03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

90. mál, stjórnarráðshús

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Á þingi vorið 1954 fluttu tveir þáv. ráðh., Steingrímur Steinþórsson og Ólafur Thors, svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja úr ríkissjóði á árinu 1954 eða leggja til hliðar á því ári 2 millj. kr. til þess að reisa nýtt stjórnarráðshús í Reykjavík og 1 millj. kr. til kirkjubyggingar í Skálholti.“

Ólafur Thors fylgdi till. úr hlaði og gat þess fyrst, að hinn 1. febr. 1954, þegar 50 ár voru liðin frá því, að stjórnin fluttist inn í landið, hefði ríkisstj. birt tilkynningu þess efnis, að hún mundi beita sér fyrir því, að afmælisins yrði minnzt með því að byggja nýtt stjórnarráðshús. Ólafur Thors lýsti því síðan, hve þröngur væri húsakostur æðstu stjórnar landsins og væri að því mikill bagi fyrir hana og starfsfólk hennar. Þá skýrði hann frá því, að ríkisstj. hefði ákveðið hinu fyrirhugaða stjórnarráðshúsi lóð við Lækjargötu milli Bankastrætis og Amtmannsstígs, fyrirhugað væri, að þetta hús yrði vegleg bygging, en þó án alls íburðar.

Í jan. 1968 bar ég fram hér á Alþ. fsp. til forsrh. um það, hvað framkvæmd þessa máls liði. Forsrh. svaraði þessari fsp. 28. febr. 1968. Svar hans var í stuttu máli á þá leið, að lokið hefði verið við teikningu að þessu fyrirhugaða stjórnarráðshúsi á árinu 1966, en ýmsar ástæður hefðu valdið því, að dregizt hefði í 12 ár að ljúka því verki. Síðan hefði það dregið úr frekari framkvæmdum, að hér hefði verið mikil atvinna á árunum 1966–1967. Þá upplýsti ráðh., að 18.5 millj. kr. væru í byggingarsjóði stjórnarráðshúss, en Alþ. hefði lagt árlega ákveðna upphæð í sjóðinn.

Síðan forsrh. svaraði þessari fsp. minni í febrúar 1968, hefur sú breyting orðið, að mjög hefur dregið úr byggingarvinnu og atvinnuleysi skapazt hjá byggingariðnaðarmönnum. Ekki virðast horfur á, að úr því rætist í bráð, og ætti það að vera aukin hvatning þess, að ekki væri dregið lengur að hefja umrædda byggingu, sem áreiðanlega mundi skapa möguleika fyrir verulega aukna hagræðingu í störfum landsstjórnarinnar. Af þeirri ástæðu hef ég leyft mér að endurnýja þessa fsp. mína til hæstv. forsrh.