04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í D-deild Alþingistíðinda. (3754)

909. mál, ráðstafanir vegna beitusíldar

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Fsp. þessi frá okkur hv. 4. þm. Austf. á þskj. 119 um ráðstafanir vegna beitusíldar er fyrir alllöngu fram komin. En af ýmsum ástæðum hefur æ ofan í æ orðið að fresta að taka hana fyrir, og er ekki við neinn sérstakan að sakast í því efni. Nú er hins vegar svo liðið á veturinn, að útgerð færist óðum yfir á netaveiði í stað línuveiða, svo að e.t.v. má segja, að beituvandamálið, að því er veturinn snertir a.m.k., leysist þannig af sjálfu sér. En vandamál hefur þetta óneitanlega verið og það mjög alvarlegt víða, ekki vegna þess, að beituskortur hafi orðið alger, heldur vegna þess, að margir bátar hafi orðið að notast við mjög lélega beitu, úrgangssíld, sem ekki hefur verið talin hæf til söltunar, og hafa sjómenn sagt mér, að undir eðlilegum kringumstæðum hefði slík síld alls ekki verið talin brúkunarhæf til beitu. Það hefur raunar veiðzt sæmilega á þessa beitu, en það má þá líka teljast fullvíst, að aflinn hefði orðið miklu meiri, ef um góða beitusíld hefði verið að ræða. Og jafnvel þessi lélega beita var alveg að ganga til þurrðar, þegar loðnan loksins kom eftir langa bið. Og þessa loðnu hafa útgerðarmenn, t.d. á Vesturlandi og Vestfjörðum, orðið að fá til sín flugleiðis langar leiðir með gífurlega miklum tilkostnaði núna síðustu dagana, eins og kunnugt er af fréttum. Svarið við þeirri fsp., sem hér er til umr., má því segja, að liggi þegar ljóst fyrir.

Af opinberri hálfu hefur ekki verið sýnd nein fyrirhyggja í þessu efni. Sjútvrn. hafðist ekkert að, þrátt fyrir margar aðvaranir um það, að í óefni stefndi, og brást þannig sjálfsagðri skyldu sinni. Annar aðili, svo nefnd beitunefnd, gegnir að vísu ábyrgðarmiklu hlutverki á þessu sviði, en mér er tjáð, að n. þessi hafi á sínum tíma lagt fyrir hæstv. sjútvrn. ákveðna till. um lausn vandans, en rn. hins vegar ekki farið að þessum till., ekki sinnt þeim. Væri vissulega fróðlegt að vita, hvað hæft væri í því.

En þó að þetta hafi nú slampazt nokkurn veginn af á vetrarvertíðinni, þá blasir við annar vandi á þessu sviði, vandi, sem kann að reynast mjög alvarlegur með vorinu. Grálúðuútgerð hefur færzt mjög í aukana, og hefur fylgt henni mikil atvinna og bætt afkoma almennings í heilum byggðarlögum. Mér var tjáð á skrifstofu L.Í.Ú. í morgun, að búast megi við því, að grálúðuveiðar færist enn í aukana stórlega nú á næstunni, svo fremi allt verði með felldu. En á grálúðuveiðum hefur engin beita reynzt nothæf nema síld, góð síld, og slíka beitusíld er ekki að finna í landinu og engar horfur á, að hún berist á land fyrir vorið. Þess vegna má spyrja: Hvernig ætlar hið opinbera að bregðast við þessum vanda? Verður gripið til einhverra raunhæfra aðgerða til þess að leysa hann eða verður e.t.v. sama fyrirhyggjuleysið látið ráða, svo að grálúðuveiðarnar stöðvist og útgerðarmenn og sjómenn og allur almenningur í viðkomandi byggðarlögum þannig sviptur þeim miklu hagsbótum, sem þessum veiðum geta fylgt. Þetta eru sem sé brennandi spurningar, sem mörgum hlýtur að vera mjög í mun að fá skýr svör við, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. veiti þau svör.