28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í D-deild Alþingistíðinda. (3747)

912. mál, starf forstjóra Sementsverksmiðju ríkisins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins af þessu gefna tilefni benda á, að fyrr á þessu þingi voru tekin til endurskoðunar lög um Áburðarverksmiðju ríkisins. Þetta ákvæði laga um Áburðarverksmiðju ríkisins, sem varðar ráðningu framkvæmdastjórans, var nákvæmlega eins og í lögum um Sementsverksmiðjuna. Aðalframkvæmdastjóri skyldi vera verkfræðingur. Samt sem áður hafði það viðgengizt í Áburðarverksmiðjunni, að aðalframkvæmdastjórinn, allt frá því að Áburðarverksmiðjan hóf starfsemi sína, hafði ekki verið verkfræðingur. Nú var þessu hins vegar breytt, eins og hv. þm. er kunnugt um, og allir hv. alþm. virtust vera á einu máli um það, að það væri eðlilegt að breyta þessu ákvæði um ráðningu framkvæmdastjóra þannig varðandi Áburðarverksmiðju ríkisins. Það má segja að sama ætti að gilda um Sementsverksmiðju ríkisins og Áburðarverksmiðjuna. Þetta eru hvort tveggja framleiðslufyrirtæki, sem selja sína framleiðslu að langmestu leyti á innlendan markað, og því er þannig fyrir komið hjá Áburðarverksmiðjunni, að annars vegar er verksmiðjustjóri, sem sér um tæknilegu hliðina og framleiðsluna, en hins vegar er það framkvæmdastjórinn, sem hefur efnahagsmál fyrirtækisins í sínum höndum.

Ég vil að lokum segja, að það væri ekkert óeðlilegt, þó að lögum Sementsverksmiðjunnar yrði breytt á sama hátt og gert hefur verið við lög um Áburðarverksmiðjuna. Það útilokar hins vegar ekki, að ráðinn verði verkfræðingur, ef hæfur maður sækir um starfið.

Að öðru jöfnu tel ég það betra, að framkvæmdastjórinn sé verkfræðingur að mennt, og tel, að enda þótt lögum um Sementsverksmiðju verði breytt á sama hátt og gert var við lög um Áburðarverksmiðju ríkisins, þá útilokar það ekki að ráðinn verði verkfræðingur í framkvæmdastjórastarfið. Með því að hafa þannig sama fyrirkomulag um val framkvæmdastjóra, þá skapar það möguleika til þess að leita á breiðari grundvelli eftir manni til framkvæmdastjórastarfsins.