28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í D-deild Alþingistíðinda. (3743)

912. mál, starf forstjóra Sementsverksmiðju ríkisins

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið haustið 1968 að forstjóri Sementsverksmiðju ríkisins, dr. Jón Vestdal, hætti að starfa við verksmiðjuna. Rétt fyrir áramótin 1968–1969 var settur forstjóri við verksmiðjuna, og hefur hann starfað síðan. Samkv. 5. gr. laga um Sementsverksmiðju ríkisins segir svo, — ég bið afsökunar á því, að það hefur orðið prentvilla í þskj. 159, þar sem segir 6. gr., en á að vera 5. gr.: „Verksmiðjustjórn ræður framkvæmdastjóra með verkfræðilega menntun.“ En settur forstjóri Sementsverksmiðjunnar er ekki með slíka menntun. Síðan hefur ekkert í þessu máli gerzt, svo að ég hef leyft mér að flytja á þskj. 159 svo hljóðandi fsp.:

„Hvenær verður auglýst laust til umsóknar forstjórastarf við Sementsverksmiðju ríkisins og það veitt samkv. 5. gr. laga nr. 35 1948, um sementsverksmiðju?“

Ég tel mig hafa rökstuddan grun um það, að dr. Jón Vestdal hafi sagt upp þessu starfi, og þar sem ekki situr í starfinu maður með þá þekkingu; sem lögin krefjast, þá hef ég leyft mér að flytja þessa fsp.