26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3625)

905. mál, knattspyrnugetraunir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Sú fsp., sem hér er til umr., og svör hæstv. menntmrh. við henni gefa tilefni til þess að mínum dómi að vekja á ný athygli á því, að fyrir Alþ. hefur verið lögð till. til þál. um það, að sett verði á stofn 5 manna nefnd, er hafi það hlutverk að gera fjárhagsáætlun fyrir íþróttastarfsemina í landinu. Eins og segir í þeirri till., á að gera fyrstu áætlun fyrir árið 1971, en eftir það skulu þær gilda til fjögurra ára. Og við gerð fjárl. hverju sinni skuli þessi áætlun lögð til grundvallar fjárframlögum ríkissjóðs til íþróttastarfseminnar, því að það er vissulega alveg rétt, að nokkurs ósamræmis gætir í skiptingu þess fjár, sem til íþróttastarfseminnar er varið, og í vaxandi mæli hafa menn orðið þess varir, að Ungmennafélag Íslands, sú hreyfing, sem á mikinn hljómgrunn meðal æskufólks um allt land, hefur verið afskipt í þessum málum. Þess vegna er í þeirri till., sem ég er hér að minna á, gert ráð fyrir því, að í nefndinni skuli eiga sæti ekki einungis forseti ÍSÍ og íþróttafulltrúi ríkisins, heldur og formaður UMFÍ og svo tveir menn kosnir af Sþ. Þessi getraunastarfsemi, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, var reynd, eins og kunnugt er, fyrir nokkrum árum, að ég hygg á nokkru víðtækari grundvelli, en gaf þá ekki góða raun og lognaðist út af. Nú er svo að sjá sem meiri áhugi sé á þessari starfsemi og nokkur tekjuvon sé við hana bundin. Ég tel sjálfsagt, að þegar þessi mál verða endurskoðuð, og þau hljóta að verða endurskoðuð nú alveg á næstunni, hvort sem það verður á grundvelli þáltill. þeirrar, sem ég hér minni á, eða með öðrum hætti, þá sé þess vandlega gætt, að svo stór aðili, merkur aðili sem ungmennafélagshreyfingin er, verði ekki hafður afskiptur í þessu máli.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til þess að minna hv. þm. á það, að þessu máli hefur þegar verið hreyft hér, og vænti þess, að till. fái fljóta og góða afgreiðslu.