12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3613)

946. mál, ráðstafanir í geðverndarmálum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fsp. fjallar um, hverjar fyrirætlanir séu um aukningu sjúkrarýmis handa geðsjúklingum og bætta aðstöðu til endurhæfingar þeirra.

Þegar nýja álman var að fullu tekin í notkun við Kleppsspítalann árið 1551, var rúmafjöldi þar talinn um 240, en síðan hefur ekki beint verið aukið við sjúkrarými á Kleppi. Hins vegar hefur verið aukið sjúkrarými með þeim hætti, að rekin hafa verið nokkurs konar útibú með læknisstjórnun frá Kleppi, svo sem í Stykkishólmi, á Úlfarsá, á Flókadeild og á Bjargi á Seltjarnarnesi. Á Kristnesi eru nú um 40 vistmenn með vægari tilfelli af geðveiki. Tekið hefur verið upp samband við Kleppsspítala á þessu ári um meðferð þeirra sjúklinga, þannig að mánaðarlega fer læknir frá Kleppsspítala til Kristness til að fylgjast með þessum sjúklingum. Fyrst var byrjað að taka slíka sjúklinga á Kristneshæli fyrir 5–6 árum, en fjöldi þeirra hefur farið sívaxandi ár frá ári. Þannig yrði rúmafjöldi fyrir geðsjúka nú um 345, þar af 104 á þessum útibúum og í Kristnesi, eins og ég nefndi. Geðdeild Borgarspítalans í Fossvogi var tekin í notkun 26. júní 1968, þar er rúmafjöldi 31 og annast deildin jafnframt eftirmeðferð sjúklinga sinna. Næstu fyrirhuguðu framkvæmdir um aukningu sjúkrarýmis fyrir geðsjúka eru við sjúkradeild fyrir 90–100 sjúklinga, sem byggð verði á landsspítalasvæðinu. Fyrirhugað var að koma þeirri stofnun fyrir á gömlu landsspítalalóðinni og af þessari stærð, sem ég tilgreindi núna, en þar sem nú er verið að ganga frá samningum við Reykjavíkurborg um stórfellda aukningu á lóðarrými ríkissjúkrahúsanna neðan Hringbrautar, en með sambandi við gömlu lóðina, yrðu þær byggingarframkvæmdir ráðnar eftir endanlega skipulagsákvörðun um lóðina og þá í hvernig áföngum haldið kynni að verða áfram að byggja þar.

Svo sem kunnugt er, gerir framtíðarskipulag Reykjavíkurborgar ekki ráð fyrir frambúðarstaðsetningu eða aukningu sjúkrahúsareksturs á Kleppi. Það liggur því einnig fyrir að ákveða, er lóðamálin við Landsspítalann verða fullráðin, hvort geðsjúkrahússbyggingar ríkisins verða í framtíðinni á hinu nýja lóðarrými að meira eða minna leyti, sem sterklega kemur til greina. Hafa yrði þá einnig í huga stækkun geðdeildar við Borgarsjúkrahúsið, en eins og ég hef áður gert grein fyrir, starfar nú að staðaldri samstarfsnefnd milli ríkis og borgar um sjúkrahúsamálin og samræmdar aðgerðir á því sviði. Ég minni á í þessu sambandi, að það hefur lengi verið ákvörðun heilbrigðisstjórnarinnar að sitja ætti í fyrirrúmi, þegar núverandi framkvæmdum á landsspítalalóð lyki, bygging fæðingar- og kvensjúkdómadeildar og byggingar fyrir geðsjúka. Ljóst er, að um allmörg ár verður geðsjúkrahúsið á Kleppi rekið áfram. Er því mjög brýnt að bæta læknisaðstöðu þar til enn betri nýtingar. Hefur því verið í undirbúningi og þeim undirbúningi er alllangt komið, að reisa einnar hæðar byggingu í þremur álmum með tengingum, þar sem fyrst og fremst er ætlað rými fyrir vinnustofur lækna, sálfræðinga og félagsfræðinga og þjónar þar með fyrst og fremst þeirri grein læknismeðferðarinnar, sem mest hefur aukizt á undangengnum áratug, þ.e. meðferð á utanaðkomandi sjúklingum á s.k. göngudeildum. Til marks um það, hvað sú meðferð hefur aukið læknisþjónustuna, má upplýsa, að á næst liðnu ári hafa 400 sjúklingar sætt slíkri lækningameðferð hjá sjúkrahúsum með á að gizka 10 heimsóknum hver að meðaltali. Enn fremur er vert að vekja athygli á, hve gífurleg breyting hefur orðið á sjúklingameðferðinni á sjúkrahúsinu á undanförnum árum. Hefur það að sjálfsögðu aðeins verið mögulegt með verulegri starfsliðsaukningu. Einnig valda hér um hinar þekktu og stórkostlegu breytingar, sem orðið hafa í þróun lyfjameðferðar, sem einnig hefur aukið möguleika á göngudeildarmeðferðinni, svo að dæmi sé tekið. Þess er að geta, að árið 1953 voru innlagðir sjúklingar 124, en árið 1967 662 og það sem af er þessu ári 740. Breytt vinnubrögð samhliða þróun læknavísindanna á þessu sviði hafa gert mögulegt að þjóna miklu fleiri sjúklingum en áður, en þó er engu að síður áfram hin brýnasta þörf á aukningu sjúkrarýmis.

Komið er að hinum síðari hluta fsp., um bætta aðstöðu til endurhæfingar. Í því sambandi er rétt að greina frá þeim framkvæmdum, sem staðið hafa undanfarin ár við byggingu á vinnustofum fyrir sjúklinga á Kleppi og sem tekin var í byrjunarnotkun árið 1961, en síðan í auknum mæli. Er þar um að ræða 400 fermetra gólfrými auk 180 fermetra samkomusalar, sem síðast var tekinn í notkun af þessu húsnæði, en í vinnustofum þessum stunda að staðaldri 56 sjúklingar ýmiss konar handavinnu undir yfirstjórn og handleiðslu sérlærðrar forstöðukonu. Er þessi starfsemi hin mikilvægasta, bæði frá sjónarmiði lækninga og endurhæfingar. Á Reykjalundi er rekin af SÍBS og með tilstyrk Geðverndarfélagsins, en með læknislegu eftirliti frá Kleppi, vinnustarfsemi fyrir ýmiss konar fyrrverandi sjúklinga eða öryrkja og má telja, að um 30 vistrými séu þar fyrir sjúklinga eða fyrrv. geðsjúklinga. Einnig er rétt að geta hér um starfrækslu, sem fyrrv. yfirhjúkrunarkona geðsjúkrahússins hefur rekið undanfarin tvö ár í samráði við yfirlækna þess og með stofntilstyrk ríkisins, en sem hún fyrst og fremst ber á eigin herðum. Hún starfrækir heimili fyrir um 8 fyrrv. sjúklinga, sem á grundvelli þeirrar dvalar og umönnunar geta stundað vinnu að staðaldri. Ekki er vafi á, að við ýmsa starfsemi sem þessa væri þarft að auka og þá ekki endilega á vegum ríkisins, en umfram allt með ráði og undir eftirliti þeirra, sem mesta þekkingu hafa á þessu sviði og heppilegast er, að hafi hönd í bagga um alla skipulagningu. Reykjavíkurborg mun á næstunni hefja starfrækslu á deild fyrir tauga- og geðsjúklinga í húsnæði Hvítabandsins við Skólavörðustíg. Húsnæðið á að rúma um það bil 32 vistmenn og er tilbúið til notkunar. Hins vegar mun það fara eftir því, hvernig gengur að afla hjúkrunarliðs, hvenær deildin kemst í fullan rekstur. Deildinni er ætlað að vera framhaldsdeild fyrir sjúklinga, sem verið hafa á geðdeild Borgarspítalans. Hugsanlegt er, að einnig verði teknir menn til meðferðar í vinnustofum deildarinnar, sem ekki eru vistaðir þar.

Til þess að leysa úr bráðri þörf á geðlæknisþjónustu fyrir börn og unglinga hefur verið hafin af hálfu ríkisins og Reykjavíkurborgar könnun á möguleikum á að koma upp geðdeild fyrir börn í húsnæði, sem Reykjavíkurborg á við Dalbraut. Hafa undanfarið staðið yfir athuganir á innréttingu húsnæðis fyrir deild, sem rúmaði 17 vistmenn, 11 taugasjúklinga og 6 geðsjúklinga, en auk þess göngudeild eða ambulatorium. Til umr. hefur verið, að Reykjavíkurborg innréttaði húsnæðið, en ríkið annaðist síðan rekstur deildarinnar í tengslum við barnaspítala Hringsins. Kvenfélagið Hringurinn hefur boðið fram fjárhagsaðstoð við að útvega búnað í deildina. Hvort af þessu verður, fer eftir því, hvort samningar takast milli ríkis og borgar um húsnæði, en þeir samningar standa nú yfir.