28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (3737)

141. mál, ávísanir með nafni Seðlabanka Íslands á

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 224, stafl. 1, hef ég leyft mér að beina svo hljóðandi fsp. til hæstv. viðskrh.:

„Hvaða reglur gilda um notkun ávísanahefta með nafni Seðlabanka Íslands á? Hve margir hafa slík hefti í notkun?“

Tilefni þessarar fsp. var einfaldlega það, að ég sá ávísun að upphæð 20 kr. með nafni Seðlabanka Íslands útgefna á handhafa, og mér þótti nokkuð merkilegt, ef slíkar ávísanir væru almennt í notkun með nafni Seðlabankans og undirritaðar af einni persónu. Ég fletti upp í lögum bankans, og í 17. gr. laganna segir, að bankinn skuli yfirleitt hvorki skipta við almenning né keppa um viðskipti við aðrar lánastofnanir. Sama er endurtekið í reglugerð nr. 52 frá 24. maí 1950, en þar segir þó, að heimilt sé Seðlabanka að reka önnur bankaviðskipti, sem samrýmanleg geta talizt hlutverki hans sem seðlabanka, og einnig er tekið upp í sömu grein lagaákvæðið orðrétt: Engu að síður væri fróðlegt að fá að vita, hvers vegna eitthvað er í umferð af ávísunum með nafni Seðlabanka Íslands á, undirritað af einstaklingum.

Eftir að þessi fsp. var sett fram, frétti ég, að einnig mundi vera venjan hjá hv. bankastjórum þessa seðlabanka, Seðlabanka Íslands, að þeir fengju ekki sínar ferðaávísanir með sama hætti og aðrir þegnar þjóðfélagsins, og ef hæstv. ráðherra vissi, hvaða háttur þar væri á hafður, væri fróðlegt að fá að heyra um það líka.