21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í D-deild Alþingistíðinda. (3705)

128. mál, strandsiglingar

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég held, að þau verði að teljast allgreinargóð, a.m.k. ef miðað er við starfstíma hans í þessu ráðherraembætti.

Mér þykir vænt um að heyra það, að þessir liðir allir eru í einhverri athugun. Það er enginn vafi á því, að hvað skipakost snertir verður nú stórkostleg breyting á aðstöðunni, alveg sérstaklega þegar nýju skipin eru komin bæði og geta siglt hvort á móti öðru og verið þannig í stöðugum hringferðum. Ráðh. gat þess, að það væri einnig í athugun að skipuleggja vöruflutninga á landi, og það er gott til þess að vita, að það er einnig skoðað. En mér þykir það mjög sennilegt, að til viðbótar því að fá endurbættan skipakost og betri afgreiðsluskilyrði í höfnum, þá kunni að vera nauðsynlegt að gera ýmsar aðrar ráðstafanir til þess að beina vöruflutningunum í enn ríkari mæli yfir á skipin, m.a. í gegnum hagræðingu á flutningatöxtum, hafnargjöldum og ýmsu fleiru. Eins og ég sagði áðan, þegar ég mælti fyrir fsp., þá getur það varla verið nokkrum vafa undirorpið, að það er okkur hagfellt, að sem allra mest af a.m.k. þungavöruflutningunum fari fram á sjó, eins og hér er allt í pottinn búið, vegalengdir á landi víða mjög langar, vegakerfi ákaflega veikt, veðráttan eins og hún er, vegirnir oft og tíðum illfærir vegna hennar, og eins það, að við verðum alltaf að halda uppi slíkri þjónustu með strandsiglingum, vegna þess að á vetrum lokast leiðir og þá er ekki hægt að flytja á landi. Þess vegna verður að stuðla að því, að strandferðaþjónustan fái verkefni, ekki einungis á þeim tíma, þegar aðrir geta ekki sinnt þeim, heldur á öllum árstímum.

Þá virðist einnig vera í athugun, eins og raunar gat nú varla annað verið, aðstaðan hérna við höfnina og kannske víðar um land. Maður hlýtur að harma það, hversu seint þetta hefur gengið, því að það hefur áreiðanlega hjálpað til þess að draga flutninga frá Skipaútgerðinni, hversu þessi aðstaða hefur verið bágborin. Ég hef sjálfur, — og ég hef víst einhvern tíma getið um það hér, þegar ég hef rætt þessi mál, — margsinnis orðið var við það, þegar ég hef beðið um að senda vörur austur á firði, að þá er sagt: Er ekki hægt að senda þetta heldur með bílum, því það er svo erfitt að koma frá sér vörusendingum hjá Ríkisskip og við getum þurft að bíða þar svo lengi. Það er ekki strax búið að vinna þetta upp, og er illt til þess að vita, hvað dregizt hefur að gera eitthvað til úrbóta í þessum efnum. En maður vonar, að senn verði undinn bráður bugur að því. Það verður enn meira ósamræmi í því að hafa aðstöðuna í landi svona, þegar nýju skipin eru komin til sögunnar með sína tækni.

Þá vil ég aðeins minnast á farþegaflutningana. Hæstv. ráðh. sagði, að nú fengjust á nýju skipunum 12 farþegapláss og 6 í viðlögum. Þetta er vafalaust alveg rétt. „Breiðirnar“ hafa verið með 12 farþega, en ekki meira, því að salir hafa verið þar ákaflega þröngir, og þetta er auðvitað afskaplega takmarkað. Það þarf ekki annað en t.d. það, sem gerðist um daginn, þegar ég tók mér far með Herðubreið á milli fjarða, þá voru nokkrir sjómenn að færa sig á milli staða, ekki einu sinni heil skipshöfn, og svo nokkrir farþegar aðrir. Og þá var þetta allt yfirfullt og menn skiptust á um að tylla sér niður, meðan þeir voru að súpa kaffið. En þetta er auðvitað töluverð úrbót samt, því að þarna verða miklu rýmri salir, þó að ekki séu fleiri kojur, og auk þess verða skipin miklu fljótari í förum og koma þess vegna að betri notum. En þó er það svo, að það er ekki hægt að tala um neina verulega farþegaflutninga með þessum skipum, t.d. á milli landshluta, og ég held, að það sé óhjákvæmilegt að skoða þessa hlið mála nokkru nánar.

Það má vel vera, að það megi leysa úr ferðamannaþörfinni með leiguskipi. Mér finnst það þó heldur óbjörgulegt hjá okkur Íslendingum að taka leiguskip til þessara nota og a.m.k. nauðsynlegt að kanna það fyrst, eftir því sem mögulegt er, hvort ekki er hægt að finna verkefni fyrir íslenzk skip, jafnvel þó að þau væru ekki eingöngu bundin við ströndina, heldur líka að einhverju leyti í utanlandsferðum. Ég vil leggja áherzlu á það, að þær eru ekki eingöngu fyrir erlenda ferðalanga, þessar ferðir, því að þær hafa líka verið afar vinsælar af Íslendingum. Það er áreiðanlega dálítið atriði fyrir okkur líka að stuðla að því, að sem flestir Íslendingar noti sumarleyfi sitt til innanlandsferða fremur eða jafnframt því að aðrir fara úr landi.

Ég hef náttúrlega ekki haft neina aðstöðu til þess að gera neina rekstraráætlun um rekstur farþegaskips, en út af þeim tölum, sem hæstv. ráðh. gat um áðan að hefðu komið fram við athugun um minnkandi farþegafjölda með gömlu skipunum, þá vil ég aðeins leyfa mér að vekja athygli á því, að Esja og Hekla voru byggðar með vöruflutninga í huga jafnframt, og það er ekki hægt að ráða af þessum tölum, hvað kynni að verða flutt af fólki með nýjum farþegaskipum. Þessi skip hafa verið með það mikla vöruflutninga, að á sumum fjörðum hafa þau þurft að stanza marga klukkutíma. Það er náttúrlega ekki sambærilegt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Tími minn er búinn. En ég vil aðeins segja það að lokum, að ég tel nauðsynlegt og enda sjálfsagt, að þetta verði skoðað nánar og reynt að gera sér sem allra gleggsta grein fyrir, hvort ekki er hugsanlegt að ráðast í skipakaup eða skipabyggingar vegna farþegaflutninga með ströndum fram.