28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (3718)

101. mál, bygging bókhlöðu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í fjárlögum 1968 er gert ráð fyrir 11/2 millj. kr. til byggingarsjóðs safnahúss, í fjárl. 1969 eru veittar 500 þús. kr. til sjóðsins og í fjárl. fyrir árið 1970 eru veittar 500 þús. kr. til sjóðsins; þannig að samtals hafa verið veittar 2.5 millj. kr. til byggingarsjóðs safnahúss.

Fengnir hafa verið tveir erlendir sérfræðingar á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, til ráðuneytis varðandi bygginguna, og dvöldust þeir hér á landi 23.—30. okt. 1969 og áttu þá ítarlegar viðræður við landsbókavörð og háskólabókavörð og aðstoðarmenn þeirra og enn fremur við háskólarektor og húsameistara ríkisins. Þessir sérfræðingar eru dr. Harald L. Tveterås, ríkisbókavörður í Noregi, og Englendingurinn Edward J. Carter, en hann er arkitekt og bókavörður.

Ýmiss viðbúnaður hefur verið hafður að undanförnu vegna hugmyndarinnar um byggingu bókasafnshúss við Birkimel, er leysi til verulegrar frambúðar húsnæðisvandamál Landsbókasafns og Háskólabókasafns og stuðli jafnframt að því, að þessum söfnum verði steypt saman í eina heild, að svo miklu leyti sem auðið er og hyggilegt telst. En um sameiningu safnanna hefur verið fjallað á undanförnum árum, og markaði Alþingi stefnu í því máli með samþykkt þáltill. 29. maí 1957, eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda.

Hinir áðurnefndu erlendu sérfræðingar hafa gert skýrslu um verkefni sitt, og telur húsameistari ríkisins, að í húsi þeirrar tegundar, sem þar ræðir um, kosti hver rúmmetri 5000 kr., miðað við byggingarverð síðustu missira. Hússtærðin er ráðgerð 25 þús. rúmmetrar, en gólfflöturinn áætlaður 7625 fermetrar. Húsbúnaður er ekki innifalinn í þessum áætlunum. Byggingarkostnaður er ráðgerður um 150 millj. kr., þar af 125 millj. kr. í byggingarkostnað og 25 millj. kr. vegna húsbúnaðar.

Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, var af hálfu n. þeirrar, sem skipuð var til að gera till. um ráðstafanir í sambandi við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, gerð till. um að reisa fyrirhugaða bókasafnsbyggingu við Birkimel og ljúka henni fyrir þjóðhátíðina 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli byggðar landsins. Engar endanlegar ákvarðanir hafa þó verið teknar um þetta. Ef Alþ. og ríkisstj. telja sér fært að ráðast í slíka byggingu og farið yrði eftir till. þjóðhátíðarnefndar að reisa hana í minningu 11 alda afmælis Íslandsbyggðar, yrði árlegur byggingarkostnaður 371/2 millj. kr. árin 1971–1974.

Í skýrslu hinna erlendu sérfræðinga, Tveterås og Carters, er tekið fram, að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna sé reiðubúin að senda þessa tvo sérfræðinga í annað sinn til Íslands vorið 1970 til frekari ráðagerða, eða eins og komizt er að orði í skýrslu þeirra;

„Verði fallizt á þessa kostnaðaráætlun og samþykki ríkisstj. og Alþ., að ráðizt verði í verkið, ætti arkitekt að geta verið kominn á nokkurn rekspöl vorið 1970, þegar við samkv. tillögu UNESCO kæmum öðru sinni til Íslands til þess að kynna okkur og grandskoða þau drög, sem fyrir lægju, svo að unnt yrði í framhaldi af því að ganga frá, fullnaðarteikningu og síðan reisa húsið, þannig að það yrði komið upp árið 1974, á 11 alda afmæli Íslandsbyggðar.“

Það fé, sem áður var nefnt að veitt hefði verið til byggingarsjóðs safnahúss; gerir mögulegt að hefjast handa um undirbúning byggingarinnar, þ.e.a.s. gerð teikninga og annan slíkan undirbúning. En hér er um mikið vandaverk að ræða og þarf að njóta aðstoðar færustu sérfræðinga, til þess að bókhlaðan svari til þeirra krafna, sem gerðar eru til slíkra bygginga nú á tímum. Landsbókavörður og háskólabókavörður hafa starfað mikið ásamt aðstoðarmönnum sínum að undirbúningi nýrrar bókasafnsbyggingar, og á s.l. hausti fóru þeir báðir utan til þess að kynna sér nýjar bókasafnsbyggingar, og sátu þeir þá í Finnlandi fund norrænna bókavarða, þar sem sérstaklega var rætt um rannsóknarbókasafnsbyggingar og skipulag þeirra.

Þetta hygg ég vera það helzta, sem um málið er að segja á þessu stigi, auk þess sem alkunnugt er, að hin mesta þörf er á að leysa húsnæðisvandamál bókasafnanna, starfsaðstöðu þeirra, sem þar vinna, bæði starfsmanna safnanna sjálfra og þá ekki síður viðskiptavinanna.