14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (3693)

108. mál, ráðstafanir vegna deyfi- og vanalyfja

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. vildi ég leyfa mér að gefa eftirfarandi yfirlit í von um, að það nægi hv. fyrirspyrjanda og öðrum, sem áhuga hafa á þessu máli, sem svör við þeim fsp., sem hér eru til umræðu.

Einu lagaákvæðin um ávana- og fíknilyf og efni eru lög um tilbúning og verzlun með ópíum o.fl., nr. 14 frá 20. júní 1923. Lög þessi fjalla fyrst og fremst um meðferð á ópíum og hvers konar öðrum efnum, sem unnin eru úr ópíum, svo sem morfín, kókaín og heróín. Það er hins vegar ekki fyrr en með lögum nr. 43 frá 2. maí 1968, sem gildissvið þessara laga er útvíkkað og heimilað að láta ákvæði þeirra ná einnig til annarra efna heldur en hinna gömlu klassísku eiturlyfja. Með þeirri lagabreytingu er heimilað, að dómsmrn. geti úrskurðað, að ákvæði laganna gildi einnig um hvers konar efni, hvort sem þau eru afleidd af morfíni, kókaíni eða söltum þeirra eða ekki, og hafi sannazt við vísindalega rannsókn, að misnota megi þau á líkan hátt og þau hafi lík skaðvænleg áhrif sem hin fyrrnefndu efni, morfín, kókaín og ópíum. Lagaákvæði þetta er fyrst og fremst sett til þess að unnt sé að láta sömu reglur gilda um þau efni, sem á síðari tímum hefur verið farið að nota á svigaðan hátt og morfín, kókaín og því um líkt. En þar er helzt um að ræða kannabis, þ.e.a.s. marihúana og hassis, og L.S.D., en efni þessi eru ekki talin lyf í hinum venjulega skilningi þess orðs.

Með setningu þessara laga skapaðist fyrst grundvöllur fyrir því, að unnt væri að láta lagareglur um innflutning og meðferð á hinum sterku eiturlyfjum ná einnig til þessara nýrri efna: Með reglugerð nr. 257 frá 28. nóv. 1969 hefur dómsmrn. úrskurðað, að ákvæði laga um tilbúning og verzlun með ópíum skuli einnig taka til kannabis, þ.e.a.s. marihúana og hassis, og lýsergíð, þ.e.a.s. L.S.D., meskalín eða peyote og psílócybin, svo og hvers konar blandna og samsetninga, sem þessi efni hafa að geyma. Þá hefur einnig verið unnið að því að semja ítarlega reglugerð um innflutning og meðferð ávana- og fíknilyfja, en sú reglugerð er ekki fullfrágengin enn, og með henni er ætlunin að ná mun meiri tökum á meðferð og innflutningi þessara lyfja og efna. Það kom hins vegar í ljós, þegar farið var að vinna að samningu slíkrar ítarlegrar reglugerðar, að það skortir á heimildir í lögum til þess að gera upptæk þau lyf og efni, sem ópíumlögin fjalla um, og eins hefur komið í ljós, að refsiákvæði laganna eru orðin úrelt. Þess vegna hefur verið samið frv. til l. um breyt. á l. um tilbúning og verzlun með ópíum og fleira, þar sem það er lýst óheimilt að hafa undir höndum eða varðveita, veita viðtöku, gefa, afhenda, selja eða verzla með hvers konar lyf og efni, sem ákvæði ópíumlaganna ná til og ólöglega eru flutt inn eða framleidd, og gera skuli upptæka til ríkissjóðs slíka vöru og hagnað af verzlun með hana. Þá er einnig í frv. till. um það, að refsiákvæði laganna verði þyngd, sektir hækkaðar, og ef um stórfelld brot er að ræða, verði viðurlögin fangelsi allt að 6 árum. Þá er þar einnig till. um, að stórfellt brot verði skilgreint þannig, að það sé dreifing á lyfjum þeim og efnum, sem undir lögin falla, til hóps manna eða sala á þeim gegn verulegu gjaldi og eins ef um er að ræða innflutning, útflutning, vörzlu, verzlun, móttöku, afhendingu eða framleiðslu og vinnslu slíkra lyfja og efna í því skyni að selja þau eða dreifa til hóps manna gegn verulegu gjaldi. Ríkisstj. lagði frv. þetta fram á Alþ. fyrir þingfrestun og mælti hæstv. dómsmrh. fyrir því nú fyrir tveim dögum í hv. Ed. Þá hefur rn. fyrir sitt leyti einnig lagt til, að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykkt um meðferð slíkra ávana- og fíknilyfja og efna, sem gerð hefur verið á vegum Sameinuðu þjóðanna, og er í athugun hjá utanrrn. nánara fyrirkomulag aðildar Íslands að þeirri alþjóðasamþykkt.

Nú hafa verið ræddar þær helztu ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á löggjafarsviði, til þess að reyna að hindra útbreiðslu ávana- og fíknilyfja og hliðstæðra efna hér á landi, en jafnframt hefur þegar einnig verið unnið nokkuð á vegum tollgæzluyfirvalda og lögreglu að því að kanna, hvort hér séu í umferð þau ávana- og fíkniefni, sem nú eru mest í tízku í hinum vestræna heimi, og hefur tekizt samvinna milli löggæzlu- og tollgæzluyfirvalda og dómsmrn. og heilbrmrn., landlæknis, saksóknara og fleiri þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, um að vinna eftir föngum að því að fylgjast með, hvernig þróun þessara mála er og hvað gera megi til þess að stemma stigu við því, að þessi efni berist til landsins.

Eitt helzta vandamál í sambandi við ólöglegan innflutning á slíkum varningi er það, hversu erfitt er að finna hann í fórum manna, og m.a. þess vegna hefur utanrrn. leitað til Sameinuðu þjóðanna um að fá sérfræðing í þeim efnum til þess að þjálfa íslenzka tollgæzlu- og löggæzlumenn, en hvort það tekst, liggur ekki enn fyrir. Þá mun varnarliðið einnig hafa látið tollgæzluyfirvöldum á Keflavíkurflugvelli í té tæki, sem á að auðvelda leit að slíkum efnum.

Landlæknir hefur látið í té svo hljóðandi upplýsingar um smásölu ávana- og fíknilyfja: „Samkvæmt reglugerð nr. 30 frá 16. maí 1966 um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja skulu lyfsalar eða þeir, sem lyf láta í té, eftirrita alla lyfseðla, er hljóða á lyf þau, sem þar eru talin upp og eru um 30 talsins. Eru það lyf, sem eru undir alþjóðaeftirliti, auk annarra ávana- og fíknilyfja. Afritin eru gerð á sérstök eyðublöð, sem landlæknir lætur í té og eru send landlækni reglulega, mánaðarlega frá lyfjabúðum og á 3 mánaða fresti frá héraðslæknum, sem hafa á hendi lyfjasölu. Frá því snemma á árinu 1967 hefur verið unnið úr þessum skýrslum í vélum, og þannig hefur fengist nákvæmt yfirlit yfir notkun þessara lyfja í landinu. Þar kemur fram, hverjir fá þessi lyf, hve mikið og frá hvaða lækni eða læknum. Frá áramótum 1968 og 1969 hefur einnig verð fylgst með notkun sömu lyfja mánaðarlega í Reykjavík og nágrenni, þar sem hún er mest. Ekki mun vera annars staðar, svo vitað sé, fylgst eins vel með útlátum lyfjabúða á þessum lyfjum, og kom það m.a. fram á fundi sem landlæknar Norðurlanda héldu hér í Reykjavík s.l. sumar. Samkvæmt skýrslum þessum getur notkun deyfilyfja í landinu vart talizt mikil, þegar hún er borin saman við notkun þeirra í nágrannalöndunum, og hefur hún ekki aukizt undanfarin 2 ár. Þeir, sem neyta slíkra lyfja, eru að mestu sjúklingar, sem hafa átt við langvinna, þráláta sjúkdóma að stríða, og er ekki um marga einstaklinga að ræða. Notkun örvandi lyfja er nokkru meiri. Orsakir þess mun að einhverju leyti vera að finna í skorti á sjúkrarúmum fyrir fólk, sem haldið er geðrænum kvillum. Nokkuð mun þó vera um notkun örvandi lyfja í sambandi við eða samfara ofnotkun áfengis. Þar er þó einnig um tiltölulega fáa einstaklinga að ræða. Ekki má þó vanmeta það vandamál, sem notkun örvandi lyfja er og getur orðið, og er því full nauðsyn á að hafa strangt eftirlit með innflutningi þeirra í framtíðinni.“

Ég vænti þess, að þetta yfirlit fullnægi fsp. hv. fyrirspyrjanda.