26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (3622)

905. mál, knattspyrnugetraunir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svar mitt við þessari fsp. er þannig: Sölu á fyrstu miðunum í þeirri getraunakeppni, sem um er að ræða, lauk 1. maí 1969 og sölu síðustu miðanna, sem ég hef fengið upplýsingar um, lauk 14. þ.m. Frá 3. maí til 20. ágúst voru miðar seldir á hálfs mánaðar fresti, en síðan hafa miðar verið seldir vikulega og er um 16 getraunaseðlaútgáfur að ræða. Liggja fyrir fullnaðarreikningsskil fyrir 15 af þeim. Tekjurnar hafa numið alls 5 235 450 kr., eða 5.2 millj. kr. Samkv. stofnsamningi og reglugerð, sem menntmrn. samþykkti 17. apríl s.l. um þessa getraunastarfsemi, skal verja 50% teknanna til vinningagreiðslu og 25% til umboðslauna. Af tekjum áðurnefndra 15 söluvikna hafa 2 617 725 kr., eða 2.6 millj. kr., farið til vinningagreiðslu og 1 308 863 kr., eða 1.3 millj., til umboðslauna. Afgangurinn, eða fjórðungur teknanna, nemur 1 308 863 kr., eða 1.3 millj. Kostnaðurinn við starfsemina hefur numið sem næst 835 þús. kr., og hefur því hagnaðurinn til loka 15. viku getraunanna numið 573 862 kr., eða 574 þús. Menntmrn. samþykkti þá till. íþróttanefndar ríkisins, sem samkv. lögum nr. 84 1940 um tekjuöflun Íþróttasjóðs hefur heimild til starfrækslu getraunastarfsemi í sambandi við íþróttakappleiki, að fela þessa starfsemi félagi, sem myndað er af Íþróttasambandi Íslands, Íþróttahandalagi Reykjavíkur og Knattspyrnusambandi Íslands, og nefnist þetta félag Getraunir. Ef tap verður á rekstrinum, skulu þessir aðilar greiða tapið sem hér segir: Íþróttasamband Íslands 37.5%, Íþróttabandalag Reykjavíkur 37.5%, en Knattspyrnusamband Íslands 25%. Verði hins vegar hagnaður, 200 þús. kr. eða minna, skiptist hann milli aðilanna í sömu hlutföllum. Verði hagnaður yfir 200 þús., skulu 50% þess, sem umfram er þá fjárhæð, renna til Íþróttasjóðs, en afgangurinn skiptast milli áðurnefndra aðila. Dreifing getraunaseðlanna hefur fyrst og fremst verið falin ungmenna- og íþróttafélögum og samtökum þeirra. Hafa þessi félög lagt fram mikið starf við dreifingu, sölu og söfnun seðla, og með tilliti til þess voru umboðslaunin ákveðin allhá eða 25%, eins og áður segir. Var ekki talið líklegt, að lægri umboðslaun yrðu vænleg til þess að örva getraunastarfsemina svo sem þörf væri á, en þessi háu umboðslaun eru félögunum nakkur tekjulind.

Í stofnsamningi og reglugerð getraunarekstrarins er kveðið svo á, að hagnaði, hvort sem hann rennur til Íþróttasjóðs eða hinna þriggja aðila, sem standa að félaginu Getraunir, eða einstakra félaga, skuli varið samkv. ákvæðum í íþróttalögum um Íþróttasjóð. Með hliðsjón af þessu verður að telja, að ráðstöfun hagnaðar í getraunastarfseminni sé í samræmi við íþróttalögin.

Það ber að hafa í huga, að sú getraunastarfsemi, sem efnt var til á s.l. vori, er tímabundin og rennur stofnsamningur og reglugerð um þennan getraunarekstur út í árslok 1969, í lok þessa árs. Það er því auðvelt að endurskoða þær reglur, sem um þetta gilda, ef reynslan leiðir í ljós, að menn telji annað skipulag eðlilegra. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi, að á árunum 1952–1956 rak íþróttanefnd ríkisins getraunastarfsemi í sama horfi og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þessari starfsemi var hætt vegna þess, að hún skilaði ekki hagnaði svo sem menn höfðu gert sér vonir um. Það hefur síðan alltaf verið athugað öðru hverju, frá því að hin fyrsta getraunastarfsemi lagðist niður, hvort hefja ætti getraunastarfsemi á ný, en niðurstaðan hefur jafnan þar til nú orðið sú, að hún mundi ekki skila hagnaði. Var m.a. athugað rækilega um hugsanlega samvinnu við getraunir Noregs og enskt getraunafyrirtæki, en hagnaður allur var talinn vafasamur í báðum tilfellum og varð því ekkert úr framkvæmdum.

En þá var það árið 1968, í fyrra, að þrjú knattspyrnufélög í Reykjavík hófu að reka getraunastarfsemi, hvert meðal sinna félaga. Þau beittu því fyrirkomulagi að selja eina getraunaröð á hverjum seðli og selja hana áttfalt hærra verði en t.d. var gert í Noregi og tuttugu og fimmfalt hærra verði en hún var seld á árunum 1952–1956. Stjórn íþróttabandalags Reykjavíkur taldi sig sjá fram á, að þessi starfsemi, sem án efa mundi breiðast út til fleiri félaga, yrði talin hæpin eða jafnvel ólögleg, jafnvel beinlínis ólögleg eftir lögum nr. 84 1940, íþróttalögunum, og sótti því til íþróttanefndar ríkisins um heimild til getraunarekstrar. Samtímis þessu sóttu stjórnir Íþróttasambands Íslands og Knattspyrnusambands Íslands sameiginlega um hið sama. Íþróttanefnd ríkisins, sem vegna fyrri reynslu og áðurnefndra athugana taldi ekki rétt að setja á sínum vegum á fót í annað sinn getraunarekstur, átti fund með þessum þremur aðilum. Náðist samkomulag milli hinna þriggja umsækjenda um getraunastarfsemina á þann veg, að þau mynduðu félag um tímabundinn rekstur getrauna, sem byggður yrði á þeirri reynslu, sem fengizt hafði hjá reykvísku knattspyrnufélögunum, og yrði fyrirkomulagið hið sama hjá þeim, að félögin bæru hita og þunga af dreifingu og sölu miðanna. Var þetta rætt við menntmrn. og féllst rn. á tillögur íþróttanefndarinnar um málið og þá till., sem var orðin sameiginleg till. þessara þriggja helztu íþróttasamtaka í landinu, Íþróttasambands Íslands, Íþróttabandalags Reykjavíkur og Knattspyrnusambands Íslands. Sú getraunastarfsemi, sem hófst í maímánuði 1969, í s.l. maímánuði, hefur skilað þó nokkrum hagnaði, eins og ég gat um áðan, þótt hliðstæður rekstur á árunum 1952–1956 benti ekki til, að slík starfsemi mundi verða sérstaklega arðgæf.

Vona ég, að með þessum upplýsingum hafi ég svarað fsp. hv. þm.