03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í D-deild Alþingistíðinda. (3664)

85. mál, endurskoðun laga um húsnæðismál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þar sem ég er meðflm. að þessari fsp., auk þess sem ég hef staðið í því stríði nokkur undanfarin ár að fá upplýsingar hjá hæstv. félmrh. um það, hvað þessari marglofuðu endurskoðun líður, þá finnst mér rétt, að ég fái að segja hér örfá orð, áður en fsp. er tekin út af dagskrá.

Ég vil þá í fyrsta lagi undirstrika það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér áðan, að það er mjög óviðkunnanlegt, vægast sagt, að svo til öllum þeim umbótatill., sem fluttar hafa verið á Alþ. nokkur undanfarin ár um húsnæðismálin, hefur verið drepið á dreif með þeim fyrirslætti, að heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni stæði yfir. Sérstaklega hef ég í þessu sambandi í huga frv., sem ég flutti fyrir tveimur árum ásamt öðrum þm. um aðstoð við byggingarsamvinnufélög. Þetta frv. var afgreitt fyrir tveimur árum samkv. till. heilbr.- og félmn. á þann veg, að því var vísað til ríkisstj. og ekki talið tímabært, að Alþ. fjallaði um málið, vegna þessarar heildarendurskoðunar. Nú eru liðin tvö ár, og ég hef raunar aftur sýnt þetta frv. hér á hv. Alþ., en það hefur enn þá ekki neina afgreiðslu hlotið, væntanlega með sömu röksemdafærslu. Nú segir hæstv. ráðh., að ríkisstj. hafi einhverjar till. til meðferðar, en þetta eru sannarlega hálfgerðar huldutill. eftir því sem hér hefur komið fram, því að það eina, sem er upplýst um þær, er það, að húsnæðismálastjórnin standi ekki að þeim, og í öðru lagi, að þær fjalli ekki um fjármagnsútvegun, sem hæstv. ráðh. sagði þó í sinni ræðu að væri þess eðlis, að aðrar breytingar væru tiltölulega lítils virði. Ég verð nú að segja það; að ef það er slík heildarendurskoðun, sem er verið að vísa hér til á hv. Alþ. ár eftir ár, þá geri ég næsta lítið með hana. Ég held, að það væri gott og raunar nauðsynlegt með tilliti til þessara mála allra, að það kæmi þá hreinlega fram í þessum umr., hvaða till. það eru, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú til meðferðar, og frá hverjum þær eru, því að hvorugt þessara atriða hefur verið upplýst. Einungis þetta: Þær eru ekki frá húsnæðismálastjórn og þær fjalla ekki um fjármagnsútvegun, sem er þó forsenda þess, að nokkuð sé hægt að gera samkv. áliti hæstv. félmrh. sjálfs.

Annars er það auðvitað ekki svo, að ekkert skipti máli í húsnæðismálunum annað en fjármagnsútvegunin. Í lögum um húsnæðismálastjórn er heill kafli, sem lýtur að því, að byggingarkostnaður verði lækkaður. Sá kafli hefur algerlega verið vanræktur af húsnæðismálastjórn, og til þess að reyna að bæta fyrir þá vanrækslu var sett á laggirnar svonefnd framkvæmdanefnd byggingaráætlunar, sem því miður hefur að mínum dómi tekizt það verk sitt svo, að síður en svo er til lækkunar á byggingarkostnaði, svo að ekki sé meira sagt.

Ég skal ekki í fsp.-tíma gera húsnæðismálin að umræðuefni í heild. Til þess eru þau allt of viðamikill. Ég vildi aðeins árétta þessar spurningar, sem hv. 5. þm. Reykn. kom hér fram með. Frá hverjum eru till. og um hvað fjalla till. ?