03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

904. mál, héraðslæknar

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þessi fsp. varðar þrjú læknishéruð á Norðausturlandi, sem öll eru nú Iæknislaus: Þórshafnarhérað, Kópaskershérað og Breiðumýrarhérað.

Þórshafnarhérað tekur yfir 4 hreppa í Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu, og íbúar þess voru rúmlega 800 við manntal 1968. Vopnafjarðarlæknir þjónar nú þessu héraði, eftir því sem tími hans og færð leyfir. Milli Þórshafnar og Vopnafjarðarkauptúns eru 80 km, eða því sem næst, og yfir heiði að fara. Þess má geta í þessu sambandi, að í álitsgerð Efnahagsstofnunarinnar í sambandi við Norðurlandsáætlun er Þórshöfn talin helzt til þess fallin að vera aðalbyggðakjarni Norðausturlands milli Jökulsár í Öxarfirði og Smjörvatnsheiðar. Á Þórshöfn er nýr og vandaður læknisbústaður með sjúkraskýli og héraðslækni á þessu svæði er í lögum ætluð staðaruppbót á læknislaun, 50% af laununum, og utanfararréttur með launum eftir 5 ára þjónustu.

Kópaskershérað tekur yfir 4 hreppa í Norður-Þingeyjarsýslu, og íbúatala þeirra var s.l. ár rúmlega 690. Þar er nýlegur læknisbústaður með sjúkraskýli og héraðslækni ætluð 50% staðaruppbót á laun sín eins og á Þórshöfn svo og utanfararréttur. Raufarhafnarlækni er ætlað að sinna Kópaskershéraði. Milli Raufarhafnar og Kópaskers eru 55 km, og nú fyrir nokkru mátti sú leið heita ófær vegna snjóa, eins og raunar einnig milli Þórshafnar og Vopnafjarðar. En frá Kópaskeri að vesturmörkum læknishéraðsins er álíka langt og til Raufarhafnar og lengra þó upp á Hólsfjöll. Er þá um Hólssand að fara, sem er í óbyggð.

Breiðumýrarhérað tekur yfir 4 hreppa í Suður-Þingeyjarsýslu, íbúar rúmlega 1350. Þar er nýlegur læknisbústaður. Í næsta nágrenni við læknissetrið, á Laugum í Reykjadal, eru þrír skólar: fjölmennur héraðsskóli, húsmæðraskóli og barnaskóli Reykdæla, og er það að sjálfsögðu til mikils hagræðis fyrir skólana og þann mannfjölda, er þar dvelur meira en hálft árið, að hafa skólalækni svo nærri.

Í þessum héruðum kvíða margir því, sem von er, að leggja upp á veturinn læknislausir. Áform eða áætlanir um læknamiðstöðvar, þótt athyglisverðar séu og líklegar til góðs, þar sem staðhættir leyfa, geta á engan hátt dregið úr þeim kvíða, þar sem svo hagar til, að langleiðir geta teppzt hvenær sem er og yfir heiðar er að fara. Beiðnum, sem fram hafa komið undanfarin ár um snjómokstur á vegum vegna heilbrigðisþjónustu í þessum læknislausu héruðum, t.d. á vegum heilbrmrn., hefur ekki hingað til verið sinnt, hvað sem gerast kann í því efni á þessum vetri. Ég á þar sérstaklega við þjóðbrautina milli Tjörness og Vopnafjarðarkauptúns. Þó veit ég, að hjá heilbrigðisyfirvöldum er góður vilji til að verða þeim læknislausu að liði. En nú er svartasta skammdegið yfirvofandi og allra veðra von. Því leyfi ég mér að spyrja: Hverjar eru horfur á, að læknar fáist til starfa í Þórshafnar-, Kópaskers- og Breiðumýrarlæknishéruðum?