02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um Iðnþróunarsjóð, sem hlotið hefur afgreiðslu í hv. Nd., er þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samning ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland, sem gerður var í Reykjavík 12. des. 1969, en samningurinn um þennan norræna iðnþróunarsjóð lá fyrir sem fskj. með þáltill. um aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, sem lögð var fyrir Alþ. fyrir jólin og afgr. þá, eins og kunnugt er og er hv. þm. því kunnugt efni þessa samnings fyrir alllöngu. Hins vegar bið ég velvirðingar á því, að þetta frv. hefur ekki fyrr fram komið og voru nokkur mistök í því. En efni málsins er að öðru leyti ekki flókið og ætti það ekki að koma að sök, vona ég, þar sem mönnum var áður kunnugt efni sjálfs samningsins, sem á að staðfesta. Það er ákvæði um heiti sjóðsins í 2. gr. Hann nefnist hér á Íslandi Iðnþróunarsjóður af hentugleikaástæðum og það stangast ekki á við neitt annað heiti og fer vel á því og er styttra en að kenna hann við hinn norræna uppruna hans, skulum við segja. En að öðru leyti eru svo ákvæði um, hvernig framkvæmdastjórnin skuli skipuð, en um það var í samningnum aðeins það ákvæði, að framkvæmdastjórnin skuli skipuð 5 fulltrúum íslenzka bankakerfisins.

Hér er í 4. gr. kveðið á um, hvernig sú skipan skuli vera og það er þá þannig, að stjórnin skuli skipuð fulltrúum, sem tilnefndir eru af viðskiptabönkunum, Landsbanka Íslands, Iðnaðarbanka Íslands, Útvegsbanka og Búnaðarbanka, sem hver skipar sinn fulltrúa og Iðnlánasjóður fimmta fulltrúann. Þannig er málið afgreitt frá Nd. og var að vísu nokkur ágreiningur um það, sumir töldu eðlilegra að skipa þennan sjóð fulltrúum kosnum af Alþ. Um það má auðvitað hafa mismunandi skoðanir. Við, sem unnum að undirbúningi þessa samnings, bæði íslenzkir aðilar og erlendir aðilar, vorum sammála um þá niðurstöðu, að hentugast væri og hagkvæmast að skipa hann fulltrúum frá bankakerfinu. Það er mín persónulega skoðun, að það sé einnig það hentugasta og hagkvæmasta í þessu tilfelli, en með því er örugglega tryggt, að við nálgumst það mark, sem við höfum verið að reyna að stefna að með mismunandi góðum árangri á undanförnum árum, að tryggja betur samræmi í fjárfestingarlánamálum og rekstrarmálum fyrirtækjanna. Þetta mundi að sjálfsögðu leiða til þess, að þegar þessi sjóður veitir a.m.k. nýjum fyrirtækjum stofnfjárlán til þess að hefja undirbúning að stofnun og rekstri fyrirtækis, þá er jafnframt ákveðið, hvað ætlað sé um rekstrarfjárþörfina og hvaða aðili af þessum bönkum muni veita þar til þann atbeina, sem þarf í sambandi við sjálfan reksturinn.

Ég skal ekki að öðru leyti gera þann ágreining, sem hér kom fram, að umtalsefni, en vil aðeins vekja athygli á því, sem ég gerði grein fyrir í Nd., að frá þessu er því miður ekki hægt að hverfa nú vegna ákvæðis samningsins sjálfs og mundi það hafa að mínum dómi mjög alvarlegar afleiðingar og ekki skemmtilegar, ef slík breyting yrði samþykkt, því að hún brýtur í bága við samninginn sjálfan, sem ákveður, að framkvæmdastjórnin skuli skipuð fulltrúum úr bankakerfinu, og þyrfti þá með einhverjum hætti að taka það upp til endurskoðunar, ef menn hefðu viljað. Sjálfur hef ég ekki þá skoðun, að það sé rétt, og hef lýst því yfir, að ég mundi ekki, ef svo yrði, beita mér fyrir slíkri endurskoðun.

Ég hygg, að, að öðru leyti þurfi ég ekki að gera nánari grein fyrir þessu máli nú miðað við það, sem áður hefur verið sagt um sjóðinn í umr. um aðild að Fríverslunarbandalaginu. Aths. hafa þm. haft aðstöðu til þess að kynna sér og ég vil aðeins geta þess í sambandi við fskj. um útlán Iðnþróunarsjóðs, sem útbúið var að beiðni ríkisstj. af Seðlabankanum, að það byggist auðvitað á því sem gefnum forsendum, sem ekki er vitað, að verði nákvæmlega þær, af þeim, sem unnu að því að útbúa þetta yfirlit. Fyrir því er nánar gerð grein, en ástæðan til að láta það fylgja var aðeins sú, að það gæfi þm. nokkra yfirsýn yfir, hvernig hugsanlega gæti orðið þróun þessa sjóðs. Sjóðurinn er í erlendri mynt og þarf að endurgreiða lánin til hinna Norðurlandanna að 10 árum liðnum á 15 árum og þar af leiðandi gæti verið um gengisáhættu að ræða. Það er augljóst af þessu, að fyrirtæki, sem mundu fá lán úr sjóðnum, sem væru útflutningsfyrirtæki, gætu borið slíka áhættu, en til þess að draga úr þessari áhættu fyrir aðra aðila, gæti auðvitað komið til álita að hafa mismunandi vexti, gefa þeim þá hagræði í vöxtum miðað við áhættu, sem þeir taka varðandi breytingar á genginu og eins væri sá möguleiki fyrir hendi að byggja upp nokkurn varasjóð, þannig að sjóðurinn sjálfur tæki á sig nokkra gengisáhættu. Ákvarðanir um þetta verður að sjálfsögðu stjórn sjóðsins að taka á sínum tíma, þegar hún er komin á laggirnar og er ekki hægt að fullyrða um, hvernig það verður. Þess vegna verður að taka með fyrirvara þessa þróunaráætlun, sem í fskj. felst, en þótti þó rétt að gera grein fyrir því, hvernig hún yrði, sem er þá einnig í aðalatriðum það, hvernig sjóðurinn í stórum dráttum mundi vaxa og breyta eðli sínu frá því að vera að mestu leyti byggður upp af stofnfé frá hinum Norðurlöndunum, en smátt og smátt á 25 ára tímabilinu verða að íslenzkum sjóði og þyrfti þá að sjálfsögðu að setja nýja löggjöf um sjóðinn, þegar þar að kemur.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.