26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (3621)

905. mál, knattspyrnugetraunir

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina til hæstv. menntmrh. á þskj. 94 svo hljóðandi fsp.:

„Hve miklar eru orðnar tekjur af knattspyrnugetraunum þeim, sem hófust s.l. vor? Hvernig hefur fé þessu verið ráðstafað? Er sú ráðstöfun í samræmi við lagaákvæði um Íþróttasjóð?“

Sú starfsemi, sem ég nefni þarna knattspyrnugetraunir, mun formlega, þ.e. í lögum og viðkomandi reglugerðum nefnast Íslenzkar getraunir. En ástæðan til fsp. er sú, að ýmsum hefur virzt að til þessarar starfsemi hafi verið stofnað ekki allsendis með viðeigandi hætti. Vissir aðilar hafi fengið þarna forréttindi, en réttur annarra, eins og til að mynda Ungmennafélags Íslands, fyrir borð borinn, og það getur jafnvel talizt hæpið, að fyrirkomulag starfseminnar samrýmist fullkomlega ákvæðum viðkomandi laga. Það er því að mínum dómi ekki vanþörf á, að málið sé rætt opinberlega, og þess vegna ber ég fram þessa fsp.