12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

946. mál, ráðstafanir í geðverndarmálum

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins mótmæla því mjög eindregið, að ég hafi tekið þessi mál til umr. til þess að halda því fram, að minn hlutur í þeim sé eitthvað meiri en annarra. Því fer mjög fjarri, að sú hugsun hafi nokkuð hvarflað að mér. Hitt er jafnmikil staðreynd, að umr. okkar alþm. um jafnveigamikinn þátt og fæðingardeildina og kvensjúkdómadeildina hafa orðið til þess að flýta fyrir framkvæmdum. Það hefur orðið til þess að fá hæstv. ráðh. til þess að fallast á ráðstafanir, sem hann var áður búinn að neita. Ég vil minna þennan hæstv. ráðh. á það, að hann situr í stjórnarráðinu sem starfsmaður okkar alþm. og hann verður að þola það, að við ræðum við hann um þau vandamál, er hann á að fjalla um fyrir okkur. Ég hef sjaldan heyrt leiðinlegri hlut úr þessum ræðustól en þegar hæstv. ráðh. skýrði frá því í vor, að hann hefði ekki haft hugmynd um ástandið á kvensjúkdómadeild Landsspítalans fyrr en til hans komu tveir læknar í fyrra, báðir konur, og sögðu honum frá því, að þær gætu ekki starfað lengur við þau skilyrði, sem þarna væru. Þarna lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að hann vissi ekki, hvernig ástandið væri á þeim stofnunum, sem hann á að stjórna fyrir okkur.

Ég er anzi hræddur um það, að einhverjir læknar þurfi einnig að fara til hæstv. ráðh. og segja honum frá því, hvernig ástandið er í geðsjúkdómamálum. Það nægir ekki að standa hér og segja nokkur almenn orð um það, að allir vilji, að þarna sé eitthvað gert. Það er verkefni þessa hæstv. ráðh. að leggja fyrir okkur till. um það, sem gera þurfi, og kanna, hvort hv. alþm. eru fáanlegir til þess að leggja fram þá fjármuni, sem til þess þarf.

Mér er fullkomlega ljóst, að peninga í þessu skyni þarf að taka af einhverju öðru. Það er ekki hægt að nota sömu peningana tvisvar. En það er verkefni þessa hæstv. ráðh. að láta á það reyna, hvort þau mál, sem honum er trúað fyrir, njóti þess stuðnings hér á þingi, að hann geti komið fram þeim stórvirkjum, sem nauðsynleg eru. En það verður að gera með tiltekinni tillögugerð, en ekki með almennu orðagjálfri.