10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

115. mál, iðja og iðnaður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hæstv. iðnrh. sagði um 16. gr., er ég ekki með neinar útskýringar á henni og verð það ekki við þessa umr. um þetta mál, vegna þess að ég álít að 16. gr. sé þessu máli alveg óviðkomandi, því hvort heldur sem þetta frv. verður samþ. eða ekki samþ., þá mun það engu breyta í sambandi við það mál, ef í 16. gr. felast einhverjar skyldur fyrir okkur til að leyfa útlendingum hér atvinnurekstur, sem ég skal ekki leggja neinn dóm á. Í sambandi við þetta mál eiga útlendingar þann rétt eftir sem áður, hvort sem þessi frv. verða samþ. eða ekki. Þau breyta ekki neinu um það.

Varðandi það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði verið að tengja þetta mál við EFTA–aðild, þá vil ég taka það fram, að það var ekki ég, sem gerði það að fyrra bragði, heldur er það hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj., sem hefur verið að tengja þetta mál við EFTA–aðild og telur, að ef þessi frv. verði samþ., þá mundi verða auðveldara fyrir okkur að útiloka útlendinga frá atvinnurekstri hér á landi. En eins og ég hef áður sagt, munu þessi frv., þó að 1. verði, ekki hafa nein áhrif í þá átt, því að útlendingar munu halda eftir sem áður jöfnum rétti við Íslendinga til þess að stunda hér verzlunaratvinnu.

En það, sem ég sagði var, að ef það væri tilgangurinn með þessum l. að reyna einhvern veginn að sniðganga EFTA–samninginn og láta þá aðila, sem öðlast rétt samkvæmt honum, ekki njóta hans eins og samningurinn gerir ráð fyrir, þá get ég ekki verið þeim hugsunarhætti fylgjandi, því ég álít, að ef við á annað borð gerumst aðilar að einhverjum samningum, þá eigum við að standa við þá og halda þá, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ég álít, að tilvera smáþjóðar eins og Íslendinga byggist á því, að samningar séu virtir og hún sýni það þá jafnframt í verki, að hún virði samninga, en reyni ekki eftir neinum krókaleiðum að komast undan þeim skyldum, sem þeir kunna að leggja henni á herðar.

Aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs hér aftur, var sú fullyrðing hæstv. ráðh., að í þessum frv. fælist ekki neitt, sem kallast mætti fjárfestingar– eða markaðseftirlit, né að það ætti að taka tillit til þess, er verzlunarleyfi eða iðjuleyfi væri veitt. Í núgildandi l. um verzlunaratvinnu og iðju og iðnað stendur ekki neitt um þetta. Þá eiga menn rétt á að fá leyfin, ef þeir uppfylla viss skilyrði, sem aðallega snerta menntun þeirra og eins það, að iðjan, sem þeir stunda, sé ekki mönnum hættuleg eða þjóðhagslega hættuleg. Og ef þeir fá ekki leyfin, þá eiga þeir rétt á að skjóta því máli undir úrskurð dómstólanna og fá þannig úr því skorið, hvort leyfissynjunin hafi verið réttmæt og lögleg eða ekki. Samkvæmt þeim frv., sem hér liggja fyrir, er bætt við alveg nýjum skilyrðum fyrir því, að menn megi fá leyfi. Í frv. um iðju og iðnað er þessu bætt við 3. tölul. 2. gr.: „iðjunni er annars svo háttað, að varhugavert þykir að leyfa hana“, og svo kemur nýmælið: „m.a. vegna þess að möguleikar til öflunar hráefnis teljist ónógir, framleiðslu– eða söluaðstæður ófullkomnar“. Þessu ákvæði er ekki hægt að framfylgja á annan veg en þann, að það yfirvald, sem á að veita þessi leyfi, fylgist með hráefnisaðstöðunni, fylgist með framleiðslumöguleikunum og sölumöguleikunum og ef þetta þrennt er ekki talið fyrir hendi, þá sé ekki réttmætt að veita leyfið. Þetta kostar nýtt og stórfellt fjárhagslegt eftirlit, frá því sem áður hefur verið. Og hér er bætt við alveg nýjum skilyrðum fyrir því, að menn fái leyfi til þess að stunda iðnað og iðju. Ef við lítum á frv. um verzlunaratvinnu, þá hafa eiginlega allir skv. gildandi lögum rétt til að fá verzlunarleyfi, ef þeir fullnægja vissum menntunarskilyrðum. Þetta ætti að vera þingmönnum í fersku minni, vegna þess að l. um verzlunaratvinnu voru samþ. á seinasta þingi. Nú er því bætt við samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, að leyfi í viðkomandi verzlunargrein sé ekki þjóðhagslega óhagkvæmt, hvort heldur er almennt eða miðað við fyrirhugaðan verzlunarstað. Þ.e.a.s. áður en verzlunarleyfi er nú veitt, þá verður það yfirvald, sem þetta leyfi veitir, að kynna sér, hvort sú starfsemi, sem sótt er leyfi til að reka, er almennt hagstæð eða óhagstæð fyrir þjóðina eða viðkomandi verzlunarstað. Þetta þýðir það, ef við tökum t.d. verzlunarstaðinn, að yfirvaldið verður þá að kynna sér hvaða markaðsmöguleikar eru fyrir hendi. Er þeim ekki fullkomlega fullnægt af þeim aðilum, sem fyrir hendi eru og er þess vegna eðlilegt að veita nýtt leyfi? Ég get ekki skilið þessa grein í frv. á annan veg heldur en þennan og þetta staðfestir fullkomlega það, sem ég sagði áðan, að til þess að framfylgja þessum l., svo að vel sé, verður að taka upp eins konar fjárhagslegt og markaðslegt eftirlit, til þess að yfirvaldið, sem leyfið á að veita, geti gert sér grein fyrir því, hvort það er lögum samkv. að veita það eða ekki. Og ég get ekki séð, að þetta sé sett til annars en að koma í veg fyrir offjölgun í greininni, ef fyrirtækin eru of mörg á einum vissum stað eða í landinu öllu, og að þess vegna skapist ekki samkeppni, sem gæti verið þeim fyrirtækjum, sem fyrir eru, til óhags og þjóðinni í heild. Mér sýnist, að hér sé stefnt að nokkuð svipuðu fyrirkomulagi og t.d. á sér stað hjá leigubílstjórum. Þar hefur því verið komið á, sem hefur að ýmsu leyti gefizt vel, t.d. hér í Reykjavík, að það er leyfður ákveðinn fjöldi leigubílstjóra eða leigubifreiða og menn verða að halda sig innan þeirra marka, sem þar hefur verið samið um. Samkvæmt þessu mætti vel hugsa sér, að framhaldið yrði það, að það yrði ekki leyfð nema viss tala fyrirtækja í hverri grein.

Þetta atriði í þeim frv., sem hér liggja fyrir, felur í sér stórbreytingu frá því, sem gilt hefur hingað til. Og ég held því síður en svo fram, að sú breyting sé röng. Ég held þvert á móti, að við þurfum að taka upp eins konar eftirlit eða höft eða hvað menn vilja kalla það, sem ganga í þessa átt, og frá því sjónarmiði get ég vel fylgt þessu máli. En hins vegar tel ég það alveg gagnslaust og þýðingarlaust í sambandi við EFTA–samninginn og að það sé þess vegna ekki í neinum tengslum við það mál.