03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í D-deild Alþingistíðinda. (3643)

906. mál, Hagráð

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er: Hve marga fundi hefur Hagráð haldið og hvenær? Hagráð hefur haldið alls 16 fundi, 6 árið 1966, 6 árið 1967 og 4 árið 1968. Á árinu 1969, þessu ári, hefur Hagráð enn ekki komið saman til fundar, og mun ég gefa nánari skýringu á því hér á eftir.

Síðan er spurt: Hefur Efnahagsstofnunin lagt fyrir Hagráð skýrslur samkvæmt 19. gr. laga um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð? Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, segir í tilvitnaðri lagagrein svo m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Efnahagsstofnunin skal leggja fyrir Hagráð tvisvar á ári, í apríl og október, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum.“

Til þess að spara hv. þm. tíma hef ég látið dreifa meðal þm. — og vona að allir hafi fengið það — yfirliti yfir starfsemi Hagráðs frá upphafi, þar sem getið er um dagsetningu funda og fundarefni. Tel ég þetta vera hentugra en að vera að eyða tíma þingsins í að lesa þá löngu skýrslu upp. Ef sú skýrsla er skoðuð, kemur í ljós, að þeirri meginreglu, að Efnahagsstofnun leggi fyrir ráðið til umr. tvær almennar yfirlitsskýrslur á ári, hefur verið fylgt í stórum dráttum fram til ársins 1969. Þó hafa ýmsar orsakir valdið því, að tímasetning skýrslnanna hefur ekki fylgt ákvæðum laganna nákvæmlega.

Ráðið hóf starfsemi sína í ágúst 1966. Á fyrsta fundi þess var lögð fram ítarleg yfirlitsskýrsla um þróun og horfur í efnahagsmálum. Önnur almenn yfirlitsskýrsla var síðan lögð fyrir ráðið í des. sama ár. Á árinu 1967 lagði Efnahagsstofnunin fyrir ráðið almennar yfirlitsskýrslur í maí og nóvember. Á árinu 1968 lagði stofnunin fyrir ráðið almenna yfirlitsskýrslu í maí og síðan ítarleg gögn um aðsteðjandi efnahagsvanda í október það ár, þótt ekki væri í formi almennrar yfirlitsskýrslu. Auk ofangreindra yfirlitsskýrslna hefur stofnunin lagt fyrir ráðið margs konar aðrar skýrslur um sérstök málefnasvið, eins og kemur fram í hinu fjölritaða yfirliti, sem dreift hefur verið meðal þm. Á árinu 1969 hefur ráðsmönnum verið send ein skýrsla, skýrsla fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ársins 1969, og er hún dagsett 16. maí þessa árs.

Eins og ég tók fram áðan, hafa á þessu ári ekki verið haldnir fundir í Hagráði og ekki lagðar fyrir það aðrar skýrslur en skýrsla fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ársins 1969. Ástæður þessa eru tvær. Í fyrsta lagi hafði Efnahagsstofnunin svo miklum og margvíslegum verkefnum að sinna síðari hluta ársins 1968 og fram á haust 1969, að hún komst með engu móti yfir að framkvæma þá skýrslugerð, sem lögin um Hagráð gera ráð fyrir.

Kom hér fyrst til undirbúningur margvíslegra gagna, er voru undanfari gengisbreytingarinnar í nóvember 1968, og að því loknu undirbúningur gagna, er snertu þær ráðstafanir, sem fylgdu í kjölfar gengisbreytingarinnar. Má í þessu sambandi ekki sízt minna á hinn veigamikla þátt Efnahagsstofnunarinnar í störfum yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins. Þá fékk forstjóri stofnunarinnar leyfi frá störfum í byrjun febrúar til þess að geta starfað sem ráðunautur atvinnumálanefndar ríkisins og til þess að ljúka skýrslugerð vegna Háskólans. Að þessum störfum unnu með honum tveir aðrir starfsmenn stofnunarinnar, allt fram til s.l. hausts. Þá var hluti starfsliðs stofnunarinnar bundinn við önnur þýðingarmikil störf utan hins eiginlega verksviðs Hagráðs, svo sem gerð mennta-, samgöngu- og byggðaáætlana.

Í þessu sambandi er ástæða til að benda á, að föstu starfsliði stofnunarinnar hefur ekki verið fjölgað síðan stofnunin tók til starfa árið 1962, enda þótt verkefni hennar hafi verið aukin með hverju ári. Eru fastir starfsmenn stofnunarinnar nú litlu fleiri en voru í hagdeild Framkvæmdabankans áður. Vandinn hefur að nokkru verið leystur með ráðningu stúdenta á sumrum og skamman tíma í senn aðra hluta árs, en hefur að öðru leyti haft í för með sér óhæfilegt vinnuálag við stofnunina og beinlínis leitt til þess, að hún hefur ekki getað annað öllum verkefnum, sem henni hafa verið falin, á tilskildum tíma.

Í öðru lagi má telja, að stofnun atvinnumálanefndar ríkisins og atvinnumálanefnda kjördæmanna snemma á árinu 1969 hafi a.m.k. um sinn mjög dregið úr mikilvægi þess, að fundir væru haldnir í Hagráði og skýrslur fyrir það lagðar. Höfuðtilgangur með stofnun Hagráðs var að mynda vettvang, þar sem fulltrúar ríkisvalds, verkalýðsfélaga og vinnuveitenda gætu skipzt á upplýsingum og gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Atvinnumálanefnd ríkisins er einmitt slíkur vettvangur og að því skapi eðlilegri og virkari vettvangur en Hagráð, að hún er mun fámennari og heldur oftar fundi. Við þær aðstæður, sem ríkjandi voru í efnahagsmálum fyrri hluta árs 1969, þegar skjótra viðbragða var þörf og náins samstarfs á milli hinna þriggja áðurnefndra aðila, var ekkert eðlilegra en að atvinnumálanefndin tæki í reynd við verkefnum Hagráðs, ekki sízt þegar sömu stofnuninni hafði verið falið að undirbúa fundi bæði Hagráðs og atvinnumálanefndarinnar. Hins vegar er nú í Efnahagsstofnuninni langt komið undirbúningi að skýrslu til Hagráðs um ástand og horfur í efnahagsmálum. Hæfilegum tíma eftir að þeirri skýrslu hefur verið dreift á milli ráðsmanna mun verða haldinn fundur í ráðinu.