04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í D-deild Alþingistíðinda. (3774)

915. mál, fiskiðnskóli

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þeim umr., sem hér hafa orðið um þessi mál. Það er gamalkunn regla, að stjórnvöld viðhafa oft þau vinnubrögð í málum, sem þau ekki vilja ganga beint á móti, að setja nefnd á nefnd ofan, sem svo síðan eru sífellt að athuga málið og vinna að undirbúningi þess. Mér kom þetta í hug, þegar ég hlýddi á svar hæstv. ráðh. við þeirri fsp., sem var borin fram áðan, því að hann boðaði þá enn eina nýja athugun á fiskiðnskólamálinu svokallaða, þó að oft áður sé búið að athuga það og gera ákveðnar till. í sambandi við það.

Á það hefur verið bent, að hv. Alþ. samþ. þegar á árinu 1964, að því er ég bezt veit einróma, till. um það, að unnið skyldi að því að koma á fót fiskiðnskóla, og í framhaldi af þeirri einróma samþykkt, sem Alþ. gerði þá, var sett n., fjölmenn n., 9 manna n., sem m.a. ég átti sæti í, sem gerði ákveðnar till. um, hvernig skyldi unnið að þessu verkefni. Um það var algert samkomulag í n., að nauðsynlegt væri að vinna að því að koma upp sérstökum fiskiðnskóla með heimavist og aðstöðu til þess að vinna að alhliða fiskverkun, og menn í n. bundu vonir við það, að fljótlega eftir að nefndartill. var skilað til hæstv. sjútvrh. yrði undinn að því bráður bugur að vinna að framkvæmd þessara tillagna.

Mér hefur verið það kunnugt í nokkur ár, að alls ekkert hefur verið gert í því að framkvæma þær till., sem n. gerði í þessu máli, og það eru ákaflega litlar efndir, ef þá má telja nokkrar, þó að vitað sé til þess, að nokkur námskeið hafi verið haldin á vegum rannsóknastofnana sjávarútvegsins og Fiskifélagsins, eða hvaða aðilar, sem að því standa, — því að þessi námskeið voru til áður en þessar till. voru gerðar, og námskeiðin eru raunar ekkert annað en framhald á starfsemi, sem hefur gengið á vegum þessara stofnana um nokkurra ára skeið. Ég vil því taka undir það, sem hv. þm., hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan, þegar hann vítti þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið um framkvæmd á till. fiskiðnskólanefndar.

Að síðustu vil ég benda á það, hvað við höfumst ólíkt að í þessum efnum og frændur okkur í Noregi gera, sem þó eiga engan veginn eins mikið undir því í sínum þjóðarbúskap og við, að þessi mál séu í góðu lagi. Nú er kappsamlega unnið að því í Noregi og hefur verið um nokkurra mánaða skeið að koma á fót sérstökum háskóla í fiskiðnfræðum, sem meiningin er að rísi sem fyrst í Norður-Noregi, til þess að kenna því fólki, sem vinnur í fiskiðnaðinum, sem Norðmenn víta, að er mikilvægur í þeirra þjóðarbúskap, þó að hann teljist engan veginn jafnmikilvægur þar eins og hann er hér hjá okkur, en sem sagt, eftir því sem ég bezt veit, og af nýjustu upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta mál, þá mun allur undirbúningur að stofnun þessa háskóa vera það langt kominn, að búizt er við, að ráðizt verði í byggingu hans innan nokkurra mánaða.