21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í D-deild Alþingistíðinda. (3700)

119. mál, nýting landgrunnsins

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. utanrrh. fyrir greið og glögg svör við fsp. mínum. Ég fagna því mjög, að fyrir frumkvæði hans og hæstv. ríkisstj. hefur nú þegar fyrir milligöngu rannsóknaráðs ríkisins verið skipuð sérstök n. til þess að gera till. um rannsóknarverkefni á landgrunninu. Ég er þess fullviss, að verkefni þessarar n. sé hið mikilvægasta, og vil aðeins leggja áherzlu á, að allt kapp verði á það lagt, að fram fari sem ítarlegastar rannsóknir á auðæfum landgrunnsins, eins og raunar er gert ráð fyrir í lögum þeim, sem ég vitnaði til í upphafi. Hagnýting auðæfa landgrunnsins er aðeins þáttur í baráttu þjóðarinnar fyrir því að hagnýta auðlindir landsins yfirleitt, og þess vegna hljóta þessar vísindalegu rannsóknir, sem fram fara á næstunni, að ráða mjög miklu um það, hvernig þjóðinni tekst að treysta lífsafkomu sína á komandi árum, en allir eru sammála um það, að vísindi og tækni hljóti að ráða miklu þar um. Mér þykja upplýsingarnar, sem ráðh. minntist á og raunar höfðu komið fram áður, um að hugsanlegt sé að olíusvæði kunni að vera á hryggnum milli Vestfjarða og Grænlands, hinar athyglisverðustu, og dreg ekki í efa, að sú rannsókn, sem fer væntanlega fram í þessum efnum, muni jafnvel í upphafi einmitt beinast að því, að kynna sér, hvernig þeim málum sé háttað, hvort þarna kunni að vera olía í hafsbotninum.

Ég endurtek svo þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir góð svör við fsp. mínum.