19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Eðvarð Sigurðsson:

Þetta verða aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í umr. um það, hvað gert er hér fyrir dreifbýlið og hvers konar skóla þyrfti að byggja,. eða hvaða leiðir ætti að fara. Það er öllum ljóst, að þennan mismun verður að jafna. Mönnum ber ekki saman um í þessum umr., hver sé í raun og veru höfuðvandinn. Það eru mismunandi skoðanir á því og sjálfsagt getur menn greint á um það. En það er einn vandi, sem ekki hefur verið minnzt á og ég held, að sé höfuðvandinn í þessum efnum fyrir hið íslenzka þjóðfélag. Og það er mismunun manna eftir stéttum og efnahag til þess að láta börn sín sækja skóla. Ég held, að þetta sé atriði, sem menn gjarnan mættu einnig hafa í huga, þegar þessi mál eru rædd.

Hér í Reykjavík, þar sem unglingar hafa allar tegundir skóla fyrir augum, er fjöldi þeirra, sem ekki hefur minnstu von þrátt fyrir mikla hæfileika og löngun til að sækja framhaldsskóla vegna þess, að efnin á heimilinu brestur. Þetta eru staðreyndir í dag. Og þegar svona miklar skýrslugerðir eru á ferðinni um þessi mál, þá væri fróðlegt að spyrja eða fá svar við, hvort til eru skýrslur um fjölda t.d. útskrifaðra stúdenta eða manna í menntaskólum, eftir stéttum. Það má stilla ýmsu upp, embættismönnum annars vegar, verkamönnum hins vegar; iðnrekendum, iðnverkamönnum. Úr hvaða hópum, frá hvaða heimilum er þetta fólk? Ég er alveg sannfærður um, að útkoman er mjög neikvæð fyrir hina efnaminni. Og eins og nú horfir, hlýtur hún að verða miklu neikvæðari á næstu árum en hún hefur þó verið á undanförnum árum.

Ég vildi ekki láta þessar umr. enda svo að minna ekki á þetta, sem að mínum dómi er hvað mesta alvörumálið í þessum efnum, en það er, að nú virðist þannig horfa, að framhaldsmenntun miðist einvörðungu við efnameiri heimili. Og ef þannig fer fram, þá held ég, að margt sé í hættu í okkar þjóðfélagi, og væri sannarlega þörf á að hugleiða, hvað gera verður til þess að breyta þeirri alvarlegu þróun.