ég það. Hins vegar finnst mér því miður gæta enn meiri skilningsskorts en ég hefði átt von á hjá jafnreyndum skólamönnum og hv. þm. Sigurvin Einarsson og Hannibal Valdimarsson eru, á því hvað hér er í raun og veru við að etja. Við erum alveg sammála um, að vandinn er fyrir hendi og vandann þarf að leysa.

Hv. þm. Sigurvin Einarsson sagðist hafa spurt um tvennt og fengið svar við hvorugu. Hann sagðist hafa spurt um, hvað margir nemendur stundi nám fjarri sínu heimili. Þetta kom fram í frumsvari mínu. Ég las tölu nemenda og heildarkostnað í öllum skólum á skyldustiginu og í menntaskólum; í barnaskólum, gagnfræðaskólum, unglingaskólum, héraðsskólum og menntaskólum. Það þarf ekki annað en að fletta því upp, þá stendur það þar... (Gripið fram í.) Það kom allt fram, ef þm. bara vildu lesa það, það kom allt fram þar... (Gripið fram í.) Hann má lesa það á morgun. Það verður komið þarna. En ég hélt satt að segja, að þm. hefði hlustað á ræðuna og þess vegna var ég ekkert að vekja athygli á því, að þetta hefði farið fram hjá honum. Þetta fólst í henni, og var það beinlínis af því, sem ég hef enga ánægju af því að hnotabítast við hv. þm. í sambandi við mál eins og þetta. Þá segist hann hafa spurt um, hver sé kostnaðarmunur, endurtekur þá spurningu, hver sé munurinn fyrir foreldri á því að senda sitt barn í heimangönguskóla á þeim stað, sem foreldrið býr, eða í skóla, sem er fjarri búsetustað foreldrisins. Ég tel mig hafa gefið alveg skýrt svar við þessu, að það er hægt að reikna sem meðaltalstölu, það getum við hæglega, en það segir ekki neitt. En það þarf að taka einstök dæmi, eins og ég heyri að fjármálaeftirlitsmaður skóla hefur gert einhvern tíma fyrir hann. Það er enginn vandi að taka dæmi af bónda, sem býr á bæ X í sýslu Y og á völ á því að senda sitt barn í tvo skóla, sem eru mismunandi langt frá bænum, og kannske ólíka skóla, eða í kaupstað, sem er nálægt, og vistar barnið á heimili þar, eða á heimavist þar. Ég skal með ánægju láta reikna út slíkt dæmi fyrir hv. þm., ef hann óskar eftir því og ef hann kemur með réttar forsendur, þá skal ég með ánægju láta gera þetta, það er hægt að gera allt saman á tiltölulega litlum tíma, það er enginn vandi, en að ætla að gera tilraun til að svara þessu fyrir öll heimili í landinu, það er óðs manns æði. Það er að reikna út hlut, sem enga raunverulega þýðingu hefur. Það, sem þarf að gera, er að flokka heimili og nemendur í vissa hópa eftir einhverri skynsamlegri reglu og reikna út kostnaðarmuninn fyrir þessa hópa. Sem sagt, svarið er ekki eitt og ekkert vit í því að reyna að hafa þau jafnmörg og nemendurnir eru, sem við vandann eiga að búa, heldur verður að finna þarna einhverja almenna reglu og að því hafa embættismennirnir unnið, en sú regla getur ekki verið einföld.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson spurði um hugmyndir embættismannanna um lausn vandans. Um þær get ég ekkert sagt á þessu stigi nema það, að þeir eru ekki á þeirri skoðun, sem kemur fram í frv. hv. þm. eða kom fram í ræðu hans áðan, að skynsamleg, réttlát lausn væri byggjanleg á neins konar meðalkostnaðarútreikningi samkvæmt því, sem hv. þm. var að nefna áðan. Það get ég sagt þegar um skoðun þeirra. Það leggja þeir ekki til, því að með því móti telja þeir hættu á, að sumum yrði ofgert, en vangert við aðra. Vandinn, sem þeir eru að reyna að leysa og hafa reynt að leysa, er sá að láta vera um að ræða einhvers konar skala í aðstoðinni, sem taki tillit til raunverulegra þarfa þess nemanda, þess heimilis, sem um er að ræða, og þeir gera jafnframt ráð fyrir því, að það geti verið um þann kost að ræða að greiða þetta sem styrk eftir vissum skala. Þá kemur, eins og hv. þm. Ingvar Gíslason sagði, ýmist dagpeningaregla, mánaðarregla eða heildarupphæð á vetri til greina. Hin hugmyndin, sem er allt, allt önnur, en sannarlega athugandi samt, er í fyrsta lagi að hver skóli fái ákveðna upphæð til ráðstöfunar og leysi úr þörfum nemenda síns skóla, vegna þess að hann muni hafa þekkingu á því, hvar skórinn raunverulega kreppir að. Í öðru lagi, að hvert sveitarfélag, hvert skólahérað réttara sagt, fái ákveðna upphæð frá ríkinu til þess að greiða úr vandanum innan síns skólahéraðs og í þriðja lagi, að lausn vandans sé í höndum fræðslumálastjórnarinnar í Reykjavík.

Það var ekki minn vilji að fara svo langt út í umr. um einstök atriði í þessu máli, en það hefur verið beðið um, að ég segði frá því, hvaða hugmyndir eru uppi, sem allar, vil ég segja, hafa sína kosti og sína galla. Það verður okkar í menntmrn. að reyna að velja skynsamlega þarna á milli. Kannske breytir ríkisstj. þeim hugmyndum einhvern veginn og að sjálfsögðu mun svo Alþ. fara yfir þær allar saman. Ég vona, að niðurstaða Alþ. verði að öllu athuguðu máli sú skynsamlegasta.