03.02.1970
Efri deild: 47. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Iðnþróunarsjóð, 156. mál Nd., hefur verið til athugunar hjá iðnn. og hefur n. látið fara frá sér álit á þskj. 351. Mælir n. sameiginlega með frv., en einstakir nm. hafa samkv. því óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt.

Frv. þetta er lagt fram af hæstv. ríkisstj. vegna aðildar Íslands að EFTA og ákvörðunar Norðurlandaþjóða um að aðstoða Íslendinga við að komast yfir þá erfiðleika, er innganga í EFTA kann að hafa í för með sér fyrir íslenzkan iðnað og til þess að örva iðnþróun landsins. Nokkrar umr. urðu um Iðnþróunarsjóð, þegar aðild Íslands að EFTA var ákveðin og er ekki ástæða til þess að rekja þær hér. En ég held, að hv. þdm. geti tekið undir ummæli hv. 1. þm. Norðurl. v. í gær, þar sem hann taldi hér vera um mikinn vináttuvott að ræða hjá norrænum frændum okkar og beri sízt að vanmeta þann góða hug, sem að baki sjóðsins stæði.

Nokkur ágreiningur hefur verið um, hvort framkvæmdastjórn sjóðsins skyldi þingkjörin eða kjörin af bankaráðum og stjórn Iðnlánasjóðs, eins og nú er gert ráð fyrir. Frv. í upprunalegri mynd gerði ráð fyrir, að Seðlabanki Íslands ætti aðild að framkvæmdastjórn, en samkv. brtt. hæstv. iðnrh. við meðferð málsins í Nd. var samþykkt, að framkvæmdastjórn 5 manna yrði kosin af bankaráðum Landsbanka, Útvegsbanka, Iðnaðarbanka, Búnaðarbanka og af stjórn Iðnlánasjóðs. Þannig liggur því málið fyrir í þessari hv. þd.

Við 2. umr. málsins í gær kom einnig fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að þessi sjóður væri betur kominn undir yfirráðum Framkvæmdasjóðs eða Atvinnujöfnunarsjóðs. Ég tel, að markmið sjóðsins séu slík, að það væri hrein fásinna að setja sjóðnum slík ákvæði. Sami hv. þm. fordæmdi það, að bankastjórar yrðu kjörnir til þess að vera í framkvæmdastjórn. Lagafrv. er ekki einskorðað við bankastjóra í framkvæmdastjórn, heldur fulltrúa íslenzka bankakerfisins. Þar með koma að sjálfsögðu til greina a.m.k. allir bankaráðsmenn allra viðkomandi bankastofnana, svo og stjórnarmeðlimir Iðnlánasjóðs. Ég tel mikilsvert, að náið samstarf verði milli Iðnþróunarsjóðs og þeirra viðskiptabanka og viðskiptabankanna yfirleitt, því að eins og hæstv. iðnrh. vék að, þegar hann talaði fyrir málinu í gær, þá er brýn nauðsyn þess, að stofn– og rekstrarfjárþörf fyrirtækja sé samræmd. Það hefur ætíð verið mikill misbrestur hér á. Fjárfestingarsjóðir veita lán til uppbyggingar, en rekstrarfjárþörf hefur ekki verið sinnt eða þveröfugt. Með þessu ætti að ráðast bót á hvað Iðnþróunarsjóð og iðnaðinn snertir.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, en mæli með frv. um Iðnþróunarsjóð, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.