26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

903. mál, raforkumál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki ánægður með samanburð hæstv. ráðh. varðandi fortíðina. Það er ætíð hægt að finna tíma til þess að fara út í það, og skal ég ekki gera það mjög að umtalsefni. Ég vil einungis rifja það hér upp, að 1953 var gerður pólitískur samningur á milli Framsfl. og Sjálfstfl. við stjórnarmyndun um að afla 250 millj. í rafmagnsáætlun dreifbýlisins til þess að byggja orkuver og leggja háspennulínur og dreifilínur, eftir því sem til hrykki. Þessa fjár var aflað, og það var stórfé. Það mundi núna þurfa að tala um þúsundir millj. til þess að hafa sambærilega tölu, eins og 1. fyrirspyrjandi sagði, og ef svo hefði verið haldið fram sem þarna var lagður grunnurinn að, og álíka fjárhæðir lagðar fram, eftir að þessari 10 ára áætlun lauk, hefði nú verið búið að rafvæða fyrir æðilöngu allar sveitirnar. Það er alveg öruggt.

Í þessu sambandi hefur það enga þýðingu að bera saman lengd á línum, vegna þess að það þurfti fyrst að byggja orkuverin í rafmagnsáætlun dreifbýlisins, síðan aðalháspennulínurnar og loks dreifilínurnar, og það þýðir því ekkert að vera að kippa dreifilínunum út úr í þessu sambandi og bera þær saman. Það hefur enga þýðingu. Ef áætluninni hefði verið haldið áfram, þá væri nú búið að ljúka þessum málum.

Ástæðan til þess, að nú er allt nálega strand, er einfaldlega sú, að fjárveitingar hafa látlaust farið lækkandi. Við skulum ekkert vera að þræta um þetta. Þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir, og við skulum ekki vera neitt að reyna að skekkja þá mynd. En þetta er í raun og veru ekki aðalatriðið, heldur hitt, hvernig ástatt er núna. Það komu fram ýmsar upplýsingar hjá hæstv. ráðh., og það, sem mér fannst eftirtektarverðast, var þetta, að það er eftir að leggja til 200 býla, þar sem meðalfjarlægð er 1.5 km eða minna, og 270 býla, þar sem meðalfjarlægð er 1.5–2 km, þ.e.a.s. 470 býli eru eftir alls, þegar miðað er við 2 km fjarlægð, en oft hefur undanfarin ár verið lagt til 200 býla á ári. Það væri ekki nema manndómsverk að ljúka þessum 470 býlum á tveimur sumrum í stað þess að vera að standa hér og þræta um þessi mál.

Þetta eru þær einföldu staðreyndir, sem koma fram af máli hæstv. ráðh. Ef t.d. hæstv. ríkisstj. setti sér það að gera í þessum málum álíka og hún gerði sjálf fyrir svona þremur árum, þá mundi vera hægt að ljúka þessum málum, ef ég misskil þetta ekki, á tveimur sumrum. En í stað þess, að þetta horfi svo vel í dag, þá horfir þetta svo illa, að það fer stórfækkandi þeim býlum, sem lagt er til, og það, sem verra er, að ríkisvaldið er komið út í það að notfæra sér neyð manna í þessu tilliti til þess að pína peninga úr þeirra eigin vösum. Menn eru látnir leggja fram úr eigin vasa, ef vegalengdin er meira en 1.5 km að meðaltali, en samt er það yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj., að koma skuli rafmagn frá samveitum til þeirra svæða, þar sem vegalengdin er 2 km eða minni. Þá verður vitanlega að borga þessum mönnum þessa peninga aftur til baka síðar, því að með í áforminu eru í raun og veru þessi býli, sem þarna er verið að borga niður, ef svo mætti orða það.

Þá finnst mér það ekki ná nokkurri átt að vera að pressa menn til þess að taka lán heima fyrir og borga vextina af þeim lánum, og mér finnst, að ef ætti að koma lánsfé að heiman í þessu sambandi, ætti ríkið að sjálfsögðu að borga vextina af þeim lánum og notfæra sér þannig þá lánsmöguleika, sem þarna eru fyrir hendi, ef menn treysta sér ekki til þess að útvega peninga öðruvísi, — borga vextina af þeim, eins og hverjum öðrum ríkislánum.

Ég vona, að hæstv. ráðh. sjái, að þetta tvennt: að notfæra sér neyð manna til þess að láta þá leggja fram úr eigin vasa það, sem kostar að leggja umfram 1.5 km, og að pína menn til þess að leggja sjálfa fram vexti af lánum til ríkisins, til þess að fá línur, þetta hvort tveggja er ósæmilegt með öllu fyrir ríkisvaldið, og þetta verður að breytast, því að þarna kemur fram mikil mismunun, sem menn verða annars að búa við.

Ég vil biðja hæstv. ráðh. að taka upp samstarf um þessi mál. Við skulum ekkert vera að metast um það, sem liðið er í þessu, en taka upp samstarf um þessi mál og gera nú strax áætlun um þessi 470 býli, sem hann upplýsir, að eftir séu. Þá vita menn, hvar þeir standa, þeir, sem þar eiga hlut að máli, og það er strax stórfellt atriði. Það veit ég, að hæstv. ráðh. sér. Svo þarf að taka þessi býli í réttri röð, miðað við vegalengdina, svo að enginn geti sagt, að honum sé mismunað. Auka þarf fjárveitingarnar til þessara mála, þannig að þessu megi ljúka á t.d. tveimur árum, þá yrði hraðinn svipaður og hann var fyrir 3–4 árum, og ef ráðh. finnst ekki hægt að útvega alla þessa peninga öðruvísi, þá sé þeim, sem þarna eiga hlut að máli, heimilt að leggja fram lánsfé, en vextirnir séu borgaðir af ríkissjóði. Það sé svo höfð rétt röð á þessum framkvæmdum, þannig að menn séu ekki settir á eins konar uppboð eða öllu heldur niðurboð, að menn komist fram fyrir aðra með því að borga úr eigin vasa. Það er ekki sæmilegt að segja við bændurna: Ef þú borgar sjálfur, borgar þig niður í 1.5 km, þá skalt þú komast fram fyrir nágranna þinn, þar sem vegalengdin er t.d. 1.6 km. Það er þetta, sem er gert núna. Ég vona, að allir sjái, að það er ekki fært að framkvæma þetta svona, og ég vona, að hæstv. ráðh. vilji taka þessa liði til endurskoðunar.

Ég verð að segja, að þessar umr. hafa verið mjög gagnlegar og hér hafa komið fram mjög merkar upplýsingar, sem sýna það, að þetta mál er alls ekki á nokkurn hátt óviðráðanlegt, þ.e.a.s. að ljúka þessu með miklum hraða, og ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem kom fram hjá hæstv. raforkumrh. og ég tel þýðingarmesta atriðið, sem kom fram í umr., sem sé þetta, að það er stefna ríkisstj., að þau svæði fái rafmagn frá samveitum, þar sem meðalvegalengdin á milli býla er 2 km eða minna. En það var þessi stefnuyfirlýsing, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., og hún er náttúrlega aðalatriðið í þessum umr., því að sá býlafjöldi, sem þar á hlut að máli, er ekki svo mikill, að þetta hlýtur þá að koma alveg á næstunni. Ég þykist sjá, að það hljóti svo að verða. En þá vita menn samkv. þessari yfirlýsingu, sem hér hefur verið gefin, hvar þeir standa að þessu leyti, að ef þeir eru á svæði, þar sem meðalvegalengdin er 2 km eða minna, þá eiga þeir örugga von í því að fá rafmagn frá samveitu.