04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í D-deild Alþingistíðinda. (3777)

915. mál, fiskiðnskóli

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af orðum hæstv. ráðh. Hann skýrði frá því, að sjútvrn. eða sérfræðingar þess hefðu komizt að þeirri niðurstöðu, að þær till., sem gerðar hefðu verið af fiskiðnskólanefnd, væru ekki góðar og mundi því ekki verða farið eftir þeim. Þetta er í fyrsta skipti, sem ég minnist þess að hafa heyrt, að þetta hafi verið niðurstaða þeirra í sjútvrn., og furðar mig nokkuð á því, því ég þykist muna það rétt, að á undanförnum þingum hafi fsp. svipaðs efnis og þessi verið rædd ár eftir ár, án þess að viðkomandi ráðh. hafi nokkurn tíma gefið þessar upplýsingar, sem hæstv. menntmrh. var nú að gefa, sem sagt, að till. n. hafi verið dæmdar léttvægar og mundu ekki verða framkvæmdar af sjútvrn. Mér finnst, ef þetta er svo, að þá gefi það tilefni til athugana á ýmsum málum í sambandi við yfirstjórn fiskiðnaðar okkar almennt talað, því að í n. þeirri, sem gerði þessar till., voru m.a. menn, sem skipa toppstöður í því kerfi, og maður skyldi ætla, að þeir hefðu nokkurn kunnugleika á því, hvað þeir eru að segja um þau málefni. Ég vil aðeins til fróðleiks nefna mann eins og dr. Þórð Þorbjarnarson, sem er yfir Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ég vil nefna mann eins og Hjalta Einarsson, sem er menntaður maður í matvælaiðnaði og vinnur á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Ég vil minna á mann eins og Sigurð Pétursson gerlafræðing, sem var í n. Og ég vil minna á sjálfan fiskmatsstjóra, Bergstein Á. Bergsteinsson, sem sat í n. Ef allir þessir menn gera till., sem eru svo óskynsamlegar, að þeim er nú hafnað 5 eða 6 árum eftir að till. voru gerðar, þá held ég, að þetta gefi tilefni til þess að taka þessi mál til nokkurrar endurskoðunar og vita, hvort hugmyndir þeirra um, hvernig eigi að stjórna og reka þessi mál, séu þá í samræmi við kröfur tímans, hvort einhverju þurfi þá ekki þar að breyta.

Til viðbótar þessu vil ég aðeins geta þess, að ég tel það engin rök, þó hæstv. ráðh. segi nú, að það sé óskynsamlegt að stofna sérstakan fiskiðnskóla og taka hann út úr hinu almenna skólakerfi. Ég þykist muna það rétt frá störfum í þessari n., að menn voru mjög opnir fyrir því, að þó að talin væri þörf fyrir sérstakan fiskiðnskóla vegna þeirra sérstöku verkefna, sem þar átti að vinna og voru ekki unnin í öðrum skólum, þá var það talið eðlilegt, einmitt á sviði t.d. hreinlætisfræði og matvælafræði, að nemendur í þessum fiskiðnskóla þyrftu að hafa aðstöðu til að komast inn í aðra skóla í kerfinu, þar sem þessi fög væru kennd. Þegar af þessari ástæðu get ég ekki metið neins þær mótbárur, sem hæstv. ráðh, hafði hér uppi gegn þessu máli og byggðar eru á þessu atriði. Það var alltaf meiningin frá upphafi, að menn gætu farið í aðra skóla til þess að afla sér sérmenntunar í sérstökum greinum, sem lúta að fiskiðnaðinum. Það var talið eðlilegt að sækja þá menntun inn í hið almenna skólakerfi.