03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í D-deild Alþingistíðinda. (3650)

951. mál, sjálfvirkt símkerfi

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þá fsp., sem hér er til umr., flutti Kristján Ingólfsson, þegar hann sat á Alþ. í forföllum mínum hér á dögunum. En hún hljóðar svo: Hvað líður framkvæmd áætlunar um byggingu sjálfvirks símakerfis og hvenær kemur röðin að Austurlandi?

Austfirðingar eru að vonum orðnir nokkuð langeygðir eftir framkvæmdum á þessu sviði. Það er ekki einasta það, að þeir hafa verið settir aftastir á drógina að þessu leyti, heldur einnig hitt, að símaþjónustan eystra hefur oft verið tiltölulega mjög léleg. Það var lengi ákaflega slæmt samband á línunum hér á milli landshluta. Og um tíma þurftu menn að bíða ákaflega lengi eftir símtölum. Á vissum tímabilum var það raunar svo, að heita mátti, að meiri partur af samtölum væri afgreiddur með hraði. Sambandið hefur lagazt heilmikið, og það hefur verið fjölgað talrásum, þannig að þetta út af fyrir sig hefur færzt í töluvert betra horf. Aftur á móti er stórkostlegur bagi að því nú, hvað afgreiðslutími er víða ákaflega takmarkaður á hinum ýmsu landssímastöðvum, jafnvel allfjölmennir staðir eins og Vopnafjörður detta út úr öllu sambandi strax kl. 8 á kvöldin. Og mér er í huga ákaflega sláandi dæmi um þyngslin í þessu kerfi, dæmi frá í sumar. Það var opnað þarna gistihús með þó nokkuð mörgum gistiherbergjum og það leit út fyrir, sem og varð, að mikil aðsókn yrði að þessum stað. En sími var ekki opinn á viðkomandi símstöð nema til kl. 6. Þetta var vitanlega alveg óþolandi, og það fékkst fyrirgreiðsla á þessu eftir japl og jaml og fuður. En okkur var ráðlagt, þegar við gengum frá formlegri umsókn, að bjóða að greiða hluta af því, sem það kostaði að lengja tímann þarna um nokkra klukkutíma. Við gerðum þetta, því það skipti öllu máli að fá lengdan tímann, en ég veit nú ekki niðurstöður af því, hvort hótelið sjálft borgar að einhverju leyti þennan kostnað. Þetta er ákaflega sláandi dæmi um það, hvað þunglamalegt kerfið er og hversu mikil nauðsyn er á því að fá þær úrbætur, sem sjálfvirka simakerfið vafalaust lætur okkur í té. Það er auðvitað alveg óviðunandi og ákaflega lamandi fyrir einstaklinga, og þó alveg sérstaklega fyrir allan atvinnurekstur, að enn þá skuli vera alveg lokað á símstöðvum í 14 klukkutíma á sólarhring og sums staðar á smæstu stöðvunum enn lengur. Svona er sem sagt ástand þarna, og þegar menn hafa það í huga, þá er það í fyllsta máta eðlilegt, að okkur Austfirðinga fýsi að vita um það frá fyrstu hendi, hvað fyrirhugað er að gera í þessum málum.