04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (3764)

914. mál, stofnun kaupþings

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í 15. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 10 1961, er bankanum heimilað að stofna og reka kaupþing, þar sem verzlað yrði með vaxtabréf samkv. reglum, sem bankastjórnin setur og ráðh. staðfestir. Vegna þessa ákvæðis hefur verið lögð í það veruleg vinna af hálfu Seðlabankans á undanförnum árum að kanna, hvort aðstæður væru fyrir hendi til stofnunar kaupþings hér á landi og þá hvernig. Hefur það hvatt til þessara athugana, að margoft hefur komið fram, að almennur áhugi er fyrir því, að tekin verði upp hér á landi skipuleg viðskipti með hlutabréf, er greitt geti fyrir öflun eigin fjár til fyrirtækja. Þrátt fyrir þennan áhuga, sem komið hefur fram, m.a. í samþykktum Verzlunarráðs Íslands og fleiri samtaka svo og í opinberum umr., hafa verið lítil merki þess, að verulegur áhugi á hlutabréfakaupum væri fyrir hendi hjá almenningi.

Þær spurningar, sem athuganir bankans hafa beinzt að, hafa hnigið að því, hvort áhugaleysi á hlutabréfakaugum stafaði af vöntun á kaupþingi eða öðrum orsökum. Spurningin hefur m.ö.o. verið, hvort stofnun kaupþings væri í sjálfu sér nægileg ráðstöfun til þess, að áhugi á hlutabréfaviðskiptum ykist að mun hér á landi. Athuganir Seðlabankans hafa hent til þess, að það væru aðrar ástæður en vöntun kaupþings, sem úrslitum hefðu ráðið um þróun hlutabréfaviðskipta til þessa. Er þetta tvímælalaust stutt reynslu annarra þjóða, þar sem hlutabréfaviðskipti hafa byrjað og vaxið af sjálfu sér, ef aðstæður hafa verið hagstæðar, jafnvel þótt enginn opinber markaður hafi verið fyrir hendi. Um hlutabréfaviðskipti á í rauninni hið sama við og um öll önnur viðskipti, að þau verða til af sjálfu sér, ef þau eru efnahagslega réttlætanleg, enda þótt opinber afskipti geti síðar orðið til þess bæði að efla þau og koma þeim í betra horf.

Ástæður fyrir áhugaleysi á hlutabréfaviðskiptum hér á landi virðast einkum vera tvær. Í fyrsta lagi er skattlagningu hlutafélaga og ágóða af hlutabréfum þannig háttað, að hlutabréf geta mjög illa keppt við önnur sparnaðarform, sem almenningur á kost á. Í öðru lagi eru íslenzk hlutafélög yfirleitt ekki skipulögð sem raunveruleg almenningshlutafélög, heldur eru þau flest fjölskylduhlutafélög eða í eign fámenns hóps manna.

Til þess að kanna þessi atriði betur fékk Seðlabankinn þá dr. Þórð Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómara og prófessor Árna Vilhjálmsson til þess að athuga, hvaða breytinga væri þörf á skipulagi hlutafélaga annars vegar og á skattlagningu hins vegar til þess að gera eðlileg hlutabréfaviðskipti möguleg. Í álitsgerð dr. Þórðar Eyjólfssonar koma fram margar gagnlegar ábendingar um skipulagsbreytingar á hlutafélögum, sem æskilegar væru í sambandi við kaupþingsskráningu á bréfum þeirra. Væri tvímælalaust nauðsynlegt, að væntanlegt kaupþing setti ákveðnar reglur um marga þætti í uppbyggingu hlutafélaga, er vildu fá bréf sín skráð á kaupþingi, t.d. að því er varðar réttindi minni hl., upplýsingaskyldu o.fl. Er líklegt, að þessu væri hægt að ná innan ramma þeirra hlutafélagalaga, sem í gildi eru. Álitsgerð prófessors Árna Vilhjálmssonar leggur áherzlu á hina óviðunandi skattaaðstöðu, sem hlutafélög nú búa við. Telur hann tvímælalaust þörf breytinga á skattlagningu ágóða hlutafélaga og arðs af hlutabréfum, ef nokkur von á að verða til umtalsverðrar aukningar á hlutabréfaviðskiptum. Einnig telur hann þörf ákvæða, er greiða fyrir sameiningu hlutafélaga í stærri heildir, en hlutafélög þurfa að ná ákveðinni lágmarksstærð, til þess að eðlilegur markaður myndist fyrir bréf þeirra.

Með tilliti til þessarar niðurstöðu hefur bankastjórn Seðlabankans látið í ljós þá skoðun sína, að nauðsynlegt væri að breyta skattalöggjöf í því skyni að örva hlutabréfaviðskipti. Hefur fjmrh. lýst áhuga sínum á málinu, og hefur n. þeirri, sem fjallar um endurskoðun skattalaga vegna aðildar að EFTA, verið falið að gera till. um æskilegar breytingar á skattalögum í þessu skyni. Á Seðlabankinn aðild að n., m.a. vegna afskipta hans af þessu máli, sem hér er til umr. Leiði störf n. til viðunandi breytinga á skattalögum í þessu efni, hefur Seðlabankinn tjáð mér, að hann muni leggja áherzlu á að hraða undirbúningi að stofnun kaupþings svo sem unnt er.