04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í D-deild Alþingistíðinda. (3755)

909. mál, ráðstafanir vegna beitusíldar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að það hefur dregizt alllengi að taka þessa fsp. fyrir, og hún mun hafa komið fram áður en þinghlé var gert fyrir jólin. En ýmsar ástæður liggja til þess, að fsp. hefur ekki verið tekin fyrir, og eins og hann sagði réttilega, er ekki við neinn sérstakan að sakast og óþarft að ræða það í sambandi við fsp. sjálfa. En varðandi svigurmæli hans í garð sjútvrn. um, að ekkert hafi í þessum málum verið gert eða ekkert að þeim hugað, þá tel ég, að svör við þeim komi fram í því, sem ég skal nú frá greina.

Þegar síðari hluta s.l. sumars var ljóst, að miklir erfiðleikar væru fyrir dyrum í beitumálum. Engin síld hafði aflazt á norður- og austurmiðum, en það er sú síld sem ákjósanlegust og eftirsóttust er til beitu. Undanfarin ár hefur einnig veiðzt töluvert af sunnansíld, þótt hún sé ekki talin jafnæskileg til beitu. Eins og kunnugt er, var veiðibann á sunnansíld frá 31. ágúst s.l., en var samkv. ósk útvegsmanna framlengt til 15. sept. vegna þess, hve síldin var mögur. Á undanförnum árum hefur jafnvel verið flutt inn síld og einnig nokkur smokkfiskur, en hvorugu var til að dreifa nú. Þegar ljóst var, að allalvarlega horfði í þessum málum, voru þau tekin til athugunar í rn. og rætt við ýmsa hlutaðeigandi aðila, m.a. fulltrúa bankanna. Beitunefnd lá ekki heldur á liði sínu, kannaði málið eftir föngum og lét rn. í té till. til úrbóta. Höfuðvandinn stafaði af fyrirsjáanlegum aflabresti á síldveiðum, en seinna kom svo aftur til hið háa verð á síld til söltunar. Í september var verð á síld til söltunar ákveðið 4.75 kr. á kg, en 3.75 kr. á kg til frystingar. Eftir að málið hafði verið kannað allrækilega, heimilaði rn. beitunefnd að ábyrgjast sölu á 3500 smál. af frystri beitusíld á auglýstu verði, 11.80 kr. á kg, með tilteknum skilyrðum. Enn fremur lýstu fulltrúar viðskiptabankanna því yfir að loknum viðræðum við þá, að þeir mundu lána venjuleg afurðalán út á frysta beitusíld miðað við þetta verð, þ.e.a.s. 6.00 kr. frá Seðlabankanum og 1.80 frá viðskiptabanka út á hvert kg frystrar síldar. Með þessum aðgerðum virtist málið þá leyst og voru þeir aðilar, er hlut áttu að máli, sammála um, að án annarra róttækra aðgerða væri ekki hægt að tryggja betur næga beitusíld á þessu hausti.

En ekki var sopið kálið, þótt í ausuna væri komið. Hinn 13. nóv. s.l. hækkaði Verðlagsráð sjávarútvegsins verð á síld til söltunar úr 4.75 kr. í 13 kr. á kg, og hélzt það verð til áramóta, þegar verðið lækkaði aftur í 8.50 kr. á kg. Með þessari ráðstöfun var útilokað, að síld fengist til frystingar. Hinn 19. nóv. s.l. breyttist staðan þó að því leyti, að þá ákvað síldarútvegsnefnd að stöðva alla söltun smásíldar, sem aftur leiddi til þess, að smásíldin fór til frystingar, þótt óæskilegri beita sé. Nú hafa verið fryst til beitu um 2500 tonn frá því í haust, þrátt fyrir aflaleysið. Auk þess hefur loðna til beitu nú allra síðustu daga, eins og fyrirspyrjandi gat um, verið flutt á milli verstöðva með flugvélum. Beituþörfin á árinu var í haust talin mundu verða rúmlega 5000 tonn. Línuútgerð hefur á þessum vetri og á s.l. hausti verið meiri en á sama tíma í fyrra og línuafli einnig mun meiri. Enn þá er því yfirvofandi beituskortur, og vona menn, að loðnuveiðar og það, að flotinn flyzt í mun stærra mæli af línuveiðunum yfir á net, bæti þar einnig nokkuð úr. Áður en loðna veiddist fyrir Austfjörðum, gerði beitunefnd athuganir á flutningi á loðnu þaðan með flugvélum. Enn fremur leitaði beitunefnd án árangurs til Noregs eftir frystri síld til beitu, en Norðmenn hafa ekki treyst sér til að frysta síld til beitu fyrir sjálfa sig, hvað þá aðra, vegna hins háa verðs, sem á síld er á heimsmarkaðinum. Þá er þess að geta, að þótt bannað væri að veiða sunnansíld frá 15. febr. s.l., er rn. þó heimilt, að fengnum till. Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskifélags Íslands, að leyfa veiði á sunnansíld til beitu. Beitunefnd gerði í haust athuganir og róttækar aðgerðir til að tryggja beitu, og ef ekki verða á þessum vetri, svo sem fyrirspyrjandi gat einnig um, notaðar þær heimildir, sem í lögum eru til veiða á síld til beitu, þá er nauðsynlegt að gera enn róttækari ráðstafanir en þegar hafa verið gerðar.

Ég hygg, að með þessum upplýsingum hafi ég svarað þeim getgátum fyrirspyrjanda, að rn. hafi ekkert í málinu gert, eins og hann sagði, og hrakið þær fullyrðingar.