04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í D-deild Alþingistíðinda. (3776)

915. mál, fiskiðnskóli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hér hefur verið deilt á sjútvrn. fyrir það að hafa sofið á mikilvægu máli og vanrækt að framkvæma vilja Alþ. á þessu sviði, mikilvægu sviði. Þessu vil ég andmæla. Sjútvrn. skipaði n. þá, sem Alþ. hafði falið því að skipa. Sú n. starfaði í rúmlega tvö ár, og nál. hennar var vandlega athugað. Ég hygg, að rétt sé að segja það umbúðalaust, að það var skoðun sjútvrn. og ráðunauta þess, að þetta nál. markar ekki skynsamlega stefnu í fiskiðnskólamálinu og væri í ýmsum tillitum illframkvæmanlegt, að ekki sé meira sagt. Sú er ástæðan fyrir því, að sjútvrn. hefur ekki hafzt að í málinu, en ekki hitt, að það hafi ekki haft áhuga á því eða vanrækt það, sem því bar að gera. Það er auðvitað engin sönnun fyrir því, að rétt lausn hafi fundizt á máli, þó að n., sem skipuð er, verði á einu máli um ákveðna till. Svo koma aðrir aðilar, sem athuga betur þá stefnu, sem þar er mörkuð, og komast að annarri niðurstöðu. Hitt get ég alveg fúslega tekið undir, að þetta mál hefur dregizt úr hömlu. Það hefði verið æskilegt, að miklu fyrr hefðu verið hafnar í því framkvæmdir. En ástæðan fyrir töfinni er í rauninni ágreiningur milli manna um það, hvernig skipan þessara mála sé haganlegast fyrir komið, með hverjum hætti bezt verði séð fyrir nauðsynlegri menntun í þágu fiskiðnaðarins í landinu, en um það er enginn ágreiningur, að fyrir henni þarf að sjá miklu betur en nú á sér stað.

Ég ætla mér ekki þá dul að hafa fundið lausn á þessu máli á þeim örfáu vikum, sem það hefur hvílt á mínum herðum, en ég get þó látið í ljós mína persónulegu skoðun á málinu, hana hef ég, en ætlast ekki til þess að hún sé sú, sem endanlega verður framkvæmd, ef nánari athugun sýnir, að önnur leið er skynsamlegri.

Mér finnst orðræður manna um fiskiðnskóla bera stundum nokkurn keim af því, að menn átti sig ekki til fullnustu á því, hvað raunverulega er kennt í fiskiðnskóla og hvað þarf að kenna þar. Í Noregi munu vera starfandi 3 fiskiðnskólar, þó með nokkuð ólíkum hætti sé. Við hljótum að minnast þess, að Norðmenn eru 20 sinnum fleiri en Íslendingar, og þarf því engan að undra, þó það hafi vafizt nokkuð fyrir mönnum hér, hvort rétta leiðin væri sú að stofna sérstakan skóla fyrir þau fræði, sem hér er um að ræða, eða hvort ætti að haga þessari kennslu með öðrum hætti, þ.e.a.s. að hafa hana innan þess skólakerfis, sem þegar er starfandi í landinu. En sannleikurinn er sá, að áreiðanlega meira en helmingur námsefnis í fiskiðnskólum, t.d. í Noregi, er almenns eðlis, eru almennar fræðigreinar: efnafræði, stærðfræði, eðlisfræði, lífeðlisfræði og þar fram eftir götunum, greinar, sem kenndar eru þegar á ýmsum öðrum skólastigum í íslenzka skólakerfinu. Á hinn bóginn er um að ræða vissar sérgreinar, sem nauðsynlegar eru í fiskiðnskólum og ekki eru kenndar neins staðar í skólakerfinu íslenzka nú, þar sem sérstaklega er þörf á sérstöku verklegu námi, sem auðvitað er ekki stundað, nema efnt sé til sérstakrar fræðslu á þessu sviði. Þess vegna tel ég það vera fullkomlega tímabært að athuga, — og er ég á þessu stigi persónulega sannfærður um það, — að hagkvæmasta lausnin og farsælasta lausnin á menntunarmálum fiskiðnaðarins væri sú að taka upp námsbraut í Tækniskólanum, sem sérstakt tillit tæki til menntunarkrafna þeirra, sem fiskiðnaðurinn gerir til sinna starfskrafta. Það er þegar fyrir hendi kennsla í verulegum hluta þeirra greina, sem þarf að kenna í fiskiðnskóla, og sú kennsla gæti verið sameiginleg fyrir þá nemendur, sem stunda almennt tæknifræðinám, og hina, sem vilja leggja stund á nám í fiskiðnfræði. Svo þyrfti auðvitað að efna til sérkennslu nýrra greina, sem sérstaklega væru ætlaðar þeim, sem vildu vera sérfræðingar í fiskiðnfræði, og auk þess að sjálfsögðu þeirra verklegu námskeiða, sem bráðnauðsynleg eru. Ég tek undir það, sem hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, sagði hér áðan, að ég tel mjög vel til fallið að halda þau námskeið í Vestmannaeyjum, þar sem hin almenna verklega kennsla fer fram. Þau þurfa ekki endilega að vera þar, en í Vestmannaeyjum er einmitt sérstaklega góð og hentug aðstaða til þess, að verklegi hluti námsins geti farið fram.

Ég vil í þessu sambandi víkja sérstaklega að því, sem hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, sagði áðan, að Norðmenn hyggja nú á háskólanám í þessum greinum og það gæti vel komið til mála, að hér ætti að efna til sérnáms í verkfræði- og raunvísindadeild fyrir þá, sem vildu æðri menntun á þessu sviði. Engum dettur þó væntanlega í hug, að hér kæmi til mála að stofna sérstakan fiskiðnaðarháskóla, eins og Norðmenn hafa hugmyndir um, þó þeir hafi ekki framkvæmt það. Hér kæmi ekkert annað til greina og væri ekki vit í neinu öðru en því að hafa háskólanám í fiskiðnfræði á vegum verkfræði- og raunvísindadeildar Háskólans. Með alveg sama hætti tel ég, að skynsamlegasta leiðin sé sú að hafa fiskiðnfræðinámið sem þátt í almennu tæknifræðinámi Íslendinga. Með því móti mundu einmitt skapast bráðnauðsynleg tengsl milli almenna fiskiðnfræðinámsins, sem þá færi fram innan tækniskólakerfisins, og hugsanlegs framhaldsnáms, sem fram færi innan Háskólans. Ef stofnaður væri sérstakur fiskiðnfræðiskóli, yrði miklu erfiðara að koma á tengslum milli hans og verkfræði- og raunvísindadeildarinnar og háskólanámsins þar en ef fiskiðnfræðinám væri byggt með eðlilegum hætti inn í hið almenna tækninám Íslendinga.

Ég segi þetta sem mína persónulegu skoðun, sem ég hef myndað mér á þeim fáu vikum, sem ég hef haft með málið að gera, og ég endurtek, að þessa skoðun vil ég láta sérfróða menn grandskoða nú í vor og ljúka athugunum fyrir mitt sumar. Ef þeir dæma þær vera óskynsamlegar, þá skal ég manna fúsastur viðurkenna það og þá beita mér fyrir annarri lausn á málinu. En með hliðsjón af því, að þær till., sem gerðar voru á sínum tíma, hafa því miður ekki fengið hljómgrunn hjá þeim aðilum, sem um þær fjölluðu, þ.e.a.s. sjútvrn. og sérfræðingum þess, þá taldi ég það skyldu mína að gera tilraun til þess að troða nýjar leiðir á þessu sviði, og þess vegna set ég fram þessa hugmynd. Ég mun láta skoða hana í vor og fá um hana dóm fyrir mitt sumar. En ég skal ljúka þessum orðum með því að viðurkenna það, sem allir þeir þm., sem talað hafa, hafa sagt, að hér er um málefni að ræða, sem enga frekari bið þolir, og ég mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að til framkvæmda á þessu geti komið á haustinu 1970.