04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

915. mál, fiskiðnskóli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram hér, að ég tel, að of mikill seinagangur hafi verið á því máli, sem hér er um að ræða, sérstaklega með tilliti til þess, að Íslendingar vita það nú orðið, að þeir geta átt von á því hvenær sem er, að auknar kröfur verði gerðar í sambandi við allt hreinlæti og framleiðslufyrirkomulag á þeim freðfiski, sem fara á á stærsta markað okkar, en það er til Bandaríkjanna. Þeir, sem standa að fiskiðnaðinum í Vestmannaeyjum, sem er verulegur hluti af útflutningi landsins, bæði í freðfiski og saltfiski og á fleiri sviðum, telja, að þetta mál sé orðið svo aðkallandi, að þeir hafa beitt sér fyrir því, að mjög ítarleg athugun hefur farið fram á því, hvort tök væru á því að stofna þar sérstakan fiskiðnskóla. Við höfum reynt að afla okkur sem beztra upplýsinga í sambandi við málið. gera okkur í hugarlund, hvernig þessu yrði komið á, og bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur einróma samþykkt að beita sér fyrir stofnun fiskiðnskóla í Eyjum. Við gerum okkur það að sjálfsögðu fullljóst, að þarna er um nokkurn vanda að ræða, og kannske mikla menn fyrir sér þann vanda, sem því er samfara að koma slíkum skóla á fót úti á landsbyggðinni. En ég hygg, að þetta sé þó vel fært á stað eins og Vestmannaeyjum, og ég hygg, að af þessu muni verða.

Við gerum okkur alveg ljóst, að til þess að stofna slíkan skóla þarf í fyrsta lagi að fá aðila með sérþekkingu, þ.e. fiskiðnverkfræðing með sérmenntun í matvælaframleiðslu. Það þarf einnig að koma á fót rannsóknastofnun í tengslum við slíkan skóla, en það hagar svo til á þessum stað, að talið er alveg óhjákvæmilegt, að rannsóknastofnun verði komið þar á fót, hvort sem af stofnun fiskiðnskóla yrði eða ekki. Fiskiðnaðurinn telur, að annað sé ekki orðið frambærilegt lengur en að slík aðstaða verði sköpuð þar.

Það, sem auðvitað er stærsti vandinn í sambandi við verklega námið, er yrði í fiskiðnskóla, er að skapa þá aðstöðu, sem til þarf. Sú n., sem hafði þetta mál til meðferðar og hér hefur verið greint frá, og niðurstöður hennar ræddar, gerir ráð fyrir, að fiskiðnskólinn verði að eiga sér fiskvinnslustöð. Nú er það alveg ljóst, að slík stöð mundi kosta tugi milljóna, og því er mikil hætta á, að einmitt þetta álit verði til þess að draga úr stofnun fiskiðnskóla. Hins vegar liggur það fyrir í Eyjum og hefur verið rætt mjög ítarlega í sambandi við hugmyndina um stofnun skóla þar, að hægt er að ná samningum við fiskiðjuverin og þá aðrar greinar fiskframleiðslunnar, bæði í sambandi við framleiðslu mjöls, niðursuðuvara o.fl., sem þar er stundað, — það er hægt að ná samkomulagi við þessa aðila um aðstöðu til þess að veita verklega kennslu í sambandi við fiskiðnað.

Við teljum því að öllu þessu athuguðu, að það væri eðlilegast, ef til stofnunar fiskiðnskóla kæmi af hálfu ríkisins, að hann yrði staðsettur í Vestmannaeyjum, og mér er kunnugt um það, að Vestmanneyingar eru reiðubúnir að leggja nokkuð á sig fjárhagslega til þess að svo megi verða. Fjársterkir aðilar þar hafa þegar lofað að ég vil segja verulegu fjárframlagi til stofnunar slíks skóla. Við sjáum því fram á það, að þó að svo færi, að ákvörðun yrði tekin um að stofna fiskiðnskóla hér í þéttbýlinu, þá væri einnig nauðsynlegt, að slíkri stofnun yrði komið á fót í þessari stærstu verstöð landsins. Við teljum það vel framkvæmanlegt, teljum aðstæður vera til þess bæði að koma upp bóklegu námi í sambandi við þetta og eins verklegu námi, og af þeim ástæðum væri kannske eðlilegast, að skólinn yrði þar staðsettur, því að þarna á sér stað fiskvinnsla og fiskiðnaður á öllum þeim stigum, sem við þekkjum nú hér á landi.