28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í D-deild Alþingistíðinda. (3720)

101. mál, bygging bókhlöðu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hafi ég nefnt ranga tölu um þá fjárhæð, sem er í byggingarsjóði safnahúss, bið ég hv. alþm. velvirðingar á því. Ég hafði ekki sjálfur skoðað fjárl. fyrir þessi 3 ár, heldur höfðu það gert aðstoðarmenn mínir í menntmrn. Sé hér ágalli á, byggist hann áreiðanlega á því, að skoðað hefur verið fjárlagafrv., en ekki endanlegu fjárlögin.

Það er rétt hjá hv. þm., að eigi þessi bygging að geta risið í tengslum við 11 alda afmæli Íslandsbyggðar, þarf að taka ákvörðun um málið nú á þessu þingi. Það er einnig rétt hjá honum, að önnur stórbygging er á döfinni, þar sem er bygging stjórnarráðshúss, og vafasamt, að Íslendingar hafi bolmagn til þess að reisa tvær svo geysimiklar byggingar samtímis, og þess vegna er nauðsynlegt, að meðan þetta þing situr verði um það tekin ákvörðun, hvor byggingin skuli ganga fyrir og að hversu miklu leyti skuli að hvorri um sig vinna. Ég þykist vita, að ríkisstj. geri sér öll grein fyrir því, að ákvörðun verður að taka, hver svo sem niðurstaðan verður, og hún verði tekin, áður en þetta Alþingi kveður: