28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

101. mál, bygging bókhlöðu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil einungis lýsa þeirri skoðun minni, að fyrir fram er engan veginn heimilt að telja það víst; að þessar byggingar þurfi að rekast á. Jafnvel þó að mikið fé þurfi til þess að reisa hvora um sig, hvað þá báðar saman, þá er það ekki nema lítill hluti af öllum byggingarkostnaði ríkisins, hvað þá af öllum ríkisútgjöldum. Það er því algerlega út í hött að slá því föstu sem einhverju óhagganlegu, að vegna þess að nú er farið að gera ráðstafanir til þess að framkvæma ákvörðun, sem tekin var þegar fyrir 14–15 árum, þá sé þar með verið að bregða fæti fyrir hugsanlegt landsbókasafn.