10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

115. mál, iðja og iðnaður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þess er getið í aths. um þáltill. í sambandi við aðild Íslands að EFTA, 117. þingmál, að þetta mál, 115. þingmál, og einnig 116. þingmál, frv. til l. um breyt. á l. um verzlunar atvinnu, muni verða lagt fyrir þingið í tengslum við þáltill. um EFTA–aðild. Er nánar gerð grein fyrir því þar, hver tilgangurinn með flutningi þessara mála er og kom það einnig fram í framsögu hæstv. viðskrh., fyrir EFTA–till. Í raun og veru er hér um sáralitla breytingu frá ákvæðum gildandi löggjafar að ræða. Á það ekki sízt við um þetta frv., um breyt. á l. um iðju og iðnað. Eins og áður skulu lögreglustjórar gefa út iðjuleyfi á viðkomandi stöðum, en það er hins vegar sett ákvæði um það í 2. gr., að lögreglustjóri skuli vísa umsókn til ákvörðunar ráðh. í tilteknum tilfellum. Flest þessara skilyrða voru fyrir hendi með nokkuð öðrum hætti í 7. gr. l. um iðju og iðnað, en höfuðtilgangur þeirra er, eins og fram kemur í aths., að efla þó aðstöðu stjórnvalda til aðhalds um það, hverjir stunda iðju hér á landi.

Það er ástæða til að taka það einnig fram hér, að það eru felld brott úr ákvæðum gildandi l. þau ákvæði, sem heimila umsækjendum að bera synjun um leyfi undir úrskurð dómstólanna. Hins vegar er þarna í ákvæðum 3. gr. sagt svo, að verði ágreiningur um, hvort aðili hafi fyrirgert leyfi sínu eða hvort starfsemi hans brjóti í bága við þá heimild, sem leyfið veitir honum, þá sé honum heimilt að bera málið undir dómstólana. Í raun og veru er hér um svo litla breytingu að ræða frá gildandi lögum, að ég tel enda rétt, að hún nái fram að ganga, hvað sem kann að verða um aðildina að EFTA, og vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. iðnn. og 2. umr.

Ég vil láta þess getið, að ég teldi eðlilegast, að þessi mál hefðu samflot með þáltill. um EFTA–aðild, og vil biðja hv. þn., sem fær þetta mál til athugunar, að hafa það í huga og leitast við að hraða afgreiðslu málsins.