04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í D-deild Alþingistíðinda. (3765)

914. mál, stofnun kaupþings

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Eins og kom fram í þeim orðum, sem ég sagði áðan og hæstv. ráðh. ítrekaði, þá stendur nú yfir athugun skattalaganna sérstaklega með skattlagningu hlutafélaga fyrir augum. Það má vel vera rétt hjá honum, að það kunni að reynast nauðsynlegt til þess að örva almenna sölu hlutabréfa, að breyting verði á skattalögum um þann félagsskap, en mér skilst, að nú á þessu þingi sé væntanlegt, að slíkt mál verði lagt fram og fær þá væntanlega afgreiðslu. Og eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., er eðlilegt, ef slík breyting yrði á skattalögunum, að þá yrði ekki dregið, að kaupþing yrði sett á laggirnar. En það er áreiðanlega mjög mikilsvert, ef þetta form, sem hér er um að ræða, almenningshlutafélagaformið, á að ná þeim tilgangi, sem ætlazt er til, að þá sé fyrir hendi einhver vettvangur, þar sem slík bréf geta gengið kaupum og sölum, eins og kaupþingi er ætlað að verða. Þess vegna vil ég leggja á það áherzlu, að ef sú breyting verður gerð á skattalögunum, sem hæstv. ráðh. var hér að boða, þá yrði það ekki látið dragast, að kaupþingi yrði komið á fót sem fyrst.