04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í D-deild Alþingistíðinda. (3770)

915. mál, fiskiðnskóli

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Hinn 30. apríl 1964 samþykkti Alþ. till. til þál. um fiskiðnskóla, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa n. í samráði við Fiskmat ríkisins, fiskmatsráð og helztu samtök fiskiðnaðarins til þess að gera fyrir næsta reglulegt Alþ. till. um stofnun og starfstilhögun almenns fiskiðnskóla í landinu. Skal nefndin m.a. kynna sér eftir föngum skipan fræðslumála fiskiðnaðarins í öðrum löndum.“

27. nóv. 1964 skipaði sjútvrh. 8 menn í n. til að vinna að þessu verkefni, og síðar voru skipaðir tveir menn að auki, þannig að um síðir voru, að mér telst til, 10 menn í þessari n. Og þeir máttu allir kallast með einhverjum hætti fulltrúar fyrir hinar ýmsu greinar fiskiðnaðar hér á landi og því sérfróðir um það málefni, sem þeir fjölluðu um. Formaður n. var Hjalti Einarsson efnaverkfræðingur, sem þá mun hafa verið starfsmaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og er e.t.v. enn. N. þessi skilaði allítarlegu áliti til ráðh. 8. des. 1966. Meginniðurstaða n. var till. um, að stofnaður skyldi sérstakur tveggja ára skóli, sem væri sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðh. Skyldi hlutverk skólans vera að veita fræðslu í fiskiðngreinum og útskrifa fiskvinnslufræðinga, sem hefðu þá öðlazt undirstöðukunnáttu, bóklega og verklega, eins og segir í till., til þess að geta tekið að sér verkstjórn, eftirlitsstörf, matsstörf, verkþjálfun, vinnuhagræðingu, stjórn fiskvinnsluvéla og önnur hliðstæð störf í fiskiðnaði.

Nú eru senn liðin 6 ár síðan þáltill. um þetta efni var samþ. og full 3 ár síðan sérfræðinganefndin skilaði jákvæðu áliti um málið til ríkisstj. Þar sem ekki hefur enn verið neitt gert af ríkisstj. hálfu, svo að vitað sé, til þess að framkvæma till. fiskiðnskólanefndar og fara að vilja Alþingis í þessu máli þá höfum við, hv. 2. þm. Reykn. og ég, leyft okkur að bera fram fsp. til ríkisstj. varðandi þetta mál, en fsp. hljóðar þannig:

„1) Er þess að vænta, að ríkisstj. setji á stofn fiskiðnskóla?

2) Ef svo er, hvert yrði fyrirkomulag hans og hvar yrði honum valinn staður?“