03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (3662)

85. mál, endurskoðun laga um húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er víssulega ánægjulegt að heyra það, að nú, eftir fjögurra ára endurskoðun, skuli vera einhver hreyfing á þessu máli, sem ekkert hefur heyrzt um nú í mjög langan tíma.

Eftir því, sem ráðh. skýrði frá, hefur ríkisstj. nú til athugunar, eins og hann orðaði það, heildartill. frá húsnæðismálastjórn. Í því sambandi væri í sjálfu sér fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvort samkomulag hefur náðst í húsnæðismálastjórn um þessar till. og þá hvort hún hefur ekki skilað einhverjum till. í sambandi við það stóra mál og það meginmál, sem í rauninni allt annað veltur á, en það er tekjuöflunin til þessa mikla kerfis. Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðh., hvort hér væri um sameiginlegar till. húsnæðismálastjórnar að ræða eða ekki, og sömuleiðis kom það ekki fram, hvort hún hefði lagt fyrir ríkisstj. einhverjar till., annaðhvort einstakir nm. eða húsnæðismálastjórnin öll, um tekjuöflun í sambandi við húsnæðismálin. Þetta hefði að sjálfsögðu verið fróðlegt að fá upplýst, en það kemur væntanlega fyrir fljótlega, fyrst þetta mál er þó komið til ríkisstj., og þess er a.m.k. að vænta, og ég býst við, að þess vænti margir húsbyggjendur, að það liggi ekki ákaflega lengi hjá hæstv. ríkisstj. óafgreitt, heldur komi þá til kasta Alþ., áður en langt um líður.