04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í D-deild Alþingistíðinda. (3778)

915. mál, fiskiðnskóli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru hér aðeins örfá orð. Ég hef ekki heyrt það fyrr, að sú hugmynd hafi verið rædd af alvöru í fiskiðnskólanefnd, að tengsl milli fiskiðnskóla og almenna skólakerfisins kæmu mjög verulega til greina. Hér er í raun og veru um alveg sömu hugmyndina að ræða og þá, sem ég var að lýsa sem minni persónulegu hugmynd á þessari stundu um beztu lausn málsins. Ég skal gjarnan athuga það betur, hvað um þetta hefur þegar verið rætt í fiskiðnskólanefnd, til þess að fara ekki að vinna það verk upp aftur, sem þar kann að hafa verið unnið. En mér þykir vænt um að heyra hv. þm. lýsa því, að þar hafa verið uppi mjög svipaðar hugmyndir og þær, sem ég var að lýsa til lausnar á málinu.

Að síðustu vil ég svo aðeins geta þess, að það er að sjálfsögðu engin ný bóla, að ágætir menn skipi n. og skili áliti, en till. þeirra séu ekki framkvæmdar, teknar upp af stjórnarvöldum. Það hefur gerzt í fjölda fjöldamörgum tilfellum og er alltaf að gerast og ber ekki að líta á það sem neitt vanmat á þeim mönnum, sem í n. hafa starfað eða till. hafa gert. Það kunna að vera önnur sjónarmið, sem ráða því, að stjórnvöld treysta sér ekki til þess að taka þeirra till. í aðalatriðum eða að öllu leyti óbreyttar upp á sína arma.