14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í D-deild Alþingistíðinda. (3689)

908. mál, aðgerðir gegn kali

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. landbrh. svörin. Ég vil nú ekki framar venju hefja miklar umr. um það, sem hann hefur sagt um þetta efni, enda gaf það ekki beinlínis tilefni til þess. Ég vil þakka honum upplýsingarnar, og ég sé af þeim, að sú n., sem skipuð var í sumar, er þegar tekin til starfa og virðist vera nokkuð komin á veg með sitt starf. Það er mikið atriði. Og mér þykir einnig vænt um að heyra þau orð hæstv. landbrh., og þau mættu heyrast úr munni fleiri manna, sem ég raunar ræddi hér áðan og gerði að mínum orðum, en það er, að kalið er mesti ógnvaldur landbúnaðarins nú um þessar mundir, og það verður aldrei gert of mikið að því að ræða það og finna ráð við því.

Hæstv. ráðh. segir, að fjármagnið hafi verið stóraukið til rannsókna í landbúnaðarmálum síðustu 10 árin og það sé nægilegt fjármagn fyrir hendi til þess að sinna þessu verkefni. Það er gott að heyra það. Þó saknaði ég þess í svari hæstv. ráðh., að hann tilgreindi engar tölur í þessu sambandi, hann nefndi aðeins þá tölu, sem mér var kunnugt um, þessar 500 þús. kr., sem ráðstafað var til kalnefndarinnar á fjárlögum núna. Hins vegar nefndi hann ekkert, hvaða fjármagn það er eða hversu mikið það er, sem varið er til kalrannsókna að öðru leyti. Að vísu er það umræðuefni, hvernig spilast úr slíku fjármagni sem því, sem veitt er til rannsóknarstarfsemi hér á landi, en ég hef ekki tíma til þess að ræða það nú vegna tímaskorts og vegna þess, að hér er ekki beinlínis umræðuvettvangur, en það er áreiðanlegt, að það er hlutur, sem menn þurfa að gefa nánar gætur, hvernig yfirstjórn rannsóknarmálanna er á landinu, hvort þar er allt eins ag vera á.

Ég sem sagt vil þakka hæstv. ráðh. þessi svör hans og gleðst yfir því, að kalnefndin eða samstarfsnefndin, sem hæstv. ráðh. kallar svo, er tekin til starfa og er þegar komin nokkuð áleiðis í störfum sínum, og ég vil leggja höfuðáherzlu á það, að hér er um svo stórt og mikið verkefni að ræða, að það má hvorki skammta peninga né tíma til þess að finna lausn á þessu stórkostlega vandamáli.