04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í D-deild Alþingistíðinda. (3757)

909. mál, ráðstafanir vegna beitusíldar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda, að það er tilgangslaust að vera að karpa um þetta mál. Ég held, að milli okkar beri ekkert í þessum efnum. Við hefðum sjálfsagt kosið báðir, að ástand þessara mála væri betra en það er.

Núverandi ástand stafar einfaldlega af því, að afli hefur ekki fengizt, og þó að leitað hafi verið til erlendra aðila um hjálp í þessum efnum, eins og stundum hefur verið gert áður, þá var árangurinn sá, eins og ég sagði áðan, að þaðan komu neikvæð svör um beitu. Það eina, sem hér er við að sakast, er aflaskortur, og ég hygg, að þó að við séum báðir velviljaðir þessum málum, ég og hv. fyrirspyrjandi, þá muni standa í okkur að ráða bót á því.

Hvað gert verður sérstaklega fyrir grálúðuútgerðina í vor, er mér ekki unnt að svara á þessu stigi. Eins og ég áðan sagði, er ljóst, að úr síldarnotkuninni dregur á næstu mánuðum.

Um það, hvort hugsanlegt er að veiða hér á heimamiðum íslenzka síld, er það að segja, að rn. mun að sjálfsögðu í fyrsta lagi veita leyfi til slíkra veiða samkv. þeim heimildum, sem í lögum eru, eða leita þá annarra ráða, ef síld veiðist ekki. Vandamálið er síldarleysið og um það verður engu rn. eða einstökum alþm. kennt.