26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í D-deild Alþingistíðinda. (3636)

903. mál, raforkumál

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er óhætt að taka undir þær raddir, sem hér hafa komið fram um, að rafmagnið er óskabarn allra landsmanna og ekki sízt þeirra, sem ekki hafa fengið það enn þá inn á sín heimili. Ég minnist þess árið 1963, að þá var það einn fyrrv. alþm. úr stjórnarliðinu, sem hélt því fram á kosningafundi á Snæfellsnesi, að það væri skýlaus stefna ríkisstj. að koma rafmagninu heim á alla sveitabæi landsins fyrir árslok 1970. Nú er 1969, og það ár er senn á enda. Þessi sami þm. sagði, að þessu hefði hæstv. raforkumrh. lofað, og allir, sem þekktu Ingólf Jónsson, vissu það, að hann væri orðheldinn maður. Nú ætla ég ekkert um það að segja, en læt hv. þingheim um það að dæma, hversu orðheldinn hæstv. orkumrh. er.

Lítum á það, að hæstv. orkumrh, á sæti í orkuráði og við hlið hans í orkuráði er einnig hæstv. fjmrh. Tveir valdamiklir menn úr hæstv. ríkisstj. eiga sæti í orkuráði. Ósköp er þeirra hlutur rýr, þegar á aðstöðu þeirra er litið til þess að knýja fram rafmagnsmálin í landinu. Það er almannarómur, ekki einungis þm., heldur og allrar þjóðarinnar, að aldrei hafi eins illa til tekizt og seint gengið í orkumálum og hin síðari ár. Ekki er það fyrir það, að þessir menn hafi ekki völd og hafi ekki aðstöðu til þess að koma þessum málum betur áfram en reynzt hefur. Mér virðist af ýmsum málum, sem fyrir hv. Alþ. hafa verið lögð, að þessir háu herrar geti það, sem þeir vilja. Þeir gátu látið í Kísiliðjuna við Mývatn í fyrra 150 millj. kr., en til orkumála, til nýrra rafveitna, eru aðeins á fjárl. yfirstandandi árs 22 millj. kr. — ekki 27, heldur 22. Og kunnugir menn hafa tjáð mér, að meiri hlutinn af þeirri upphæð fari til þess að borga niður lán, sem sýslu- og sveitarfélög hafa tekið til þess að standa sjálf fyrir því að fá rafmagn til sín. Það er ekki von, að vel gangi, þegar ekki hærri upphæðir en þetta eru lagðar fram til þessara mála, 22 millj., og meiri hlutinn fer til að borga niður lán. Rafmagnið kostar orðið talsvert eins og annað í landi hér, því að ekkert er gert nema fyrir allháar upphæðir eða mikla vinnu. Og ég vil skora á hæstv. orkumrh., sem hefur mikil völd í orkumálum, bæði í orkuráði og sem yfirmaður orkumálanna, að leggja sig betur fram um, að veitt verði meira fjármagn til rafveitna á næstu árum en verið hefur að undanförnu. Ég get getið þess hér, að í Vesturlandskjördæmi hefur komið rafmagn á aðeins 5 bæi í öllu kjördæminu á þessu ári, ekki fyrir tilstilli hæstv. ríkisstj., heldur fyrir það, að hlutaðeigandi aðilar hafa sjálfir útvegað fjármagnið og á þann hátt fengið rafmagnið heim til sín. Hins vegar mun raforkumrh. hafa boðizt til eða raforkuráð eða raforkuskrifstofan að lána Helgafellssveit til að leggja á 17 bæi þar, ef hlutaðeigandi aðilar legðu fram sjálfir á þriðju millj. kr. og að unnið yrði fyrir það framlag í ár, en að hlutur ríkisins kæmi á næsta ári. Af framkvæmdum hefur ekki orðið þarna, en í Vesturlandskjördæmi á eftir að leggja rafmagn á um 180 bæi, og áætlað er, að það muni kosta um 60–70 millj. kr.

Það er eftirtektarvert í þeim umr., sem hér hafa farið fram, að það virðist ekki ýkjamikið verk að koma rafmagninu heim á þá bæi í landinu, sem eftir eru. En standa þarf betur að þeim málum og skipuleggja þarf þessi mál betur en verið hefur að undanförnu, því að þar virðist engin framkvæmdaáætlun hafa verið, sem hægt hefur verið að byggja á, hún hefur aldrei staðið árlangt, hvað þá lengur. Þessi framkvæmdamál þarf að skipuleggja fram í tímann, og líka þarf að hugsa fyrir fjármagni, þannig að þær áætlanir, sem gerðar eru, standist. Ég skora á hæstv. orkumrh. að sjá um að gera verulegt átak í þessum málum, þar sem hann er margfaldur í roðinu sem áhrifamaður í orkumálum landsins.