14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

108. mál, ráðstafanir vegna deyfi- og vanalyfja

Fyrirspyrjandi (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 131 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. um ráðstafanir vegna deyfi- og vanalyfja. Fsp. er svo hljóðandi:

„Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hindra ólöglegan innflutning, vörzlu, dreifingu svo og neyzlu deyfi- og vanalyfja?“

Hér er um að ræða mikið vandamál, sem nágrannaþjóðir okkar hafa átt við að glíma, í sambandi við útbreiðslu og neyzlu á deyfi- og vanalyfjum, og með þessari fsp., sem ég hef leyft mér að flytja til hæstv. heilbrmrh., hef ég viljað vekja athygli á þessu vandamáli, ef vera mætti líka til þess, að ráðstafanir yrðu gerðar í tíma varðandi þetta vandamál. Ég vildi og vekja athygli á því, að það er ekki aðeins um að ræða ráðstafanir af hálfu hins opinbera í þessum efnum, hér koma einnig til fjölmiðlunartækin, sem geta haft geysimikil áhrif gegn notkun þessara lyfja. Er ekki sama með hvaða hætti þessi tæki halda á þessum málum, og er þess að vænta að hið opinbera hafi náið samstarf við fjölmiðlunartækin varðandi þessi mál.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið. Það er öllum kunnugt, hversu þýðingarmikið mál hér er um að ræða. Vonast ég til þess, að fsp. geti haft þau áhrif, sem til er ætlazt, til varnar gegn útbreiðslu þessara deyfi- og vanalyfja.